Heyskapur Morgunblaðið var á því að stjórn Framsóknarflokks og Alþýðuflokks væri að villa um fyrir bændum.
Heyskapur Morgunblaðið var á því að stjórn Framsóknarflokks og Alþýðuflokks væri að villa um fyrir bændum. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
1935 „Nei; þessi „umbótapólitík“, sem rauðliðar eru altaf að guma af, rekst hvarvetna á „bölvaðar staðreyndirnar“. Fréttaskýrandi Morgunblaðsins.

Baksvið

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Á fyrri hluta fjórða áratugarins reis ágreiningur um það innan Framsóknarflokksins hvort hann ætti að halla sér til hægri eða vinstri þegar kæmi að stjórnarsamstarfi. Hart var tekist á sem lauk með því að Tryggvi Þórhallsson, Hannes Jónsson, Þorsteinn Briem og fleiri menn fóru frá borði og stofnuðu Bændaflokkinn, hinn síðari. Hafði klofningur þessi margvísleg áhrif á íslenskt stjórnmálalíf.

Það fór að vonum ekki fram hjá Morgunblaðinu sem í sumarbyrjun 1935 velti vöngum yfir málinu og sagði meðal annars í fréttaskýringu mikla breytingu hafa orðið á starfsaðferð „rauðu flokkanna“ eftir þann klofning. Tæpu ári áður höfðu Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur myndað ríkisstjórn undir forystu Hermanns Jónassonar. Var sú stjórn Morgunblaðinu ekki að skapi.

„Áður var það bændadeildin svonefnda, sem hafði völdin í Framsóknarflokknum. Þá var forðast að sýna þá rauðu í sveitum landsins. Og þá var lagt höfuðkapp á að sannfæra bændur um það, að Framsóknarflokkurinn stæði á öndverðum meið við Alþýðuflokkinn, þó flokkarnir ynnu saman á Alþingi og í stjórn landsins,“ sagði blaðið.

Þeir rauðu tóku stjórnina

Eftir klofninginn í Framsókn varð mikil breyting á þessu, að dómi Morgunblaðsins. Úr flokknum fóru aðalstoðirnar í bændadeildinni, og tóku „þeir rauðu“ við stjórn flokksins. Þegar klofningurinn var um garð genginn, voru Alþýðuflokkurinn og Framsóknarflokkurinn í raun og veru einn og sami flokkurinn. Það var alltént skilningur blaðsins.

„Og það varð hlutskifti sósíalista að segja fyrir verkum. Þeir tóku stjórn beggja flokksbrotanna í sínar hendur. Og nú eru það þeir, sem „gefa tóninn“ á fundum í sveitum landsins. Bændadeild Framsóknar er búin að vera.“

Hvorki meira né minna.

Á landsmálafundum þeim, er nýlega höfðu verið haldnir í Árnes- og Rangárþingi, var hinn nýi boðskapur „rauðliða“ birtur þjóðinni í Tímanum og Alþýðublaðinu undir yfirskriftinni „umbótapólitík núverandi stjórnar“.

Boðskapurinn var eftirfarandi:

1. Að vinna bug á kreppunni og söluerfiðleikum erlendis með því að skapa aukinn markað innanlands.

2. Þessi pólitík er falin í því, að auka opinberar framkvæmdir í landinu, til þess að yfirvinna atvinnuleysið, og hækka laun verkalýðsins til þess að auka kaupgetu almennings.

3. Fjárins til alls þessa aflar stjórnin með auknum sköttum á hátekjum og stóreignum í Reykjavík.

Morgunblaðið hafði eftirfarandi um þetta að segja: „En þegar rauðliðar voru, með mörgum fögrum orðum og fullyrðingum búnir að gylla „umbótapólitíkina“ fyrir bændum, fóru „bölvaðar staðreyndirnar“ enn að gera vart við sig. Þegar rauðliðar höfðu skýrt bændum frá því, að þeim hefði tekist að vinna bug á kreppu landbúnaðarins með auknum markaði innanlands, risu bændur sjálfir upp og spurðu, hvernig á því stæði – úr því nægur markaður væri til í landinu – að þeir fengju sent heim skyr í mjólkurbrúsunum og osta; þetta hvorttveggja væri bændum reiknað upp í andvirði mjólkurinnar.“

Rauðliðum varð erfitt um svar, að sögn Morgunblaðsins. „Hjer höfðu „bölvaðar staðreyndirnar“ rekist óþyrmilega á „umbótapólitíkina!“ Ekki munu „bölvaðar staðreyndirnar“ síður segja til sín, þegar verkamennirnir hjer í Reykjavík verða um það spurðir, hvort „umbótamennirnir“ hafi „yfirunnið atvinnuleysið“, eins og þeir voru að fræða bændur um.“

Síðan velti blaðið fyrir sér hvernig hin „aukna kaupgeta“ almennings í Reykjavík, sem rauðliðar töluðu um, kæmi heim við „bölvaðar staðreyndirnar“.

„Og hvað munu hinar „vinnandi stjettir“ segja við þeirri fullyrðingu rauðliða, að fjárins til „umbótanna“ hafi eingöngu verið aflað með auknum sköttum á hátekjum og stóreignum? Skyldu „bölvaðar staðreyndirnar“ ekki einnig þar segja til sín? Talar ekki tekjuskatturinn sínu máli? Eða útsvarið? Nei; þessi „umbótapólitík“, sem rauðliðar eru alltaf að guma af, rekst hvarvetna á „bölvaðar staðreyndirnar“. – Undan þeim verður ekki komist.“

Kíghóstafaraldur geisaði

Farsóttir gerðu landanum skráveifu á fyrri hluta ársins 1935, ekki síst kíghósti. Þetta kom fram í samtali Morgunblaðsins við Magnús Pjetursson héraðslækni í byrjun júní. Spurður hvernig gengi með farsóttirnar svaraði Magnús:

„Um barnaveiki og skarlatssótt er það að segja að þær mega heita nærfelt horfnar úr bænum sem stendur, hversu langur sem sá friður reynist. Það er því eingöngu nú að ræða um kíghóstafaraldurinn.“

– Er hann enn að útbreiðast?

„Nei, það held jeg ekki verði sagt. Jeg býst við að allflestir sem sýkst geta hjer í bæ sjeu þegar sjúkir orðnir, svo lítið eða ekkert verði um ný kíghóstatilfelli hjer á eftir.“

– En er hann þá ekki að þyngjast?

„Það mun mega segja að svo hafi verið undanfarið, að því leyti, að meira ber nú á fylgisjúkdómum, einkum lungnabólgu, en áður. Enda er það algengt.“

– Oss virðist samkvæmt dánarauglýsingum talsvert meira um dauðsföll nú en vanalega. Teljið þjer að kíghóstinn eigi sök á því?

„Það tel jeg sjálfsagt, að því er ungu börnin snertir, því eins og kunnugt er, þá er yngstu börnunum, innan 2 ára, langhættulegast.“

– Teljið þjer annars ástandið í bænum slæmt vegna kíghóstans?

„Jeg veit að það eru ýms heimili sem eiga mjög erfitt vegna hans. Til dæmis þar sem mörg ungbörn eru meira og minna veik, en ef til vill húsmóðirin ein til verka. Þar verður húsmóðirin auðvitað fljótt aðframkomin af vökum og þreytu. Þessum heimilum þyrfti að veita aðstoð.“

Þessu tengt þá furðaði Guðrún nokkur Lárusdóttir sig á því í bréfi til blaðsins hversu löng biðin eftir kaldhreinsaðri nýmjólk væri orðin. „Er ekki að furða þótt húsmæður séu farnar að gjörast óþolinmóðar vegna hinnar fyrirferðarlitlu framkvæmdar á máli, sem svo mjög varðar hagi heimilanna, ekki síst nú, þegar svo að segja í hverju húsi eru veik og hóstandi börn, sem engin fæða kemur sjer betur fyrir en góð kaldhreinsuð nýmjólk.“

Þótti Guðrúnu kynlegt að í stað þess að auglýsa mjólkina sjálfa væri auglýst eftir undirskriftum frá þeim sem vildu fá hana. „Þetta má kannske kalla lífsvott, og er víst góðra gjalda vert. En því ekki að láta mjólkina heldur koma strax? Því ekki að byrja á þeirri mjólk, sem handbær er og vitað er að uppfyllir sett skilyrði?“

Höf.: Orri Páll Ormarsson