Dæmi eru um að undirverktakar hjá heimsendingarfyrirtækinu Wolt, sem eru með atvinnuleyfi á Íslandi, leigi réttindi sín áfram til annarra einstaklinga sem hafa ekki atvinnuleyfi á Íslandi. Í opnum hópi á Facebook má sjá fólk falast eftir því að…

Dæmi eru um að undirverktakar hjá heimsendingarfyrirtækinu Wolt, sem eru með atvinnuleyfi á Íslandi, leigi réttindi sín áfram til annarra einstaklinga sem hafa ekki atvinnuleyfi á Íslandi.

Í opnum hópi á Facebook má sjá fólk falast eftir því að leigja atvinnuréttindi hjá sendlum Wolt og fólk sem auglýsir atvinnuréttindi sín hjá Wolt til leigu.

Lögreglan hefur undanfarna daga haft afskipti af fjölda fólks sem starfar án atvinnuréttinda sem sendlar hjá Wolt.

Þeim sem leigja atvinnuréttindi áfram verði sagt upp

„Einstaklingarnir sem lögreglan hafði afskipti af voru ólöglegir undirverktakar sem sinntu sendingum fyrir löglega sendla hjá Wolt. Að gera það er samningsbrot og þeim sendlum Wolt sem hafa leigt atvinnuréttindi sín áfram til annarra einstaklinga sem hafa ekki atvinnuleyfi á Íslandi verður sagt upp hjá Wolt,“ segir Christian Kamhaug upplýsingafulltrúi Wolt í samtali við Morgunblaðið.

Hefja andlitsgreiningu í appi

„Til að ganga úr skugga um að sá sem fer með sendingar fyrir Wolt sé í raun og veru sá sami og Wolt hefur samið við höfum við frá og með 3. júní hafið notkun andlitsgreiningar í appinu sem sendlarnir nota,“ segir hann.

Hann segir að andlitsgreiningin í appinu sem starfsmennirnir nota hafi verið prófuð í Finnlandi í nokkurn tíma og að Wolt hafi í framhaldinu ákveðið að innleiða það á íslenska markaðinum til að stöðva ólöglega leigu á atvinnuréttindum.

vally@mbl.is