Unaður Nína og Embla snúa upp á sköpunarsöguna í glænýju sviðsverki sínu, Eden, sem er hluti af Listahátíð í Reykjavík.
Unaður Nína og Embla snúa upp á sköpunarsöguna í glænýju sviðsverki sínu, Eden, sem er hluti af Listahátíð í Reykjavík. — Ljósmynd/Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir
„Okkur langaði að finna farveg til að nota feminísk fræði, hinseginfræði og fötlunarfræði í listsköpun,“ segir Embla Guðrúnar Ágústsdóttir, sjálfstætt starfandi fræðimaður, aktívisti og sviðslistakona, um sýninguna sína Eden

Jóna Gréta Hilmarsdóttir

jonagreta@mbl.is

„Okkur langaði að finna farveg til að nota feminísk fræði, hinseginfræði og fötlunarfræði í listsköpun,“ segir Embla Guðrúnar Ágústsdóttir, sjálfstætt starfandi fræðimaður, aktívisti og sviðslistakona, um sýninguna sína Eden. Sýningin verður sýnd sem hluti af Listahátíð 14. og 15. júní í Tjarnabíói og er samvinnuverkefni Emblu og Nínu Hjálmarsdóttur, sviðshöfundar, fræðimanns og menningarrýnis, en þær eru líka einu flytjendur sýningarinnar sem er blanda af leikriti og dansverki.

Afmá tvíhyggjuna

Nína segir hugmyndina hafa vaknað í samstarfi þeirra við sýninguna Góða ferð inn í gömul sár en Embla var tilnefnd til Grímuverðlaunanna sem dansari ársins 2023 fyrir frammistöðu sína þar. „Hugmyndin vaknaði í samstarfinu þegar við áttuðum okkur á því að við vorum báðar hrifnar af Audre Lorde og hennar hugmyndum um hið erótíska eða unaðinn, þá sérstaklega hvernig jaðarsett fólk getur nálgast, fundið og unnið með sinn unað í heimi sem gerir ekki ráð fyrir þeim,“ segir Nína. Embla segir þá hugmyndina hafa vaknað um að nota sköpunarsöguna og Adam og Evu sem efniðvið til að segja þá sögu og spegla sig í en í lýsingunni á verkinu segir að í þeirra Eden „er lykt af píku og nýslegnu grasi, og hrúga af hálfétnum eplum í horninu. Það er eitthvað skrítið við okkar Eden, eitthvað á ská, eitthvað óþægilegt. Adam & Eva eru ekki að leika hlutverkin sín eins og þau hafa alltaf gert.“

„Við fórum að velta því fyrir okkur hvernig við pössuðum inn í þessa sköpunarsögu og hvernig Eden myndi líta út í okkar huga, það er að segja hvernig fötlunar- og hinsegin-Eden myndi líta út í dag,“ segir Embla.

Húmorinn er aldrei langt undan í verkinu en að sögn Nínu vinna þær með mismunandi karaktera til að sýna hversu fáránlegt það er að þurfa að máta sig inn í ákveðin viðmið eða ákveðnar hugmyndir um líkama og afmá þannig tvíhyggjuna í verkinu, tvíhyggjuna milli fatlaðra og ófatlaðra, konu og karls, manns og náttúru.

Gefur fólki leyfi til að horfa

„Markmiðið var að skapa leikhús fyrir jaðarsetta hópa í staðinn fyrir að þeir séu hálfgerð eftiráhyggja,“ segir Embla. „Í hefðbundnu leikhúsi þarf manneskja í hjólastól að sitja á palli á hliðarlínunni alveg sér en í okkar söguheimi er gert ráð fyrir öllum. Þetta er í raun ekki inngildandi, við erum ekki að opna viðmiðin þannig að þau taki á móti fötluðu eða hinsegin fólki heldur erum við að skapa heiminn út frá þeirra tilveru. Fólk í hjólastólum fær því bestu sætin á þessari sýningu,“ bætir Nína við.

