Knatthúsið Undir knatthúsinu uppgötvaðist djúp sprunga sem teygir sig frá horni til horns, yfir allan völlinn.
Knatthúsið Undir knatthúsinu uppgötvaðist djúp sprunga sem teygir sig frá horni til horns, yfir allan völlinn. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Sonja Sif Þórólfsdóttir sonja@mbl.is

Viðtal

Sonja Sif Þórólfsdóttir

sonja@mbl.is

Ákvörðun var tekin um miðjan apríl að ekkert skólahald yrði í Grindavík næsta vetur og tilkynnti bærinn að 149 manns yrði sagt upp. Stór hluti þess er starfsfólk Grunnskóla Grindavíkur, en þar hefur öllu starfsfólki verið sagt upp, líka skólastjóranum. Það var því blendin tilfinning þegar síðustu 10. bekkingarnir útskrifuðust frá skólanum í upphafi vikunnar og skólahaldi slitið daginn eftir, að sögn Eysteins Þórs Kristinssonar skólastjóra.

Alls útskrifuðust 47 nemendur úr 10. bekk, en það voru 62 nemendur sem hófu nám síðastliðið haust. Grindvísk börn dreifast nú um 30 sveitarfélög víðs vegar um landið.

Ekki staður fyrir börn

Safnskólar voru stofnaðir fyrir grindvísk börn í kjölfar hamfaranna í Grindavík og fengu svo fjölskyldur val um hvort börnin sæktu safnskóla með sínum kennurum úr Grindavík eða færu í hverfisskólana, ef fjölskyldan hefði komið sér fyrir til lengri tíma í einhverju hverfi. Reyndist þetta kerfi henta ágætlega en var þó aðeins hluti af bráðaviðbragði. Ljóst var á vormánuðum, eftir kvikuhlaup og eldgos á nokkurra vikna fresti í næsta nágrenni við Grindavík, að hugsa þyrfti í varanlegri lausnum.

Skólabyggingin sjálf, sem hýsti fyrir 10. nóvember Grunnskóla Grindavíkur, fór illa út úr þeim gríðarlegu jarðhræringum sem urðu þann örlagaríka dag. Undir knatthúsinu, þar sem grindvísk börn sóttu æfingar, opnaðist stór sprunga. Telja jarðvísindamenn Grindavík ekki vera stað þar sem börn geta verið að leik.

Sérðu fyrir þér að Grunnskóli Grindavíkur verði einhvern tíma opnaður aftur?

„Já, ég á svo sem alveg von á því. Þetta er mjög stór spurning. Ég á von á því að á einhvern hátt verði samfélag þarna aftur. Mín tilfinning er að það verði mjög ólíkt því sem áður var. Ekki nándar nærri jafn stórt. Þegar róast í jörðinni gæti byggðin færst. Ég á von á því að þetta byggist aðallega upp í kringum sjávarútveginn, svo kemur meira eins og þjónusta, og svo ferðamannaiðnaður. Þetta er mjög öflugt iðnaðarsamfélag, Grindavík. Og vonandi verður það áfram, en ég er ekki viss um að það verði alveg strax,“ segir Eysteinn.

Á þriðjudag verða sjö mánuðir síðan Grindvíkingum var gert að rýma bæinn sinn. Spurður að því hvort reynslan í kjölfar eldgossins í Heimaey árið 1973 hafi komið að notum við að takast á við ástandið segir Eysteinn að það hafi því miður komið í ljós að lítið er til af samtímarannsóknum.

„Margar þeirra voru gerðar löngu, löngu seinna og gefa ekki endilega rétta mynd af hlutunum. Það er mikilvægt að háskólasamfélagið taki við sér núna, ekki bara jarðvísindamennirnir,“ segir Eysteinn.

Erfitt að tala um langtímaáætlanir

Að sögn Eysteins hefur undanfarna mánuði verið erfitt að tala um langtímaáætlanir og kveðst hann hafa verulegar áhyggjur af því núna að það verði erfitt fyrir Grindvíkinga að fóta sig.

„Fólk er búið að vera í mikilli spennu. Núna er fólk að fara að setjast að og byrja í nýrri vinnu og aðlagast nýjum veruleika. Vonandi gengur það vel, en eins og ég sagði áðan, þetta er meiri áskorun þegar fólk gerir þetta ekki af fúsum og frjálsum vilja, í kjölfar hamfara.“

Ætlað að grípa Grindvíkinga

Þjónustuteymi við Grindvíkinga tók til starfa sl. mánudag og er ætlað að taka utan um Grindvíkinga. Jóhanna Lilja Birgisdóttir, yfirsálfræðingur hjá Grindavíkurbæ, mun taka við því verkefni að leiða þetta nýja teymi.

Hún segir að um 40% barna á öllum skólastigum í Grindavík hafi nýtt sér sálræna aðstoð sem stjórnvöld í samvinnu við Grindavíkurbæ hafa boðið börnum og fjölskyldum frá því hörmungarnar dundu yfir 10. nóvember.

