Á þriðja hundrað manns tróðu sér inn á baklóð við Klapparstíginn á sunnudag til þess að hylla Höllu Tómasdóttur nýkjörinn forseta og fjölskyldu hennar, Björn Skúlason forsetamaka og börn þeirra tvö, Auði Ínu og Tómas Bjart.
Á þriðja hundrað manns tróðu sér inn á baklóð við Klapparstíginn á sunnudag til þess að hylla Höllu Tómasdóttur nýkjörinn forseta og fjölskyldu hennar, Björn Skúlason forsetamaka og börn þeirra tvö, Auði Ínu og Tómas Bjart. — Morgunblaðið/Eyþór
Kjördagur rann upp, ekki mjög bjartur og fagur, en landsmenn fjölmenntu samt á kjörstað, enda aldrei meira úrval frambjóðenda, svo allir gátu fundið eitthvað við sitt hæfi. 266.935 voru á kjörskrá. Svipuð kjörsókn var í utankjörfundaratkvæðagreiðslu og árið 2016, en ívið minni en árið 2020

1.6.-7.6.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Kjördagur rann upp, ekki mjög bjartur og fagur, en landsmenn fjölmenntu samt á kjörstað, enda aldrei meira úrval frambjóðenda, svo allir gátu fundið eitthvað við sitt hæfi. 266.935 voru á kjörskrá.

Svipuð kjörsókn var í utankjörfundaratkvæðagreiðslu og árið 2016, en ívið minni en árið 2020.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sótti fund norrænna kollega sinna í Stokkhólmi, en þar var Volodimír Selenskí Úkraínuforseti leynigestur. Norðurlönd skuldbundu sig til 6 milljarða evra stuðnings við Úkraínu næstu fjögur ár.

Dæmi eru um að synja hafi þurft hælisleitendum hér á landi um fjölskyldusameiningu þar sem maki hafi verið á barnsaldri þegar stofnað var til hjúskaparins. Fregnir bárust af því að sómalískur karl á fertugsaldri hefði sótt um slíka sameiningu við 15 ára gamla eiginkonu.

Bæjarráð Akraness mótmælti töfum Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra á útgáfu leyfis til hvalveiða, þær hefðu orðið til stórfellds tjóns fyrir fólk, fyrirtæki og samfélag.

Vegagerðin ætlar að hefja landfyllingar í Fossvogi undir fyrirhugaða hönnunarbrú, sem þar verður smíðuð úr gulli úr kjallara Sigurðar Inga Jóhannssonar fjármálaráðherra.

Tvítugur piltur, sem fór í Fnjóská í liðinni viku, fannst látinn.

Halla Tómasdóttir var kjörin sjöundi forseti lýðveldisins með nokkrum yfirburðum, en hún hlaut 73.182 atkvæði, eða 34,1% gildra atkvæða. Katrín Jakobsdóttir kom þar næst með 25,2%.

Aðrir frambjóðendur náðu ekki yfir 20% og raunar aðeins tveir yfir 10%, þau Halla Hrund Logadóttir með 15,7% og Jón Gnarr með 10,1%.

Kjörsókn var með besta móti, 80,8%.

Þessi afgerandi forysta Höllu var á nokkuð aðra leið en skoðanakannanir höfðu gefið til kynna, en svo virðist sem vænn hópur kjósenda, einkum af vinstrivæng, hafi fylkt sér um hana til þess að koma í veg fyrir að Katrín yrði kjörin.

Einn stjórnmálaskýrandi orðaði það svo að vinstrimenn hefðu hafnað elítunni og kosið auðvaldið.

Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur um land allt og var vel sóttur þó veðrið væri ekki upp á sitt besta.

Þrátt fyrir verulega minnkandi sölu og taprekstur hófst ÁTVR handa við stækkun dreifingarmiðstöðvar fyrir hálfan milljarð króna. Aðstoðarforstjórinn Sigrún Ósk Sigurðardóttir segir að það hafi verið miklu meira að gera þegar ákveðið var að stækka. Frá því yrði ekki hvikað.

Skoðanakönnun Gallup leiddi í ljós fylgishrun Vinstri grænna, sem myndu þurrkast út af þingi ef kosið yrði nú.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, bráðabirgðaformaður Vinstri grænna, skar upp herör gegn lögregluofbeldi, sem málpípur flokksins sögðu daglegt brauð. Enginn annar veit um hvað er verið að ræða.

Útgerðarfélagið Þorbjörn í Grindavík sagði upp 56 manns í landvinnslu og óvíst er um framhaldið vegna jarðhræringa.

Útlendingamálið hökti þegar óvænt messufall varð í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis. Skýringin var sögð vera hatrammar deilur um Menntasjóð.

