Brákarey Fjármálaráðuneytið hefur fallið frá kröfu um Brákarey og Litlubrákarey við Borgarnes sem þjóðlendur, en sú stærri er landföst með brú.
Brákarey Fjármálaráðuneytið hefur fallið frá kröfu um Brákarey og Litlubrákarey við Borgarnes sem þjóðlendur, en sú stærri er landföst með brú. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ríkið hefur dregið til baka nokkur þjóðlendumál á síðustu mánuðum,“ segir Ólafur Björnsson lögmaður, sem hefur í mörg ár varið landeigendur fyrir þjóðlendukröfum ríkisins. Hann nefnir sem dæmi um það Þórðarhöfða í Skagafirði og Brákarey við Borgarnes, sem er landföst með brú

Sviðsljós

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Ríkið hefur dregið til baka nokkur þjóðlendumál á síðustu mánuðum,“ segir Ólafur Björnsson lögmaður, sem hefur í mörg ár varið landeigendur fyrir þjóðlendukröfum ríkisins. Hann nefnir sem dæmi um það Þórðarhöfða í Skagafirði og Brákarey við Borgarnes, sem er landföst með brú. „Ég veit ekki hvort það hafi verið gert alveg formlega ennþá, en það var send orðsending þess efnis í vor. Síðan komu skilaboð frá ríkinu um það að það væri verið að vinna að endurskoðun á kröfugerðinni og öllum málum frestað fram til 2. september nk.“

Ólafur þekkir þennan málaflokk mjög vel enda hefur hann verið að vinna í þessum málum í 25 ár, en fyrsta kröfugerð ríkisins um þjóðlendur var gerð 1. mars 1999. Hann segir að nú sé verið að vinna í kortagerð um svokallaða stórstraumsfjörulínu í kringum landið og óbyggðanefnd, sem er úrskurðaraðili á fyrsta stigi, er að afla meiri upplýsinga fyrir þá kortagerð.

Eins og fram hefur komið óskaði fjármálaráðuneytið eftir því að fresta málsmeðferð vegna þjóðlendna á svæði 12, sem tiltekur eyjar og sker, því ljóst þótti að betri gögn þurfti svo ráðuneytið gæti endurskoðað kröfur sínar.

Snýst um eignarheimild

„Það lá alveg fyrir að kröfusvæði ríkisins væri ekki innan stórstraumsfjörulínu, heldur væru til meðferðar eyjar og sker fyrir utan þá línu. Það má alveg gera ráð fyrir því að kröfugerð ríkisins muni taka talsverðum breytingum í haust þegar allar upplýsingar liggja fyrir.“

Jarðir sem ná að sjó hafa eignarrétt sem nær 115 metra út í sjó, svokölluð netlög og kröfusvæðið er utan við og ríkið getur ekki gert kröfu á eignir sem eru innan svokallaðrar stórstraumsfjörulínu.

„Deilur í þessum málaflokki snúast alltaf svolítið um eignarheimild, hvort sem um er að ræða afréttarland uppi á hálendinu eða önnur lönd sem fólk hefur kannski takmarkaða eða ekki þinglýsta heimild fyrir. Það er stundum svo að ekki er til landamerkjabréf eða þinglýst eignarheimild fyrir sum lönd hjá sýslumanni, heldur kannski bara skráning í fasteignamat, eða í örnefnabækur eða annað slíkt. Það er ekki jafngilt þinglýstri heimild og þá þarf að skoða betur hvort sá sem telur sig eiganda er það í raun eða hvort hann er hugsanlega eingöngu með afnotarétt. Það væru þá óbein eignarréttindi en ekki fullkominn eignarréttur.“

Þegar Ólafur er spurður hvort ráðuneytið hafi farið of hratt af stað með þjóðlendur á svæði 12 í vetur, segir hann að það sé alltaf spurning hver hafi átt að skilgreina þessa stórstraumsfjörulínu, hvort það væri ríkisins eða landeigenda. „Menn héldu að þessi lína væri kannski til í sjókortabókum eða öðru, en hún virðist ekki hafa verið formlega skilgreind, en það er Landhelgisgæslan sem er með bestu gögnin um þetta. Það hefði verið betra að þessar upplýsingar hefðu legið fyrir.“

Erna Erlingsdóttir skrifstofustjóri óbyggðanefndar segir að málsmeðferðin varði eyjar og sker utan meginlandsins. „Málsmeðferðarsvæðið takmarkast annars vegar af strandlengju meginlandsins og hins vegar af ytri mörkum landhelginnar. Meginlandinu var skipt í sextán svæði sem afmörkuðust af sjó en ákveðið var á sínum tíma að fjalla um eyjar og sker í einu lagi síðar,“ segir Erna.

Mörk jarða til sjávar miðast við stórstraumsfjöru og þar með einnig svæðið sem nú er til meðferðar. Að sögn Ernu hafa stórstraumsfjörumörk ekki verið kortlögð en þegar óbyggðanefnd fór að leita heimilda kom í ljós að Landhelgisgæslan átti gögn um fjörulínur sem gætu komið að gagni þótt þau væru ekki tæmandi. „Síðan annast Þjóðskjalasafnið umfangsmikla gagnaöflun fyrir okkur um sögu jarða, en það skiptir miklu máli að afla fjölbreyttra gagna fyrir alla aðila.“

Erna segir að þótt í ljós komi að ákveðin lönd séu ekki eignarlönd sem slík, þá geti fólk átt þar tiltekin notkunarréttindi sem eru eign í sjálfu sér. „Markmiðið er að eignarréttindi liggi ljósar fyrir en áður og þótt í ljós komi að fólk sem hefur talið sig eigendur landsvæða hafi í reynd notkunarrétt, þá er það áfram skýlaus réttur.“

Ríkið gerir kröfur um þjóðlendur byggðar á því mati lögmanna ríkisins að löndin séu ekki eignarlönd, eða að um það ríki óvissa. Þegar kröfurnar berast óbyggðanefnd hefur hún rannsókn, aflar ýmissa gagna og úrskurðar loks um málin. Úrskurðum nefndarinnar um hvort löndin séu eignarlönd eður ei er síðan hægt að skjóta til dómstóla. „Tilgangurinn með málsmeðferðinni er að eyða óvissu um eignarhald á landi.“

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir