Enn hafa engin svör borist við spurningum Sjálfstæðismanna í borgarráði um lóðaúthlutun í Gufunesi, ekki síst fjárhagslega þýðingu hennar. Ætti þó megnið af svörunum að liggja fyrir í ráðhúsinu en á þeim bólar ekki. Við blasir að þarna er ekki spurt út í loftið og brýnt að undanbragðalaus svör komi fram.
Ekki þó aðeins vegna þessara tilteknu lóða, því að undanförnu hafa spurningar um ráðstöfun bensínstöðvalóða orðið æ áleitnari.
Svör Dags B. Eggertssonar, formanns borgarráðs og fv. borgarstjóra, um það hafa verið ákaflega ósannfærandi; nákvæmlega hvað hafi búið þar að baki og hvers vegna honum var svo í mun að búa til verðmæti fyrir olíufélögin úr engu. Því frumkvæðið virðist hans, ekki þeirra.
Sama virðist hafa verið upp á teningnum við úthlutun lóða í Vatnsmýri.
Ugglaust áttu þessar ákvarðanir sér einhver pólitísk markmið í huga þáverandi borgarstjóra, hvort heldur var um uppbyggingu „þekkingarþorps“, „kvikmyndaþorps“ eða orkuskipta í borginni.
Framkvæmdin öll ber hins vegar merki um handahófskennda stjórnsýslu og gerræðisleg vinnubrögð, þar sem hagsmunir borgarbúa máttu í besta falli víkja fyrir háleitum hugmyndum og hégóma.
Í öllum tilvikum vildi líka svo til, að hinum útvöldu hlotnuðust um leið verulegir fjármunir fyrir örlæti borgarstjórans fyrrverandi. Fjármunir sem með réttu hefðu átt að renna í hinn galtóma borgarsjóð.
Hér þarf því ekki aðeins svör, heldur rannsókn.