Úr ólíkum áttum
Úr ólíkum áttum
Þórdís Kolbrún R.
Gylfadóttir
thordiskolbrun@althingi.is
Menntun og mannauður eru grundvöllur hvers samfélags og forsenda langtímahagvaxtar og velsældar til framtíðar. Við viljum og þurfum að skapa íslensku menntakerfi svigrúm til að bregðast við hröðum breytingum, áskorunum og tækifærum nútímans.
Þetta er ekki einfalt verkefni. Samfélag okkar hefur tekið hröðum breytingum á undanförnum árum og áratugum, en margt bendir til þess að skólakerfið hafi ekki náð að halda í við þessar breytingar. Með því að hlúa að skapandi hugsun, þekkingu og vísindum og tryggja öllum tækifæri til þátttöku munum við auka samkeppnishæfni okkar í síkvikum heimi.
Góðir skólar skipta okkur öll máli
Öll óskum við þess að börnunum okkar farnist vel. Að þau séu heilbrigð og hamingjusöm, fái að njóta sín á eigin forsendum og finna sína leið í lífinu. Skólinn er stór og mótandi þáttur í lífi barna. Þess vegna þarf að leggja áherslu á gæða skólastarf þar sem öll börn mæta hlýju og skilningi – um leið og við náum árangri.
Góðir skólar eru fjöregg þjóðarinnar og þar undirbúum við nemendur fyrir lífið. Velferð barnanna – og þar með framtíð samfélagsins alls – er í húfi. Við viljum bæta líf barnanna okkar, byggja þau upp og styrkja. Því viljum við gera allt sem í okkar valdi stendur til að börnin okkar fái að vaxa og dafna í fjölbreyttu og vönduðu námsumhverfi.
Það er engin einföld eða stök lausn til að auka gæðin í íslensku menntakerfi heldur samspil margra þátta. Við þekkjum það flest hvaða áhrif góður kennari getur haft. Við erum smáþjóð og við verðum að passa upp á allt okkar fólk. Þannig er mikilvægt að styðja við hæfileika nemenda, hverjir sem þeir kunna að vera, og efla sköpunarkraft barnanna, meðal annars með því að auka þátt lista og nýsköpunar í skólastarfinu.
Við stöndum frammi fyrir alvarlegri stöðu
Árangur íslenskra nemenda í alþjóðlegri samanburðarmælingu PISA mælist undir meðallagi OECD-ríkja og Norðurlanda í öllum þáttum og fer hrakandi. Við skuldum börnunum okkar að gera betur. Þróun síðustu ára er samspil margra þátta og margir koma að – og við verðum að tala um staðreyndir út frá gögnum og tölum. Staða drengja í skólakerfinu er verulegt áhyggjuefni og ég fagna framúrskarandi vinnu Tryggva Hjaltasonar, fyrir mennta- og barnamálaráðherra og háskólaráðherra, þar sem hann greinir stöðu drengja í íslenska menntakerfinu með skýrum tillögum til úrbóta. Sjá nánar hér: https://www.stjornarradid.is/library/01--Frettatengt---myndir-og-skrar/MRN/Stada-drengja-i-menntakerfinu-loka.pdf
Annað áhyggjuefni er staða landsbyggðarinnar en samkvæmt niðurstöðum PISA kemur í ljós að nemendur á landsbyggðinni standa veikari fótum en jafnaldrar þeirra á höfuðborgarsvæðinu í námsárangri. Að auki þurfum við að gera miklu betur er kemur að bilinu milli innflytjenda og annarra.
Heimsmynd okkar er að breytast
Tækniþróun hefur verið í veldisvexti á síðustu árum og sú þróun mun halda áfram. Verkefni sem áður voru leyst innan landsteinanna verða nú leyst með helstu sérfræðingum heimsins, lifandi eða vélrænum. Tæknin kallar á nýja færni fólks til að starfa í flóknu samfélagi.
Börnin okkar eru fróðleiksfús og tæknivædd og hafa nánast allan heiminn í lófanum. Tæknifærni þeirra er slík að við sem eldri erum munum líklega ekki ná utan um þeirra tæknivædda heim. Skólarnir okkar þurfa að styðja nemendur og efla þannig að þeir verði hugrakkir einstaklingar sem þora að prófa sig áfram, gera tilraunir og finna lausnir frá unga aldri. Þannig verða börnin virkir þjóðfélagsþegnar í hlutverkum sem henta þeim.
Á Íslandi eru kjöraðstæður til að þróa hratt og örugglega fjölbreytt og farsælt starf með börnunum okkar þar sem áherslan er lögð á að steypa ekki alla í sama mót. Smæð samfélagsins auðveldar nemendum og kennurum að tengjast samfélaginu í kringum skólann og einstök náttúra landsins er auðlegð sem við eigum öll saman.
Fjölbreytni er styrkur í okkar litla samfélagi
Við þurfum að vera vakandi fyrir þeirri menningarlegu auðlegð sem býr í börnunum okkar. Það er ekki aðeins mikilvægt fyrir velferð, þroska og hamingju einstaklinga heldur einnig fyrir velferð samfélagsins. Auk þess hefur það efnahagslegan ávinning í för með sér. Vel menntaðir skapandi einstaklingar eru líklegri til að finna nýjar lausnir í samfélagi þar sem nýsköpun er lykill að efnahagslegri velferð.
Stjórnvöld, sveitarstjórnir, menntakerfið, foreldrar, atvinnulíf og samfélagið allt þarf að vera með vegna þess að eina leiðin til að auka lífsgæði og fjölga tækifærum er að við leggjum áherslu á aukin gæði menntunar.