— IMDB
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sumarið er hafið þótt veðrið beri það ekki með sér og fríið er fram undan. Þá finnur fólk upp á ýmsu að gera, en flestir eiga það sameiginlegt að vilja slaka á. Það getur verið góð afþreying að fara í bíó eða horfa á góða kvikmynd heima í sófa, og…

Sumarið er hafið þótt veðrið beri það ekki með sér og fríið er fram undan. Þá finnur fólk upp á ýmsu að gera, en flestir eiga það sameiginlegt að vilja slaka á. Það getur verið góð afþreying að fara í bíó eða horfa á góða kvikmynd heima í sófa, og eftir langan sumardag getur það verið leið til að slaka á með vinum og fjölskyldu.

Flestir eiga sínar uppáhaldskvikmyndir og hjá sumum fer það val eftir árstíma eða fríum. Alveg eins og hægt er að horfa á sérstakar jólamyndir eru margar kvikmyndir sem fólk flokkar sem sérstakar sumarmyndir. Það getur haft eitthvað að gera með söguþráðinn eða sögusviðið, og stundum er það einfaldlega sumartilfinning sem fylgir ákveðnum kvikmyndum.

Hér hefur verið tekinn saman listi yfir sex bestu sumarmyndir allra tíma, í engri sérstakri röð. Valið er byggt á alls konar heimildum, persónulegum smekk og áliti annarra.

Stand by Me

Þessi klassíska kvikmynd frá 1986 er flestum vel kunnug en hún sló í gegn þegar hún kom út og hefur notið vinsælda síðan. Sagan segir frá fullorðnum manni sem rifjar upp þegar hann og þrír æskuvinir hans lögðu upp í ferðalag eitt sumarið eftir að þeir fréttu af dauða manns skammt frá og ætluðu að finna líkið. Ferðin er löng og þeir komast að mörgu um lífið og sjálfa sig á leiðinni, en mest af öllu læra þeir um vináttu.

Mamma Mia!

Kvikmyndin er lauslega byggð á lögum Abba, og segir frá Donnu, hóteleiganda á grískri eyju, og dóttur hennar Sophie. Þegar styttist í brúðkaup Sophie ákveður hún að reyna að hafa upp á föður sínum, en hann hefur Sophie aldrei hitt og hefur í raun enga hugmynd um hver hann er. Þrír menn koma til greina og Sophie býður þeim öllum í brúðkaupið, án vitundar Donnu. Sögusviðið er stórkostlegt og kvikmyndin er stútfull af skemmtilegum karakterum, lögum sem hægt er að syngja með og dönsum sem gaman er að horfa á.

The Parent Trap

Í þessari kvikmynd frá 1998 leikur Lindsay Lohan tvíburasysturnar Annie og Halle, sem kynnast fyrir tilviljun í sumarbúðum í Bandaríkjunum. Þeim finnst fljótlega grunsamlegt hversu líkar þær eru og komast að því að þær eru eineggja tvíburar sem voru aðskildar við fæðingu þegar foreldrar þeirra skildu.

Anne býr í London með móður sinni og Halle á vínekru í Kaliforníu með föður sínum. Þær langar báðar að kynnast því foreldri sem hin býr hjá og taka upp á því að skipta um hlutverk. Það er mikil vinna að kynnast lífi hinnar nægilega til þess að fjölskyldu þeirra fari ekki að gruna eitthvað, en þetta er einnig gert með því endanlega markmiði að koma foreldrum þeirra saman á ný.

Footloose (2011)

Þessi endurgerð af samnefndri kvikmynd frá 1984 er hressandi gamanmynd en á sama tíma sorgleg og átakamikil. Hún segir frá unglingi, Ren McCormack, sem flytur úr stórborg í smábæ þegar móðir hans deyr. Hann fær að búa hjá móðurbróður sínum og verður hluti af fjölskyldunni. Bærinn er þó enginn venjulegur smábær og þar er mikið af einkennilegum reglum. Nokkrum árum áður höfðu ungmenni verið á leið af balli og lent í árekstri. Þau dóu öll, og þar sem einn drengurinn var sonur prestsins í bænum voru samdar reglur sem fullorðna fólkið taldi að myndu draga úr líkum á því að álíka slys henti aftur. Reglurnar bönnuðu því háværa tónlist, dans á almannafæri og fleira sem unglingar fást vanalega við. Ren McCormack er mótfallinn þessum reglum og tekur upp á því að reyna að fella þær úr gildi, með hjálp vina sinna.

I Know What You Did Last Summer

Ein frægasta hryllingsmynd allra tíma er að sjálfsögðu tilvalin fyrir sumarfríið. Fjórir vinir úr menntaskóla eru í bíltúr síðla nætur og keyra á mann með þeim afleiðingum að hann deyr. Þau flýja vettvang og sverja að segja aldrei nokkrum manni frá þessu hræðilega slysi.

Ári síðar hafa þau öll haldið sína leið og eru hvert í sínum háskóla víðs vegar um Bandaríkin. Þau eru öll komin heim til þess að verja sumarfríinu í heimabænum, þegar þau fá undarlega bréfsendingar. Bréfin eru nafnlaus og í þeim segir einfaldlega: „Ég veit hvað þú gerðir síðasta sumar.“ Vinahópurinn byrjar að rannsaka málið og reynir að komast að því hver sendandi dularfullu bréfanna er, en sú rannsókn hrindir af stað hættulegri atburðarás.

The Sisterhood of the Traveling Pants

Fjórar vinkonur hafa verið óaðskiljanlegar frá unga aldri – en í fyrsta skipti munu þær verja sumrinu á mismunandi hátt.

Kvöldið áður en þær halda hver í sitt frí finna þær fyrir tilviljun gallabuxur sem passa þeim öllum. Þær telja buxurnar búa yfir töframætti og ákveða að senda þær á milli sín yfir sumarfríið, ásamt bréfi þar sem segir frá ævintýrum þeirra.

Gallabuxurnar eru ákveðin myndlíking fyrir vinskap þeirra, og yfir sumarið lenda þær í alls kyns hlutum, bæði ævintýrum og sorglegum atburðum. Þrátt fyrir erfiðleika styðja þær alltaf hver aðra og komast í gegnum allt það sem gerist saman.

Höf.: Margarét Friðrikson