Nú sýna kannanir að aðeins Svíar setja loftslagsmál í efsta sæti. Nágrannar Rússa og íbúar fleiri ríkja setja varnir og öryggi sitt efst í spurningum um kosningamál.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Nú í vikulokin er kosið til ESB-þingsins í 27 aðildarríkjum Evrópusambandsins. Um 360 milljón kjósendur velja 720 þingmenn til fimm ára setu á þinginu. Þeir skiptast nú í sjö þingflokka:

Miðhægri: EPP, European People's Party; jafnaðarmenn: Progressive Alliance of Socialists and Democrats; frjálslynda: Renew Europe; græningja: Greens/European Free Alliance; til hægri við EPP: European Conservatives and Reformists (ECR); lengst til hægri: Identity and Democracy (ID) og lengst til vinstri: The Left.

Hefð er fyrir því að EPP, jafnaðarmenn og frjálslyndir fari með pólitíska forystu innan ESB. Nú er EPP-fulltrúinn, Þjóðverjinn Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB; frjálslyndi Belginn Charles Michel er forseti leiðtogaráðs ESB og sósíalíski Spánverjinn Josep Borrell er utanríkis- og öryggismálastjóri ESB.

Þegar Ursula von der Leyen var valin í valdamesta embætti ESB árið 2019 var það að tillögu flokkssystur hennar, Angelu Merkel Þýskalandskanslara. Von der Leyen var sótt úr embætti varnarmálaráðherra Þýskalands þvert á óskrifað fyrirheit um að oddvitar þingflokka í kosningum til ESB-þingsins skyldu valdir til forystu í valdastofnunum ESB.

Í kosningunum núna er Ursula von der Leyen oddviti EPP-flokksins. Því er spáð að hann verði áfram stærsti þingflokkurinn innan ESB. Hvort það dugi oddvita hans til að halda forsætinu kemur í ljós. Stefnt er að því að ákvörðun um næsta forseta framkvæmdastjórnarinnar verði tekin fyrir lok júní. Ný framkvæmdastjórn kemur þó ekki til sögunnar fyrr en í nóvember eftir afgreiðslu þingsins á tillögum um einstaka framkvæmdastjóra og viðræður við þá í þingnefndum.

Charles Michel, forseti leiðtogaráðsins, stjórnar fundum leiðtoga ríkjanna 27 þegar þeir ráða ráðum sínum um stjórnendur ESB næstu fimm árin. Hefur þegar verið boðað til óformlegs kvöldverðarfundar um málið mánudaginn 17. júní.

Michel verður ekki í forystuhlutverki innan ESB á næsta kjörtímabili. Hann olli uppnámi innan sambandsins í vor þegar hann sagðist ætla að segja sig frá forsetaembættinu og bjóða sig fram til ESB-þingsins. Var hann talinn ofan af þeirri ráðagerð, hún myndi skapa glundroða í æðstu stjórn ESB. Varð Michel fyrir álitshnekki vegna dómgreindarskorts.

Michel er sagður bera kala til Ursulu von der Leyen eftir kynnin á undanförnum fimm árum. Hann kann að valda henni erfiðleikum í leiðtogaráðinu. Hefur Emmanuel Macron Frakklandsforseti kannað áhuga á að Ítalinn Mario Draghi, fyrrverandi bankastjóri evrunnar í Frankfurt og forsætisráðherra Ítalíu, verði forseti nýrrar framkvæmdastjórnar. Hefur framtakið fallið í grýttan jarðveg en Draghi kynni þó að koma til álita í stað Michels.

Von der Leyen hefur lagt sig fram um að rækta gott samband við Gigoriu Meloni forsætisráðherra Ítalíu. Flokkur hennar, Bræður Ítalíu, verður að líkindum öflugur á hægri vængnum á nýju ESB-þingi.

Jafnaðarmönnum mislíkar þetta flökt Ursulu von der Leyen til hægri. Sama gildir um miðjumanninn Macron Frakklandsforseta en flokkur hans myndar kjarna ESB-þingflokks frjálslyndra. Flest bendir hins vegar til að Macron tapi verulega í kosningunum í Frakklandi og Þjóðarhreyfing Marine Le Pen vinni góðan sigur.

Le Pen hefur undirtökin í ID-þingflokknum, lengst til hægri á ESB- þinginu. Nýlega voru Þjóðverjar í AfD-flokknum reknir úr ID eftir að leiðtogi flokksins sagði ekki alla SS-menn nazista hafa verið glæpamenn. Þá hefur aðstoðarmaður hans verið sakaður um njósnir fyrir Kínverja. Á ESB-þinginu eru ID-menn auk þess grunaðir um að ganga erinda Rússa með kröfum um að vestrið hætti að styðja Úkraínumenn með vopnum.

Forystumenn AfD hafa eftir brottreksturinn úr ID rætt við öfgafulla þjóðernissinna í öðrum löndum um að stofna eigin þingflokk á ESB-þinginu eftir kosningarnar. Hugmyndin kann að höfða til þingmanna frá Póllandi, Litháen, Búlgaríu, Ungverjalandi og Slóvakíu. Hófsöm eða vinsamleg afstaða í garð Rússa myndi sameina þessa flokka. Alls þurfa 23 þingmenn frá sjö ríkjum að taka höndum saman til að fá viðurkenningu sem þingflokkur.

Kannanir fyrir ESB-þingkosningarnar árið 2019 sýndu að loftslagsmál og hlýnun jarðar voru ráðandi í hugum kjósenda. Á kjörtímabilinu hefur framkvæmdastjórn ESB beitt sér fyrir „grænum“ málum. Nú sýna kannanir hins vegar að aðeins Svíar setja loftslagsmál í efsta sæti. Nágrannar Rússa og íbúar fleiri ríkja setja varnir og öryggi sitt efst í spurningum um kosningamál.

Könnunarfyrirtækið Eurobarometer lagði spurningar fyrir íbúa ESB-landa í febrúar og mars 2024 og nú skipa loftslagsmál fimmta sæti í huga kjósenda. Danir töldu varnarmál mikilvægust og sömu sögu er að segja um Þjóðverja, Hollendinga, Finna, Pólverja, Tékka, Eistlendinga, Letta og Litháa.

Málin fjögur fyrir ofan loftslagsmál eru baráttan gegn fátækt, heilbrigðismál, atvinnuleysi auk varnarmálanna. Það er einkum í Austur- og Suður-Evrópu sem efnahags- og samfélagsmálin ber hátt.

Niðurstaða þessarar könnunar er skýrð á þann veg að kjósendur líti á baráttuna gegn hlýnun jarðar sem „lúxus“ og hún verði að víkja fyrir öðrum brýnni verkefnum. Heimsfaraldur og stríð í Evrópu auk verðbólgu verði til þess að menn líti sér nær en verkefni sem skili ef til vill árangri eftir nokkra áratugi verði einfaldlega að bíða.

Það eru skýrar vísbendingar um breyttar áherslur í evrópskum stjórnmálum sem eiga fullt erindi til Íslendinga og íslenskra stjórnmálamanna.