Baby Reindeer Jessica Gunning og Richard Gadd fara með aðalhlutverkin í Baby Reindeer-þáttunum.
Baby Reindeer Jessica Gunning og Richard Gadd fara með aðalhlutverkin í Baby Reindeer-þáttunum. — AFP/Monica Schipper
Kona að nafni Fiona Harvey hefur höfðað mál gegn streymisveitunni Netflix þar sem hún krefst tæplega 24 milljarða króna í bætur. Fiona heldur því fram að hún sé innblásturinn að eltihrellinum í hinum geysivinsælu sjónvarpsþáttum Baby Reindeer sem voru sýndir á Netflix

Kona að nafni Fiona Harvey hefur höfðað mál gegn streymisveitunni Netflix þar sem hún krefst tæplega 24 milljarða króna í bætur. Fiona heldur því fram að hún sé innblásturinn að eltihrellinum í hinum geysivinsælu sjónvarpsþáttum Baby Reindeer sem voru sýndir á Netflix.

Þættirnir fjalla um Mörthu, ofbeldisfullan eltihrelli, sem er haldin miklum ranghugmyndum um samband sitt við uppistandarann Donny Dunn. Grínistinn Richard Gadd er höfundur þáttanna, en þeir eru sagðir byggjast á sönnum atburðum og persónum úr lífi hans.

Harvey sakar hins vegar Gadd um að hafa byggt Mörthu á sér og að hann hafi sagt ósatt um samskipti þeirra tveggja. Hann hafi því reynt að eyðileggja líf hennar fyrir frægð og fúlgur fjár. Raunveruleg nöfn Gadds og Harvey eru ekki notuð í þáttunum og hvorki Netflix né Gadd hafa staðfest að persónan Martha hafi verið byggð á Harvey.

Lögfræðiteymi Harvey hefur lýst því yfir að þetta sé „mesta lygi sjónvarpssögunnar“ og segir jafnframt að það fari ekki á milli mála að Harvey sé fyrirmyndin að Mörthu. Í þáttunum er gefið í skyn að Martha hafi kynferðislega áreitt Gadd, sent honum 41 þúsund tölvupósta, skilið eftir 350 klukkutíma af talhólfsskilaboðum og að lokum verið dæmd í fangelsi en Harvey hefur neitað að þetta eigi við rök að styðjast í raunveruleikanum.

„Ekkert af þessu er satt, ég held að ég hafi aldrei sent honum neitt,“ sagði Harvey í viðtali við þáttastjórnandann Piers Morgan. Harvey viðurkenndi þó að þau hefðu þekkst en heldur því fram að hún hafi aldrei verið eltihrellir og aldrei farið í fangelsi.

Netflix sagði í yfirlýsingu streymisveitan myndi verjast ásökunum Harvey af fullum krafti. Þá standi Netflix með Gadd, sem eigi rétt á að segja sína sögu.