Aðrir stóðu augljóslega í þeirri meiningu að þeir væru að bjóða sig fram til embættis helsta friðarstillis í heiminum.

Pistill

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Ég verð að viðurkenna að ég er steinhættur að botna í því hvað snýr upp og hvað snýr niður á þessu blessaða forsetaembætti okkar eftir þessa kostulegu kosningabaráttu. Á löngum köflum leið mér eins og þorri frambjóðenda væri að gefa kost á sér í eitthvert allt annað embætti.

Sumir gáfu sterklega í skyn að þeir væru eingöngu að bjóða sig fram til að hafa hemil á og flengja ríkisstjórn landsins með naglaspýtu enda væri hún í eðli sínu illa innrætt á hverjum tíma og hefði þann tilgang einan að klekkja á þessari þjóð og troða henni um tær. Í þeirri umræðu kom sjaldnast fram að Alþingi er þjóðkjörið fyrirbrigði og fyrir vikið hægt að taka í lurginn á því í heild eða eftir atvikum ríkisstjórninni í næstu kosningum. Forsetinn þarf ekkert að sitja um ríkisstjórnina og velta fyrir sér yfir kornflexinu á morgnana hvaða lögum hann ætli að synja staðfestingar þann daginn, eins og fráfarandi forseti, Guðni Th. Jóhannesson, benti á í kosningavöku RÚV.

Aðrir stóðu augljóslega í þeirri meiningu að þeir væru að bjóða sig fram til embættis helsta friðarstillis í heiminum og að framtíð mannkyns hreinlega ylti á þeim – og þeim einum. Hvaða þvæla eiginlega er þetta? Auðvitað er æskilegt að forseti Íslands tali almennt séð fyrir friði en að frumskylda hans sé að flengjast heimshorna á milli til að stilla til friðar og bremsa af styrjaldir er auðvitað eins og hver önnur fantasía. Eða eins og Jón Gnarr orðaði það í einum kappræðunum: „Ef forseti Íslands hringdi í Benjamín Natanjahú þá myndi hann ábyggilega ekki svara.“

Skarplega athugað hjá Jóni sem manni fannst á löngum köflum vera eini frambjóðandinn sem almennilega skildi embætti forseta Íslands, eins og það hefur þróast undanfarna átta áratugi. Og hann er hvorki prófessor, stjórnmálamaður né embættismaður, heldur hefur hann lengst af skilgreint sig sem háðfugl. Hér var hann þó sá eini sem fékkst til að fjalla um embættið af alvöru. Auðvitað á forsetinn fyrst og fremst að vera stemningsmaður.

Fyrst Jón sagði sig að mestu frá sprellinu í kosningabaráttunni var gott að hafa Ástþór Magnússon enn og aftur á svæðinu. Hann fór sem fyrr með hávandað spé og leitun er að friðarsinna sem lætur eins ófriðlega. Satt best að segja bjóst ég fastlega við því að lögregla þyrfti að mæta í lokakappræðurnar og járna kappann og piparspreyja hann í drasl, svo æstur var hann strax við fyrstu spurningu. Reif upp alls kyns skjöl og veifaði þeim framan í þáttarstjórnendur sem frusu í sporum sínum. Allt fór þó á endanum vel.

Ég óttast að Ástþór láti nú staðar numið með þennan lífseiga og mergjaða gjörning . Og þó. Hann ætti enn að verða í fullu fjöri eftir átta ár eða 12.