Að sögn Nínu vinna þær mikið með tilvitnanir úr eigin lífi og ýmsum sköpunarsögum. „Það munu ekki allir skilja hugmyndafræðina og tilvitnanirnar. Það er til dæmis margt í verkinu sem hinsegin fólk og fatlað fólk og annað jaðarsett fólk mun bara tengja við.“ Embla segir ferlið þannig hafa verið í heild sinni svolítið berskjaldandi en í senn valdeflandi. „Sem fötluð manneskja er oft verið að horfa á líkama minn, það er til dæmis glápt á mig úti á götu. Það er því ákveðin valdefling þegar ég býð fólki að horfa á mig, þá fæ ég að stjórna því hvernig líkaminn birtist þannig að þótt þetta sé berskjaldandi þá er þetta líka valdeflandi á sama tíma.“

Hver var hvatinn að sýningunni?

„Fólk býst kannski við því að sjá erfiðar persónulegar sögur þegar maður er að vinna með málefni jaðarhópa en við nálgumst það öðruvísi, merkingarsköpunin á sviðinu er ekki hugsuð sem fræðsla fyrir alla áhorfendur heldur fylgjum við einhverju innsæi og unaði,“ segir Nína. Embla segir hins vegar svar sitt miðast við hversu fáséð það er að sjá fatlað fólk á sviði. „Ég byrja alltaf á því að hugsa hvað ég hefði viljað sjá á sviði þegar ég var tvítug,“ segir Embla og heldur áfram: „Það var líka auðvitað mikil hvatning fyrir okkur þegar við fengum að vita að við gætum sýnt á Listahátíð, það var mikill hvati fyrir því að halda áfram og finna út úr því hvernig við gætum komið þessu á koppinn.“

Eden er hinsegin fötlunarparadís sem afmiðjar norm samfélagsins og leyfir áhorfendum að finna fyrir hinu erótíska innra með sér, að því er kemur fram í lýsingunni. Að sögn Emblu og Nínu leikur erótík eða unaður stórt hlutverk í sýningunni og þaðan er drifkrafturinn fenginn. „Við eltum unaðinn og skoðum hvert hann leiðir okkur í samfélaginu og líka í réttindabaráttunni en af því að við þurfum að berjast fyrir því að fá lifa og finna út úr öllu þessu praktíska þá er það mjög frelsandi að fara bara inn í unaðinn. Fókusinn á unaðinn er svo ótrúlega róttækur þegar þú ert jaðarsett. Til dæmis bara það að fötluð kona leyfir sér að gera það sem henni finnst gott er eitthvað sem má ekki alveg. Þannig að unaðurinn, í víðum skilningi, getur verið mjög gagnlegur, hann er til dæmis búinn að kenna mér margt,“ segir Embla og heldur áfram. „Við höfum líka lagt áherslu á þennan sameiginlega unað, að deila hvert með öðru unaði, sem er dálítið mikilvægt líka af því að í dag er svo mikil einstaklingshyggja sem fylgir meiri einstaklingshugsun.“ Nína bætir því við að unaður sé ekki alltaf ánægjulegur. „Það að uppgötva að maður hefur aldrei spurt sig hvað manni finnst raunverulega gott, af því að samfélagið og handrit samfélagsins er búið að vera að segja manni hvað er rétt og gott, er bæði góð tilfinning en líka mjög sársaukafullt.“

Dansari í maganum

Áður en viðtalið kláraðist laumuðu þær því að blaðamanni að það væri einn annar dansari með þeim í sýningunni en Embla er með barni og á að eiga í ágúst þannig að þær ætla að bíða með að sýna Eden aftur þangað til í apríl á næsta ári. Það er því risaverkefni fram undan hjá Emblu en Nína er einnig með nóg á prjónunum, hún heldur hinsegin klúbbakvöld sem heita Sleikur sem verða á Hinsegin dögum í ágúst. Samhliða þessu starfar hún einnig sem kennari í Listaháskóla Íslands og sem menningarrýnir en Nína segir það fylgja því að vinna í sviðlistasenunni að þurfa að skipta svona oft um hatta.