„Ég vil að myndirnar komi mér á óvart,“ segir Davíð.
„Ég vil að myndirnar komi mér á óvart,“ segir Davíð.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Myndefnið, sem er óhlutbundin fantasía, byggist á þeim hughrifum sem ég verð fyrir við að virða þessar miklu framkvæmdir fyrir mér.

Davíð Örn Halldórsson sýnir nýleg verk í Þulu í Marshallhúsinu. Yfirskrift sýningarinnar er Typisch gluggaveður.

Davíð útskrifaðist með BA-gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2002. Hann hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og einkasýninga á Íslandi, í Bandaríkjunum og Evrópu. Davíð býr og starfar í Stuttgart, Þýskalandi.

„Verkin á sýningunni eru frá síðustu tveimur árum. Þau byggjast á alls kyns hugmyndum um gluggaútsýni, til dæmis það að horfa inn og út um glugga, nokkuð sem hefur verið notað mikið í listasögunni. Hugtakið týpískt gluggaveður þekkist svo vel hér á Íslandi en kannski ekki neins staðar annars staðar,“ segir Davíð.

Um myndefnið segir hann: „Vinnustofan mín í Stuttgart er í gamalli lögreglustöð en þar er verið að gera stórframkvæmdir því verið er að snúa við aðalbrautastöðinni. Sviptingarnar fyrir utan gluggann minn snúast ekki um veður heldur er þar að rísa mikill arkitektúr og hreyfing er á öllu. Þannig að ég er ekki að horfa til veðurs heldur horfa á iðnaðarmenn reisa byggingar. Myndefnið, sem er óhlutbundin fantasía, byggist á þeim hughrifum sem ég verð fyrir við að virða þessar miklu framkvæmdir fyrir mér.“

Sérstök áferð er á verkunum á sýningunni. „Myndirnar fá sérstaka áferð vegna efnisins sem ég nota, sem er epoxy-efni, plastkvoða, sem skapar glansáhrif og verkin minna því á steinda glugga. Nú er ég óstöðvandi, allt verður að vera glans og fínpússað.“

Hann segir liti skipta sig miklu máli. „Ég er hrifinn af óvæntum litasamsetningum og vil að myndirnar komi mér á óvart.“ Það má segja að myndirnar á sýningunni hafi gert það því hann segir annars konar tilfinningu fylgja því að sjá þær í sýningarsal en á vinnustofunni. „Vinnustofan mín er mjög litrík þannig að ég er sjá myndirnar í fyrsta skipti í hvítu rými hér í sýningarsalnum. Þá eru þær komnar út úr samhenginu sem þær voru í og ég horfi á þær á annan hátt.“

Í sýningartexta víkur Erik Sturm einmitt að þessu og segir: „En ég er sannfærður um að myndirnar ná aðeins hæstu gæðum sínum í hlutlausu gallerírými þar sem áhrif myndanna eru einbeitt. Hvíti kassinn skapar möguleika á að taka þátt í hverju verki fyrir sig og sökkva sér inn í heim Davíðs.“

Á sýningunni eru þrír skúlptúrar. „Þeir eru hliðarverkefni. Ég móta þá úr málningunni sem ég nota við að mála þannig að þeir verða til jafnóðum og ég vinn í málverkunum. Þeir sýna ekkert sérstakt, mig langaði til að skapa skúlptúr í kassa og þannig eru þeir á sýningunni.“

Spurður hvernig sé að vera listamaður í Stuttgart segir Davíð: „Ég var heppinn með vinnustofu. Þar erum við nokkur, mjög ólíkt listafólk, en allir atvinnumenn sem vinnum að list okkar. Ég var ekkert að flýta mér við að kynnast listalífinu í Stuttgart þannig að í byrjun einangraði ég mig og hélt áfram að vinna. Nú er ég hægt og hljótt að kynnast listalífinu í Stuttgart og í fyrra tók ég þátt í samsýningunni Solid Transitions sem var haldin í þessum nýju lestargöngum.“