Íslandsmet Elísabet Rut bætti eigið Íslandsmet í Eugene í Oregon.
Íslandsmet Elísabet Rut bætti eigið Íslandsmet í Eugene í Oregon. — Ljósmynd/TXST
Elísabet Rut Rúnarsdóttir úr ÍR bar sigur úr býtum í sleggjukasti á bandaríska háskólamótinu í frjálsum íþróttum í Eugene í Oregon í fyrrinótt. Elísabet kastaði lengst 70,47 metra og bætti þriggja mánaða gamalt Íslandsmet sitt um 0,13 metra

Elísabet Rut Rúnarsdóttir úr ÍR bar sigur úr býtum í sleggjukasti á bandaríska háskólamótinu í frjálsum íþróttum í Eugene í Oregon í fyrrinótt.

Elísabet kastaði lengst 70,47 metra og bætti þriggja mánaða gamalt Íslandsmet sitt um 0,13 metra. Var hún sú eina sem kastaði lengra en 70 metra á mótinu.

Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir, sem kastar fyrir VCU, varð fimmta með kast upp á 69,12 metra. Er það þriðja lengsta kastið hennar á ferlinum.

Það er nóg að gera hjá þeim vinkonum því þær eru báðar á meðal keppenda á Evrópumótinu í Róm á Ítalíu en keppni í sleggjukastinu fer fram á morgun, sunnudag.

Þær tryggðu sér þátttökurétt á EM með stöðu sinni á heimslistanum, en 30 keppendur mæta til leiks í greininni í Róm og fara 12 efstu í úrslit.

Allt verður að ganga upp hjá Elísabetu og Guðrúnu til að fara áfram í úrslit því 24 keppendur hafa kastað lengra á sínum ferli en Elísabet gerði í Eugene. Kastið hjá Elísabetu hefði þrátt fyrir það dugað til að ná fimmta sæti á EM í München fyrir tveimur árum. Guðrún á best 69,76 metra, sem hefði einnig dugað í fimmta sætið í Þýskalandi.

Bianca Ghelber frá Rúmeníu, Evrópumeistarinn frá því fyrir tveimur árum, freistar þess að verja Evrópugullið sitt. Ewa Rozanska frá Póllandi, sem varð í öðru sæti fyrir tveimur árum, er einnig á meðal keppenda, eins og Sara Fantini frá Ítalíu sem varð í þriðja sæti. Hanna Skydan á lengsta kast þeirra sem keppa á morgun, 77,10 metra.