Þórunn „Pabbi beindi mér til menntunar og ég er þakklát fyrir föðurömmu mína sem talaði í kveðskap. Nú er ekki lengur hallærislegt að yrkja hefðbundið.“
Þórunn „Pabbi beindi mér til menntunar og ég er þakklát fyrir föðurömmu mína sem talaði í kveðskap. Nú er ekki lengur hallærislegt að yrkja hefðbundið.“ — Morgunblaðið/Eyþór Árnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þessi bók er ákveðið uppgjör við það að vera síðaldra, en ég verð sjötug í haust. Hið góða er að það hefur verið vísindalega sannað að orðfærni vex fram í háa elli, ef við höldum grjónunum, heilanum, í lagi

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Þessi bók er ákveðið uppgjör við það að vera síðaldra, en ég verð sjötug í haust. Hið góða er að það hefur verið vísindalega sannað að orðfærni vex fram í háa elli, ef við höldum grjónunum, heilanum, í lagi. Stór hluti heilans tengist orðum, þessu furðulega fyrirbæri sem við fengum fram yfir apana. Ég hef alltaf verið orðaglöð og blessunin yfir mér,“ segir Þórunn Valdimarsdóttir rithöfundur og sagnfræðingur, sem sendi nýlega frá sér ljóðabókina Fagurboða, þar sem hún fer yfir lífssiglinguna.

„Í fagurboðum felst að þó í hafinu séu vondir boðar og lífsskipið sigli á sker, þá getur fagurt komið út úr því. Lífið er eins og sigling, ef maður hafnar einhverjum, þá setur maður hann í höfn og siglir áfram á hafi tilfinninganna. Ef maður er á siglingu, þá sér maður oft ekki skerin, af því við erum ekki með kort eða lóðsbát fyrir lífið. Ef það er logn, þá sjáum við ekki skerin fyrr en lífsbátur okkar óvænt siglir á þau. Enginn sleppur við það í lífinu að steyta á skeri, en stóra ögrunin er að láta það ekki draga sig niður. Við ráðum ekki hvað kemur fyrir en við ráðum hvernig við tökumst á við það. Ég hef marga fjöruna sopið en maður getur ýtt því sem er að kvelja mann frá sér og beðið það náðarsamlegast að koma hægt og rólega. Ég hef verið miklu meira farsæl en óheppin í lífinu.“

Sleppti beislinu fram af mér

Þórunn segir það hafa verið dálítið snúið að ganga í gegnum 67 ára hlið löglegra gamalmenna.

„Við höldum að við sjálf séum ekki gömul, heldur hinir, en sú ímyndunarveiki er dásamleg. Að eldast er að fá flensu sem aldrei batnar. Ég stekk ekki lengur upp jafn spræk og ég gerði, en ég er þakklát fyrir að vera ekki dauð og vera verkjalaus. Verandi síðaldra gefst meiri tími til að hugsa og ég hef hugsað um af hverju ég er eins og ég er. Fyrstu tvö ár lífs míns voru átta manns að berjast um að hafa mig í fanginu, því amma og afi með tvo syni voru þá flutt inn á foreldra mína og ég átti tvö eldri systkini. Þegar svona margir elska litla stelpu þá trúir hún að hún sé stórkostleg, og það endist ævilangt. Allt þetta góða fólk rótaði í hugsuninni hjá mér. Ég eignaðist fjögur yngri systkini og þá fékk ég að njóta þess að vera herforingi og stjórna þeim. Ég man eftir mér í fanginu á pabba, hann var alltaf svo glaður ef ég gat eitthvað, sem er falleg aðferð til að örva börn. Pabbi beindi mér til menntunar og ég er þakklát fyrir að hafa haft föðurömmu mína sem talaði í kveðskap. Nú á síðustu árum er ekki lengur hallærislegt að yrkja hefðbundið, svo ég sleppti því beisli fram af mér við gerð ljóðanna í Fagurboðum. Ég elskaði ömmu mikið og hún var með þennan takt sem er í kveðandinni, fyrir vikið spruttu þessi ljóð upp úr mér og ég lét rímið rúlla. Nú má maður búa til sína eigin bragarhætti og það var ofboðslega skemmtilegur leikur að setja þetta saman. Ég hef aldrei vitað hvað ritstífla er, en ég er með reglu, ég reyni að gera í dag það sem ég get gert á morgun, því til þess að ég fái hugmyndir þá þarf helst ekkert að hvíla á mér.“

Þórunn segist oft fá hugmyndir sem hún haldi að enginn annar hafi fengið, en komist seinna að öðru.