Embættismennirnir Halla Hrund Logadóttir og Helga Þórisdóttir sneru aftur til fyrri starfa eftir forsetakosningar, þrátt fyrir að hafa látið ýmis orð falla í kosningabaráttunni, sem flækst geta fyrir þeim í embættisstörfum.

Samband sveitarfélaga leggst gegn frumvarpi Svandísar Svavarsdóttur innviðaráðherra um gjaldfrjálsar skólamáltíðir og gagnrýnir samráðsskort við smíði þess.

Kvennalandsliðið í fótbolta sigraði Austurríki 2:1 og á nú góða möguleika á sæti í lokakeppni EM 2025 í Sviss.

Veður var með verra móti á þessum árstíma, víða hefur snjóað og þurfti að loka vegum á Norður- og Austurlandi. Tún hefur kalið og sumir bændur eru uggandi um sinn hag.

Mosfellskirkju var lokað sakir myglu.

Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem úrskurðaðir voru í gæsluvarðhald á síðasta ári var með erlent ríkisfang.

Útlendingafrumvarpið komst loks úr nefnd og stóð meirihlutinn saman að áliti, sem var hreint ekki gefið.

Maður fannst látinn í Þórsmörk, en ekki er talið að neitt misjafnt hafi þar gerst.

Æ fleiri taka út lífeyri 65 ára gamlir, en nú taka um 43% fólks á aldrinum 65-66 ára lífeyrisgreiðslur af einhverju tagi, en vísbendingar eru um að margir þeirra séu enn á vinnumarkaði. Ó, ljúfa líf.

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur og Ásmundur Friðriksson þingmaður leggja til að komið verði á laggirnar þverfaglegu námi í hamfarafræðum, enda bölmóður ekki lengur sú þjóðaríþrótt og áður var.

Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins, segir EES-samninginn ekki binda hendur Íslands við að ákvarða eigin stefnu um undanþágur frá samkeppnisreglum við framleiðslu og vinnslu á kjötafurðum og annarri landbúnaðarvöru.

Hafnarfjörður samdi við HS Orku um einkarétt til rannsókna, virkjunar og ferskvatnsnáms í Krýsuvík og verða auðlindaréttindin leigð fyrirtækinu til 65 ára.

Sjálfstæðismenn í borgarstjórn lögðu fram óvenjunákvæmar fyrirspurnir um lóðaúthlutanir í Gufunesi, en þeir telja fjölmargar lóðaúthlutanir í borgarstjóratíð Dags B. Eggertssonar bera mót gjafagerninga.

Borgnesingum var kynnt ný skipulagshugmynd um gerbreytta nýtingu Brákareyjar, sem setja myndi nýjan svip á byggðarlagið.

Gyðingar á Íslandi eru sagðir óttaslegnir eftir hryðjuverkaárásir Hamas á Ísrael í fyrrahaust og vegna þess stuðnings sem útrýmingarkröfur Hamas hafa notið hér á landi í kjölfarið. Aukins gyðingahaturs hefur gætt víða um heim samhliða mótmælum gegn hernaði í Gasa.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra efndi til viðræðna við alla stjórnmálaflokka á Alþingi um stjórnarskrárbreytingar, m.a. um meðmælafjölda til forsetaframboðs, kjördæmaskipan og vægi atkvæða.

Reykjavíkurborg fékk 15 milljarða króna lán hjá Þróunarbanka Evrópuráðsins til þess að sinna mygluviðgerðum í skólum sínum. Borgin hefur átt í vandræðum með að fjármagna sig á viðunandi kjörum.

Tveir þingmenn gagnrýndu harðlega áform um smíði fokdýrra hönnunarbrúa yfir Ölfusá og Fossvog, sem yrðu margfalt dýrari en þörf væri á, en á meðan sætu þarfari verkefni á hakanum. Alþingi hefði ekki tekið neina ákvörðun um það.

Kristján Loftsson segir Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra eiga skilið skussaverðlaun fyrir seinagang í úthlutun hvalveiðileyfis, þar sem miklum tíma hafi verið sóað í leit alls kyns álita, en Hval hf. voru aðeins gefnir tveir dagar til athugasemda.

ASÍ hefur litlar áhyggjur af því að fjöldi sendla hjá heimsendingarfyrirtækinu Wolt starfi án atvinnuréttinda, og vill tryggja réttindi þeirra. Fyrirtækið beri mesta sök.

Sorpa fær ekki meiri ríkisstyrki til þess að efla sorpflokkun í Svíþjóð.

Landspítalinn greindi frá því að kakkalakkaplágu á spítalanum hefði verið afstýrt.