Berjadagar Hátíðin fer að þessu sinni fram dagana 14.-17. júní á Ólafsfirði en ekki í ágúst líkt og venjan er. Á myndinni lengst til hægri er Ólöf, þá Eyjólfur Eyjólfsson, Bjarni Frímann Bjarnason og Vera Panitch.
Berjadagar Hátíðin fer að þessu sinni fram dagana 14.-17. júní á Ólafsfirði en ekki í ágúst líkt og venjan er. Á myndinni lengst til hægri er Ólöf, þá Eyjólfur Eyjólfsson, Bjarni Frímann Bjarnason og Vera Panitch. — Ljósmynd/Guðný Ágústsdóttir
„Áheyrendur mega búast við að hvert atriði komi á óvart,“ segir Ólöf Sigursveinsdóttir, sellóleikari og listrænn stjórnandi tónlistarhátíðarinnar Berjadaga, sem fram fer á Ólafsfirði dagana 14.-17

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

„Áheyrendur mega búast við að hvert atriði komi á óvart,“ segir Ólöf Sigursveinsdóttir, sellóleikari og listrænn stjórnandi tónlistarhátíðarinnar Berjadaga, sem fram fer á Ólafsfirði dagana 14.-17. júní, spurð að því hverju unnendur hátíðarinnar megi búast við í ár. Berjadagar voru stofnaðir árið 1998 og hefur hátíðin fest sig vel í sessi á þessum 26 árum enda er hennar beðið ár hvert með eftirvæntingu að sögn Ólafar.

„Tónlist er rík að tengingum, við mörg hundruð ára sögu og alla leið inn í okkar samtíma með tónlistarskólum og fjölbreyttu framboði af fulllærðu tónlistarfólki sem starfar víða í samfélaginu. Svo er það náttúrulega líka fólkið á staðnum og einstaklingar sem eiga rætur á svæðinu sem hafa verið mikilvægir í gegnum tíðina og lagt hátíðinni lið.“

Einstök orka

Berjadagar voru stofnaðir undir einkunnarorðunum „Náttúra og listsköpun“ af Erni Magnússyni píanóleikara, föðurbróður Ólafar. En þrátt fyrir að fjölskyldan hafi haft veg og vanda af mótun hátíðarinnar frá upphafi segir Ólöf hátíðina þó alls ekki hverfast um fjölskylduna heldur Ólafsfjörð sjálfan.

„Ólafsfjörður er rótgróið samfélag og það er samhugur með hátíðinni. Það bætir samfélagið enn frekar þegar fólk hittist og talar saman. Hvort sem það er á flottum tónleikum eða eitthvað annað. Það verður eitthvað til þegar tónlistarmenn, gestir og íbúar koma saman til að hlýða á músík. Ég lít á tónlistarmenn sem auðlind sem getur bætt samfélagið með nærveru sinni og ástríðu,“ segir hún.

Mikilvægt fyrir landsbyggðina

Innt eftir því hversu mikilvæg hátíð sem þessi sé fyrir íslenskt tónlistarlíf, og þá sér í lagi fyrir Ólafsfjörð, stendur ekki á svari.

„Við erum að reka Sinfóníuhljómsveitina, Íslenska óperuna og Listahátíð í Reykjavík. Það er því gífurlega mikilvægt að við séum með mótvægi við þetta á landsbyggðinni, til þess að byggðin finni líka til sín menningarlega, fólk geti flutt á svæðið og þar séu í boði flottir klassískir viðburðir.“