„Ég var voða ánægð með mig þegar ég hélt að ég hefði hugsað sjálf að engar beinar línur væru í náttúrunni. En ég hlustaði seinna á ævisögu Leonardo da Vinci, þar sem kom fram að hann hafði hugsað þetta. En það er alveg jafn gaman þó það séu fleiri sem hafa fengið sömu hugmynd. Aðalatriðið er ánægja þekkingar, að finna fyrir því sem barn að það gleður þá sem að manni standa að maður sé að ná einhverjum tökum á lífinu og skilji eitthvað. Í fyrsta ljóði Fagurboða segi ég frá því þegar ég fékk þessa sýn að sjá himininn eins og veru sem er með tvö augu, sól og tungl. Stundum er máninn tileygður og stundum dregur hann augað í pung. Kannski hefur einhver hugsað þetta áður, en mamma hafði mikinn áhuga á kosmíku og ég smitaðist af hennar dagatalaáhuga. Hið kosmíska er ógurlega skemmtilegt og himneskt,“ segir Þórunn sem nennir ekki að hafa fastar reglur, líkt og margir setja sér í lífinu.

„Ég er of breytileg manneskja til þess. Hver og ein manneskja er margar manneskjur, ekki aðeins margar sýslur eins og Matthías Jochumsson sagði, heldur erum við líka með mörg hlutverk í lífinu. Dóttirin, ömmubarnið, konan, móðirin, eiginkonan, amman og svo framvegis. Ég veit aldrei hvaða Þórunn vaknar að morgni og hvað hún nennir að gera þann daginn. Kjarkurinn er oft kenndur við karlkynið, en ég hef alltaf vitað að ég er strákstelpa.“

Við höfum ekki frjálsan vilja

Þórunn segir að það sé hugleiðsla að skrifa.

„Að starfa við skiftir er mjög ómeðvituð vinna, þó hluti af henni sé meðvitaður. Ég hélt að hugmyndir kæmu í hvirfilinn, en vísindarannsóknir sýna að þegar við fáum hugmynd þá verðum við glaseygð, eins og lítil börn og dreymið fólk, til að rafmagnsstraumur hugmyndarinnar fái að koma inn um gagnaugað hægra megin og hríslast um allan heilann. Einnig hefur verið sýnt fram á að við höfum ekki frjálsan vilja, en mér finnst stórfenglegur léttir hversu ómeðvitaður maður er, því þá koma meiri töfrar inn í lífið.“

Þórunn segist vera þakklát fyrir menntun sína og að hún sé langstoltust af stóru ævisögunum sem hún hefur skrifað, um Snorra, Matthías og Skúla fógeta.

„Ég var beðin um að skrifa fyrstu þrjár bækurnar og við konur þurfum ekki lengur að skrifa undir karlmannsnafni til að eftir okkur sé tekið. Ég þarf ekki að vera á sviði, ég sit í friði og vinn þetta, svo fer það út og gleður fólk. Ég held að ég sé alveg að ná því að ég sé ekki vitlaus, en sú tilfinning fer aldrei alveg frá manni að maður sé asni. Bókmenntirnar voru það eina sem við Íslendingar gátum og áttum, í þjóðbyggingunni var þetta það sem við gátum fundið til að vera stolt yfir. Tungan og bókmenntirnar urðu okkar trúarbrögð, og það er blessun að fá að vinna á þessum vettvangi. Núna er ég að skrifa fullorðinsminningar mínar, starfsævisögu, hún á að heita Höfuðfuglar og ég er langt komin með hana.“

Að finna sinn töfrakassa

Þórunni finnst við lifa á tímum þar sem allir séu að væla.

„Fólk er þess meira elskað sem það ber sína veikleika á borð. Loksins erum við komin þangað og samfélag okkar er miklu betra eftir að okkur tókst að kveikja samúð með öllum tegundum af manneskjum. Ég vildi óska að það næði líka yfir dýrin. Við mannfólkið erum svo vansæl skepna í eðli okkar, við rembumst alltaf áfram og leggjum undir okkur alla jörðina, en kunnum sjaldan að hvíla í núinu og vera glöð. Hver og einn reynir samt að finna sinn töfrakassa til að láta ekki hið neikvæða í eðlinu tosa sig niður.“

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir