Michel Platini fyrirliði Frakka lyftir Evrópubikarnum sumarið 1984.
Michel Platini fyrirliði Frakka lyftir Evrópubikarnum sumarið 1984. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvaða þjóðir voru þá eiginlega eftir í undanúrslitum á þessu óvenjulega móti? Von að þið spyrjið.

Synd væri að segja að menn hafi blóðmjólkað lokakeppni EM sumarið 1964 sem viðburð. Aðeins fjögur lið tóku þátt í henni og stóð veislan í heila fimm daga, frá 17. til 21. júní. Var fyrirkomulagið óbreytt frá fyrsta mótinu sem fór fram fjórum árum áður. Þátttökuþjóðirnar voru gestgjafarnir, Spánverjar, ríkjandi Evrópumeistarar, Sovétmenn, Ungverjar og frændur vorir Danir sem þar með urðu fyrsta Norðurlandaþjóðin til að spreyta sig á þessu stærsta sviði álfunnar.

Ekki voru þessi lið þó handvalin, af þar til bærum einræðisherra, þau voru í hópi 29 þjóða sem hófu keppni í forkeppni EM tveimur árum fyrr. Ekki var leikið í riðlum, heldur var um hreina útsláttarkeppni að ræða. Leikið heima og að heiman. Austurríki, Lúxemborg og Sovétríkin sátu hjá í fyrstu umferð en hinar þjóðirnar tókust á um 13 laus sæti í 16 liða úrslitunum. Raunar dró Grikkland sína pilta úr keppni, harðneitaði að mæta Albaníu. Vandlátir á sína mótherja, Grikkir. Albanar flutu því áfram.

Við Íslendingar reyndum okkur við Íra en lutum í gras, 5:3 samtals. Írar fóru alla leið í 8-liða úrslitin, steinlágu þar fyrir Spánverjum. Danir unnu spútniklið Lúxemborgar í leikauka, Ungverjar höfðu betur gegn Frökkum og Sovétmenn lögðu Svía.

Þegar fyrir lá hvaða fjögur lönd myndu bítast um bikarinn var eitt þeirra fengið til að halda mótið, Spánn. Lagðir voru til tveir leikvangar, engir Sanavellir – með fullri virðingu fyrir þeim góða velli – Santiago Bernabéu í Madríd og Camp Nou í Barselónu.

Sjónvarp harðbannað

Undanúrslitaleikirnir fóru fram 17. júní, daginn sem íslenska þjóðin fagnaði 20 ára afmæli lýðveldisins. Ekki svo að skilja að menn hefðu ella horft á leikina; sjónvarp var harðbannað hér í fásinninu. Enda bráðspillandi fyrir hrekklausa þjóð.

Chus Pereda kom Spánverjum yfir gegn Ungverjum með laglegum skalla en Ferenc Bene jafnaði fyrir þá síðarnefndu með ofboðslega ljótu marki undir lok hefðbundins leiktíma. Það var svo Amancio sem tryggði heimamönnum sigurinn í framlengingunni. Sá ágæti maður er af Amaro-ættinni spænsku sem ekki skal rugla saman við Amaro-fjölskylduna á Akureyri.

Danir voru Sovétmönnum lítil fyrirstaða í hinum leiknum, töpuðu 3:0. Mögulega hefur það haft áhrif á árrisulan danskinn að ekki var flautað til leiks fyrr en klukkan hálfellefu um kvöldið. Miklir kvöldmenn, Spánverjar, og erfitt að fylla vellina fyrr en nær dregur miðnætti. Voronin, Ponedelnik og Ivanov skoruðu mörkin.

Danir fóru með Ungverja alla leið í framlengingu í leiknum um bronsið á Nývangi. Aftur var Bene á skotskónum en Carl Bertelsen jafnaði fyrir Dani undir lok venjulegs leiktíma og varð þar með fyrsti Norðurlandabúinn til að skora á lokamóti EM. Bertelsen lék um tíma í Skotlandi en gerðist síðar kennari heima í Danmörku. Ungverjar unnu með tveimur mörkum frá Dezsö Novák í framlengingu.

Staðan í úrslitaleiknum í Madríd var orðin 1:1 eftir aðeins tíu mínútur; fyrrnefndur Pereda kom heimamönnum yfir en Tatarinn Galimzyan Salikhovich Khusainov, kallaður Spartakus af vinum og kunningjum, jafnaði fyrir Sovétríkin. Spartakus lét það ekki flækjast fyrir sér á velli að hann var aðeins 163 sentimetrar á hæð. Það var svo miðherjinn knái Marcelino sem tryggði Spánverjum sigurinn með glæsilegri kollspyrnu á 84. mínútu, að viðstöddum ríflega 79 þúsund áhorfendum, þeirra á meðal einræðisherranum sjálfum, Francisco Franco. Sigrinum var fagnað vel og lengi, á leikvanginum, strætum og torgum.

Dómari leiksins var Holland frá Englandi.

Dægilegir Danir

Sléttum tuttugu árum síðar, 1984, hafði liðunum verið fjölgað um helming og fór lokamótið fram í Frakklandi. Það stóð í rúmar tvær vikur.

Væntingar heimamanna voru miklar eftir gott gengi Blástakkanna þeirra á HM á Spáni tveimur árum áður, þar sem þeir féllu úr leik í undanúrslitum eftir vítakeppni gegn Þjóðverjum. Liðið brást heldur ekki í riðlinum; vann alla leiki sína þrjá, gegn Dönum, Belgum og Júgóslövum. Aðalstjarna liðsins, fyrirliðinn Michel Platini, mætti einbeittur til leiks og eftir þessa þrjá leiki var hann kominn með sjö mörk, þar af tvær þrennur.

Gullaldarlið Dana, sem þarna var að slíta barnsskónum, fylgdi Frökkum í undanúrslitin. Við erum að tala um kappa á borð við Michael Laudrup, Preben Elkjær Larsen, Morten Olsen, Frank Arnesen og Søren Lerby. Roliganarnir vel hressir á pöllunum. Með öl í annarri og pylsu í hinni.

Úr hinum riðlinum komust nágrannarnir Spánn og Portúgal áfram og skildu eftir Vestur-Þjóðverja, sem höfðu titil að verja, og Rúmena. Mun minna var skorað í þeim leikjum, aðeins níu mörk á móti 23 í Frakkariðlinum. Meðal markaskorara var Rúmeninn László Bölöni – sem er ruddalega gott nafn. Rudi Völler gerði einu mörk V-Þjóðverja, tvö talsins. Spánverjum nægði þrjú mörk til að komast áfram og Portúgölum tvö. Platini skoraði sumsé fleiri mörk í riðlinum en þessar tvær þjóðir til samans.

Portúgal veitti Frakklandi þó, býsna óvænt, harða keppni í undanúrslitunum á Stade Vélodrome í Marseille. Eftir 90 mínútur var staðan jöfn, 1:1. Jean-Françoise Domergue kom heimamönnum yfir en Rui Jordão jafnaði fyrir Portúgal. Í framlengingunni hljóp svo almennur galsi í menn; Jordão og Domergue skoruðu báðir aftur, áður en Platini steig sjálfur inn í atburðarásina og tryggði sigurinn á 119. mínútu, 3:2.

Danir og Spánverjar bárust einnig á banaspjót á Stade de Gerland í Lyon og þurftu á vítum að halda til að útkljá rimmuna eftir að hafa gert sitt markið hvor þjóð í leiknum. Lerby fyrir þá rauðhvítu og Antonio Maceda fyrir Spánverja. Allir Spánverjarnir skoruðu úr sínum spyrnum fram hjá Ole gamla Qvist en Elkjær misnotaði seinustu spyrnu Dana.

Níu mörk frá Platini

Úrslitaleikurinn fór fram á Parc des Princes í París að viðstöddum ríflega 47 þúsund áhorfendum. Leið nú og beið eftir fyrsta markinu sem kom ekki fyrr en á 57. mínútu þegar frekar máttlítil aukaspyrna Platinis smaug undir felmtri sleginn Luis Arconada í markinu. Aumingja maðurinn hefur enn ekki fengið að gleyma því marki en hann verður sjötugur síðar í þessum mánuði. Bruno Bellone gerði þó sitt til að létta Arconada lífið með öðru marki Frakka á lokamínútu leiksins. Alltént var það þá ekki sigurmark.

Vel fór á því að Platini rifi Evrópubikarinn upp sjálfur að leik loknum en um var að ræða fyrsta stóra titil Frakka; þeir urðu ekki heimsmeistarar fyrr en 1998, einnig á heimavelli. Hann gerði níu mörk í fimm leikjum á mótinu, Arnesen hin danski kom næstur með þrjú. Ótrúlegt afrek og eitt það stærsta sem stakur leikmaður hefur unnið í sögu EM og líka HM, ef því er að skipta.

Vojtech Christov frá Tékkóslóvakíu dæmdi leikinn.

Mót óvæntra úrslita

Tólfta lokamót EM fór fram í Portúgal sumarið 2004. Þá var búið að fjölga liðunum í 16 og reyndu þau með sér í rúmar þrjár vikur. Mun meira var nú orðið umleikis.

Mótið 2004 einkenndist af óvæntum úrslitum. Þannig lágu heimamenn strax í fyrsta leik gegn Grikkjum sem enginn spáði frama á mótinu, 1:2. Portúgalar, með ungstirnið Cristiano Ronaldo í sínum röðum, náðu þó vopnum sínum og komust áfram í átta liða úrslitin, með því að leggja Spánverja og Rússa. Þau stórveldi sátu eftir þegar riðlakeppnin var gerð upp ásamt ekki smærri þjóðum, Ítölum og Þjóðverjum. Frakkar, sem voru ríkjandi Evrópumeistarar, fóru heim með skottið milli fótanna eftir átta liða úrslitin, lutu í gras gegn varnarsinnuðum en ólseigum Grikkjum.

Englendingar kvöddu veisluna líka á því stigi eftir ósigur gegn Portúgölum í vítakeppni. Miðið geigaði þar hjá sjálfum David Beckham og muniði hver hinn var sem brást bogalistin? Jú, rétt hjá ykkur, Darius Vassell. England og vítakeppni fer sem kunnugt er álíka vel saman og kindabjúgu og þeyttur rjómi.

Hvaða þjóðir voru þá eiginlega eftir í undanúrslitum á þessu óvenjulega móti? Von að þið spyrjið.

Annars vegar áttust við Portúgalar og Hollendingar í Lissabon og hins vegar Grikkir og Tékkar í Porto.

Grikkir, sem komnir voru með fimm mörk í fimm leikjum á mótinu fram að því, náðu ekki að brjóta ísinn fyrr en í framlengingu; Traianos Dellas laumaði þá inn sigurmarkinu.

Í hinni viðureigninni fór Portúgal vel af stað og var komið í 2:0 eftir 58 mínútur með mörkum frá Ronaldo og Maniche. Þá tók miðvörðurinn Jorge Andrade upp á þeim óskunda að skora sjálfsmark og hleypa spennu í leikinn. En Portúgal hélt út og tryggði sér sæti í sjálfum úrslitaleiknum.

Hann fór fram á Ljósvangi í Lissabon sunnudaginn 4. júlí. Sama kvöld og þrassbandið goðsagnakennda Metallica tróð upp í Egilshöllinni, þannig að talsvert dró úr áhorfi á leikinn hér í fásinninu.

Fór á annan veg

Þrátt fyrir þéttleika Grikkjanna bjuggust flestir við til þess að gera auðveldum sigri Portúgala. Það fór á annan veg. Ronaldo og vígbræður hans fundu enga leið gegnum grísku vörnina og á 57. mínútu kom mark við hinn endann; miðherjinn stæðilegi Angelos Charesteas skoraði þá með kollspyrnu. Þar við sat og portúgalska þjóðin vatnaði músum um stund. Hún átti þó eftir að taka gleði sína aftur – tólf árum síðar í Frakklandi. En af því móti verður ekki hermt hér.

Markakóngur varð Tékkinn Milan Baroš, með fimm stykki.

Ha, hver dæmdi úrslitaleikinn?

Já, afsakið, ég var næstum búinn að gleyma því. Markus Merk frá Þýskalandi.

Nú falla einmitt öll vötn til Þýskalands. Hvað gerist á mótinu sem hefst eftir fáeina daga?

Höf.: Orri Páll Ormarsson