— Morgunblaðið/Brynjólfur Löve
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nafnorðið hallur merkir 'steinn' og eru nöfnin Hallur og Halla dregin af því. Tvær Höllur voru meðal frambjóðendanna tólf í forsetakosningum fyrir réttri viku, sem þýðir að tæp 17% frambjóðenda báru nafnið Halla

Tungutak

Ari Páll Kristinsson

ari.pall.kristinsson@arnastofnun.is

Nafnorðið hallur merkir 'steinn' og eru nöfnin Hallur og Halla dregin af því. Tvær Höllur voru meðal frambjóðendanna tólf í forsetakosningum fyrir réttri viku, sem þýðir að tæp 17% frambjóðenda báru nafnið Halla. Nafnið er vissulega töluvert sjaldgæfara meðal landsmanna almennt. Hátt á sjötta hundrað Íslendinga bera það sem fyrra nafn og vel innan við fjögur hundruð sem annað nafn.

Seinna nafn Höllu Hrundar orkumálastjóra er nokkuð sjaldgæfara en Höllunafnið, en þó vekur athygli að þótt ekki séu nema dálítið á annað hundrað konur sem heita eingöngu Hrund eða hafa Hrund sem fyrra nafn, þá er Hrund mun vinsælla seinna nafn. Þar er talan hátt í fimm hundruð. Eins atkvæðis nöfn, eins og Hrund, hafa einmitt löngum verið vinsæl sem seinni nöfn. Þegar fyrra nafn viðkomandi persónu er tvö atkvæði, eins og algengt er, kemur fram þekkileg þríliðarhrynjandi sem hljómar kunnuglega: Halla Hrund, Diljá Ýr, Sveindís Jane, Bjarki Már, Gylfi Þór.

Orðliðurinn –hall- leynist innan um og saman við í fleiri mannanöfnum en Hallur og Halla, og er af sama uppruna. Dæmi: Halldís, Halldór, Halldóra, Hallgerður, Hallgrímur, Hallveig; Þórhalla, Þórhallur.

Orðið hallur 'steinn' er náskylt orðinu hellir sem táknar eins konar hol inn í klett eða berg. Annað skylt orð er kvenkynsorðið hella 'flatur steinn' og hér koma gangstéttarhellur úr steini vafalaust upp í hugann. Sem örnefni kemur Hella talsvert víða fyrir á Íslandi og einnig þekkjast fjöldamörg samsett heiti þar sem hella/Hella kemur við sögu, svo sem bæjanöfnin Helludalur og Helluvað. Stærsti byggðarkjarni Rangárþings ytra er Hella þar sem Kaupfélagið Þór byggðist upp. Þaðan er skammt yfir til stórmerkilegra hella, í landi Ægissíðu. Nú vill því svo til að þessi pistill, sem gengur út á nafn nýkjörins forseta lýðveldisins, hefur haft óvænta viðdvöl á æskuslóðum meðframbjóðandans Baldurs Þórhallssonar.

Orðið höll er enn einn ættinginn í orðafjölskyldu Halls og Höllu. Kvenkynsorðið höll hefur það sérkenni í beygingu sinni að þurfa ekki endilega að vera án endingar í þágufalli eintölu (í þessari höll) eins og algengast er, heldur bregður stundum fyrir gamalli beygingarmynd: í höllu drottningar. Þetta kemur m.a. fyrir í frægum brag Björns M. Ólsens, Þegar hnígur húm að Þorra: „Snorri kallinn kunni að svalla /og að kæta rekka snjalla / þegar húmi tók að halla / í höllu Skúla jarls.“

Í steinbyggingum á borð við Kristjánsborgarhöll eða Kensingtonhöll er skemmtilegt að minnast uppruna orðsins höll og orðsifjanna þar sem hallar, hellur, hellar, Hallar og Höllur koma við sögu. Nú er meira en líklegt að nýi forsetinn okkar muni einhvern tíma á ferlinum eiga opinber erindi í þvílík mannvirki, og sjálfsagt verður forsetamakinn þar stundum með í för, með Höllu sinni í höllu drottningar.