Endurskoðuð spá Ferðamálastofu sýnir að spáin fyrir heimsóknir ferðamanna hingað til lands hefur lækkað miðað við fyrri spá stofunnar í ársbyrjun. Ferðamálastofa gaf út spá 10. janúar í ár en sendi svo frá sér endurskoðun 6. júní sl.
Í ársbyrjun spáði Ferðamálastofa að ferðamenn hér á landi yrðu í kringum 2.450.000 í ár en endurskoðuð spá sýnir að talan verði nær 2.175.000 sem er lækkun upp á 275.000 ferðamenn. Var þá spáð 2.620.000 ferðamönnum hingað til lands árið 2025 en endurskoðun sýni nú 2.270.000 ferðamenn á landinu á næsta ári sem er lækkun upp á 350.000 ferðamenn. Árið 2026 spáði Ferðamálastofa upprunalega 2.740.000 ferðamönnum hingað til lands en spáð er nú að tala ferðamanna verði nær 2.340.000 sem er lækkun upp á 400.000 ferðamenn.
Um færri heimsóknir ferðamanna til landsins segir Ferðamálastofa að vísbendingar séu um að ferðaþjónusta annars staðar á Norðurlöndum nái betur til sinna markhópa og taki til sín stærri skerf af þeim. Þurfi líka að taka tillit til þess að áhrif eldsumbrota á Reykjanesi auki óvissu um vilja ferðamanna til að koma.
egillaaron@mbl.is