Þá segir Ólöf að allt frá því að hún tók við hátíðinni hafi Berjadagar í raun þroskast eins og einstaklingur. „Þarna hafa til dæmis brasilískir hljóðfæraleikarar flutt á svæðið og gefið sinn kraft með mögnuðum suðuramerískum lögum og rytma og þar kom inn dansinn og frelsið til að hreyfa sig við músíkina. Brasilískt kvöld er orðið fastur liður sem gefur hátíðinni lit. Þetta er eitt af því sem hefur þróast með tíð og tíma,“ segir hún og bætir því við að til sé hafsjór um allt land af geggjuðu tónlistarfólki sem hafi lært erlendis og þrái fátt annað en að koma fram á tónleikasviði og leika sér. „Það er samt stundum ekki alveg hlaupið að því að fá fólk á tónleika þannig að það er gott að kalla fólk saman á fallegan stað til þess að hlusta á fjölbreytta tegund listamanna. Núna vil ég að KK og Ellen komi og sýni kannski svolítið aðra hlið á þessu íslenska sönglagi því þau hafa sungið sig inn í hjörtu landsmanna um langa tíð. Þau koma úr aðeins öðruvísi geira en mér finnst mikilvægt að bjóða upp á þessa fjölbreytni í tónlistinni. Annars vegar er það þessi háskólamenntaða og menningartengda list og hins vegar þessi dægurlagatónlist sem við eigum sem er auðvitað svakalegur drifkraftur. Ég hlakka mjög mikið til að heyra í þeim í Tjarnarborg því það er mikilvægt að fylla þessi flottu tónleikahús af músík.“

Heiðra Jón Þorsteinsson

Sú nýbreytni verður á hátíðinni í ár að boðið verður upp á sérstakt „Nonnakvöld“, tileinkað Jóni Þorsteinssyni stórsöngvara og söngkennara. „Framvegis verður alltaf eitt „Nonnakvöld“ á hátíðinni til heiðurs Nonna, sem lést núna 3. maí síðastliðinn. Hann var mér og hátíðinni mikill stuðningur. Við áttum það til að ræða um hátíðina og hvað myndi vera gaman að gera. Hann söng reglulega í Ólafsfjarðarkirkju og kirkjan á honum mikið að þakka en hann var meðal annars í kirkjukórnum sem ungur drengur og á síðari árum studdi hann við starfið með því að raddþjálfa. Hann var náttúrulega bara stórsöngvari og heimsborgari sem bjó á Ólafsfirði og því miður nýtur hans ekki lengur við þannig að í rauninni vil ég með þessu kvöldi tileinka bæði sönginn og tónlistina honum,“ segir Ólöf og tekur fram í kjölfarið að frumflutt verði sérstaklega „Vögguvísa“ eftir Báru Grímsdóttur honum til heiðurs.

Ánægja skín úr augum gesta

En skyldi ekkert vera erfitt að halda úti slíkri hátíð ár eftir ár sem kallar á margra mánaða skipulagningu?

„Ég spyr mig að því á hverju ári af hverju ég sé að standa í þessu. En svo horfi ég á tónlistarfólkið fá einlægasta og fallegasta klapp sem það hefur fengið því það myndast svo mikil stemning og ánægja gesta skín úr augum þeirra. Ég verð að segja að þetta er það sem fær mig til að endurtaka leikinn,“ segir Ólöf.

„Það er svo góð aðstaða í kirkjunni og við hlökkum alltaf til að stíga þar inn og flytja eitthvað sem er ógleymanlegt. Oft tjáir fólk undrun sína á því hvað áhrifin frá tónlistinni geta verið sterk og ólík,“ segir hún og vitnar að lokum í falleg ummæli úr gestabók hátíðarinnar eftir Margréti Eymundardóttur: „Berjadagar á Ólafsfirði eru ferðalag bæði hið ytra og hið innra. Fegurð fjalla og tóna, tærleiki lofts og listar mætast á hátíðinni. Leið vegar og hugar að því sem býr í hæfileikum þátttakenda, hvort sem er í formi tónlistarflutnings eða fræðslu. Það er tilhlökkunarefni að mæta og vera partur af því fagra, gefa sig upplifun Berjadaga á vald.“

Lesa má nánar um dagskrá og listamenn hátíðarinnar á berjadagar.is.

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir