Sighvatur Björgvinsson
Sighvatur Björgvinsson
Hatursorðræðan er það sem núorðið einkennir íslenska þjóðmálaumræðu.

Sighvatur Björgvinsson

Áttatíu og tveggja ára á ég þá reynslu að hafa mikinn hluta þess tíma starfað sem áhorfandi og síðar þátttakandi í íslenskum þjóðmálum. Fyrst sem áhorfandi og þá m.a. sem einn af ritstjórum þeirra mörgu dagblaða, sem þá voru bæði þátttakendur og lýsendur atburðarásar þjóðmála. Síðan í þrjátíu ár sem virkur þátttakandi í stjórnmálastarfi – með setu á Alþingi, í ríkisstjórnum og virkur í flokksstarfi. Þvílíkar breytingar sem orðið hafa innvortis á okkar samfélagi á þeim tíma! Og þær ekki allar til heilla!

Að bera ábyrgð

Ritstjórar dagblaðanna gegndu m.a. því hlutverki að vera ábyrgir fyrir því, sem þeir samþykktu að birt yrði í blöðunum. Ef einhver höfundur í blaði þeirra gerði atlögu að öðrum einstaklingi með níðskrifum ellegar svívirðingum og persónulegum ávirðingum gátum við ritstjórarnir sætt ábyrgð fyrir það – en þurftum sjaldan að gera. Það var vegna þess að við, allir sem einn, vorum sammála um að halda slíku níði og slíkri illmælgi um annað fólk utan birtingar. Sjálfur átti ég þátt í því, að vísa slíkum skrifum á bug. Neita höfundi um birtingu. Mörg dæmi veit ég um þar sem slíkir níðhöggar réðust persónulega að ritstjóra viðkomandi blaðs með skömmum og jafnvel heitingum fyrir að neita þeim um birtingu á níði um annað fólk. Man enn mörg dæmi um slíkar árásir, sem auðvitað voru hvergi birtar en iðkaðar af höfundum í samskiptum við ritstjórana. Ég veit mörg slík dæmi því við, ritstjórar og ábyrgðarmenn þessara blaða, höfðum sambönd okkar á milli þar sem við sögðum frá samskiptum við þannig fólk og vöruðum hver annan við þeim.

Enginn lengur ábyrgur

Nú eru þessi blöð ekki lengur til – utan eitt. Í staðinn hafa komið svonefndir samfélagsmiðlar. Ekki nokkur einasti maður, sem að þeim stendur, þarf að axla þá ábyrgð sem okkur gömlu ritstjórunum var ætlað að gera. Enginn þar sem er ábyrgur fyrir að birta níð annarra, gróusögur eða illmælgi um annað fólk. Þvert á móti er slík umfjöllun orðin einkenni þeirrar „blaðamennsku“ sem samfélagsmiðlarnir stunda – og er eitt helsta einkenni íslensks samfélags á okkar tíð.

Síðustu stóru dæmin

Sérhver Íslendingur hefur ekki getað annað en rekið sig á slíka illmælgi um annað fólk í nýafstöðnum forsetakosningum. Það merkilega er að þar er síður en svo um að ræða gífuryrði, skammir og níð um sjálfa frambjóðendurna – þó slíkt hafi óneitanlega borið við. Heldur er hvarvetna um að ræða lágkúrulegar árásir og hreint níð um fólk sem hefur leyft sér að hafa skoðanir á frambjóðendum og látið í ljós stuðning við einhvern þeirra. Jafnvel valinkunnir einstaklingar, virtir menningarfrömuðir og þekktir höfundar hafa ráðist með offorsi og níði að slíku fólki – Kára Stefánssyni, Víði, Bubba Morthens svo fáeinir af miklum fjölda séu nefndir – fyrir það eitt að lýsa afstöðu sinni í kosningum. Höfundar slíkra texta sýna af sér svona meðvitaða ofsóknarkennd og persónulega árásarhneigð án nokkurs minnsta hiks né efa. Ráðist með illmælgi að öðrum fyrir það eitt að leyfa sér að láta í ljós fylgi við einhvern frambjóðanda án þess að nota tækifærið til þess jafnframt að níða alla hina eins og menningarfrömuðum samtímans virðist helst þóknast.

Enginn ber neina ábyrgð!

Hatursorðræðan er það sem núorðið einkennir íslenska þjóðmálaumræðu. Þar ber enginn lengur neina ábyrgð á því sem sjálfur segir. Fólk má þar níða aðra eins og hverjum og einum níðhögg þóknast. Enginn ábyrgur, síst af öllu höfundurinn sjálfur sem miklu fremur miklast af eigin verkum. Hatursumræða er vinsælasta umræðuefni á Íslandi í dag. Það er ekki lengur umræðuvert. Það umræðuverða er að enginn finnur þar til neinnar ábyrgðar – og engum er lengur meinað að tjá sig um annað fólk með slíkum hætti eins og við gömlu ritstjórarnir þurftum að gera til þess að axla ekki ábyrgðina sjálfir. Ísland er í þjóðmálaumræðunni orðið vígvöllur þar sem níðhöggar keppa hver við annan um illmælgi og svívirðingar um annað fólk.

Höfundur er fv. ritstjóri, alþingismaður og ráðherra.

Höf.: Sighvatur Björgvinsson