„Morguninn eftir rýmingu fórum við strax að skoða leiðir til að grípa börnin og fjölskyldur þeirra, það var okkur efst í huga að koma á einhvers konar rútínu í lífi barnanna í þessari óvissu,“ segir Jóhanna í samtali við Morgunblaðið.

Þjónustuteymið leggur áherslu á að styðja við börn og foreldra, sem og aðra Grindvíkinga í víðu samhengi. Meðal annars verður áhersla lögð á að tryggja áfram aðgengi barna að sálrænum stuðningi og styðja við skólagöngu þeirra með því að leggja áherslu á móttökuáætlanir og áfallamiðaða starfshætti þar sem þau stunda nám.

Eykur líkur á kvíða

Jóhanna kveðst hafa haft fræðin að leiðarljósi í öllu þessu ferli og litið til rannsókna um líðan og heilsu í kjölfar náttúruhamfara.

„Ástæðan fyrir því að við lögðum mikið kapp á að koma skólahaldi á og að tengja börnin inn í skólana er að fræðin segja okkur að langtímarof eða truflun á skólagöngu barna sem hafa lent í náttúruhamförum getur aukið ákveðna áhættuþætti, kvíða og svefn- og hegðunarvanda til dæmis,“ segir Jóhanna.

Hún segir að í gegnum þessa sjö mánuði hafi þau sífellt þurft að endurmeta stöðuna og að hún líti helst á þetta sem fasakerfi. Safnskólunum hafi verið komið á í bráðafasa þar sem grípa þurfti börnin. Í upphafi árs hafi þau svo þurft að fara að hugsa til lengri tíma.

„Nú erum við að detta inn á þennan langtímafasa. Atburðarásin er sannarlega enn í gangi, en við þurfum að tryggja öryggi grindvískra barna. Björgunarhringurinn þeirra er að komast í öruggt og tryggt húsnæði. Börn eru að komast í sem eðlilegast umhverfi þar sem þau hafa tímabundið, eða til lengri tíma, þurft að aðlagast inn í nýtt samfélag eða umhverfi,“ segir Jóhanna.

Búa við verri heilsu lengi

Ríkið hefur að stórum hluta stigið inn í viðbragðið eftir því sem almannavarnir hafa dregið sig út úr því og þannig var þjónustuteyminu komið á fót.

Jóhanna bendir á að rannsóknir sýni að ákveðinn hópur barna sem lenda í náttúruhamförum búi við verri andlega og líkamlega heilsu talsvert lengi eftir að hamförum lýkur og því sé mikilvægt að halda áfram að styðja við Grindvíkinga, bæði fullorðna og börn.

„Við þurfum að huga að því að fræðin segja okkur líka að líðan foreldra hefur mikil áhrif á líðan barna og hvernig þeim reiðir af í framtíðinni. Við erum núna að gera áætlun um hvernig við veitum sálrænan og félagslegan stuðning við foreldra,“ segir Jóhanna.

Staða foreldra erfið

Hún segir stöðuna hafa verið gríðarlega flókna að takast á við fyrir grindvíska foreldra.

„Þetta er búin að vera mjög flókin staða. Foreldrar hafa verið undir mjög miklu álagi og ákveðinn hópur hefur misst atvinnu sína. Þetta er mikil keyrsla, milli tómstunda og skóla, ganga frá eignum, kaupa nýjar eignir, þetta eru allar þessar risastóru ákvarðanir og breytingar í lífi fólks. Þú sprengir streituskalann,“ segir Jóhanna.

„Það er einmitt þess vegna sem þetta nýja þjónustuteymi er mikilvægt. Því er ætlað að opna faðminn og grípa fjölskyldurnar,“ segir Jóhanna.

Geta foreldrar ekki gleymt sjálfum sér undir öllu þessu álagi?

„Jú, og það er það sem hefur að stórum hluta gerst. Það er svo mikið álag á foreldrum og hefur verið. Svo þegar hægist um, þá hef ég áhyggjur af því að þau finni fyrir þessu. Foreldrar eru í því viðbragði núna að reyna að lifa af og út frá hugmyndafræði bandaríska sálfræðingsins Maslows um fimm þrepa þarfapíramídann þá eru foreldrar rétt að vinna sig áfram á fyrsta þrepi, það er að segja að uppfylla grunnþarfir fjölskyldunnar. Þess vegna hvetjum við fólk að leita til okkar og fá aðstoð,“ segir Jóhanna.

Enn í miðjum atburði

Hún bendir líka á að enn séu Grindvíkingar sem ekki eru komnir með fasta búsetu eða atvinnu.

„Við þurfum að finna leiðir til að hjálpa. Við getum ekki lofað að við getum leyst allan vanda en við viljum geta stutt við fólk,“ segir Jóhanna og bætir við að teymið muni koma til með að teygja sig til fólks til að aðstoða það. Þó sé búið að opna fyrir umsóknir á Ísland.is.

„Mér finnst svo mikilvægt að halda áfram að tala um Grindavík. Við erum enn í miðjum atburði náttúruhamfara, við verðum mæta þeim, hlusta eftir því hvað þau hafa segja og gera allt sem við getum til að halda utan um Grindvíkinga,“ segir hún að lokum.

Höf.: Sonja Sif Þórólfsdóttir