Magnús og arftakinn Ding Liren og Magnús Carlsen við taflið á „Norska mótinu“.
Magnús og arftakinn Ding Liren og Magnús Carlsen við taflið á „Norska mótinu“. — Stev Bonhage.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Norska mótið sem haldið hefur verið í Stafangri í Noregi síðan 2013 er í ár athyglisvert því að þar leiða saman hesta sína í fyrstu kappskákinni eftir að Magnús Carlsen afsalaði sér æðsta titli skákarinnar heimsmeistarinn Ding Liren og Norðmaðurinn sigursæli

Skák

Helgi Ólafsson

helol@simnet.is

Norska mótið sem haldið hefur verið í Stafangri í Noregi síðan 2013 er í ár athyglisvert því að þar leiða saman hesta sína í fyrstu kappskákinni eftir að Magnús Carlsen afsalaði sér æðsta titli skákarinnar heimsmeistarinn Ding Liren og Norðmaðurinn sigursæli. Niðurstaða þessara „endurfunda“ er því miður sú fyrir Kínverjann að hvað skákstyrk varðar virðist Ding Liren vera að fjarlægjast bæði Magnús og aðra kollega sína. Hvað veldur er ekki gott að segja en komið hefur fram að hann fór illa út úr covid-faraldrinum og hefur ekki náð sér að fullu. FIDE hefur þegar sett næsta heimsmeistaraeinvígi á dagskrá og mun það hefjast einhvern tímann á bilinu 20. nóvember til 15. desember nk. Þrjú tilboð bárust til að halda einvígið, frá Nýju-Delí og Chennai í Indlandi og Singapúr. Það kemur ekki á óvart að Indverjar séu spenntir fyrir þessum viðburði en þeir munu tefla fram langyngsta áskoranda skáksögunnar, hinum 18 ára gamla Dommaraju Gukesh.

Á „Norska mótinu“ tefla sex stórmeistarar tvöfalda umferð eftir býsna flóknu stiga- og umbunarkerfi. Gefin eru þrjú stig fyrir sigur í kappskákinni og eitt stig fyrir jafntefli. Jafntefli kallar hins vegar á Armageddon-skák sem veitir sigurvegaranum ½ vinning til viðbótar. Samkvæmt þessu kerfi virðist enn einn sigur Magnúsar vera í uppsiglingu en heimsmeistarinn Ding Liren situr kirfilega á botninum:

1. Magnús Carlsen 16 stig. 2. Nakamura 14½ stig. 3. Praggnanandhaa 13 stig. 4. Firouzja 12 stig 5. Caruana 10½ stig. 6. Ding Liren 6 stig.

Mig rekur ekki minni til að heimsmeistari í skák hafi nokkru sinni orðið neðstur í móti af þessu tagi. Í tíundu og síðustu umferð átti Magnús Carlsen að tefla við Caruana og hafa hvítt.

Tímafyrirkomulagið er frekar óvenjulegt, 2 klst. á mann fyrir alla skákina en frá og með 41. leik bætast við 10 sekúndur eftir hvern gjörðan leik. Þetta fyrirkomulag hentar Magnúsi greinilega vel. Sú spurning leitar á mann hvort ekki sé hægt að finna fyrirkomulag sem gefur jafnan tíma á alla þætti skákarinnar, t.d. eina 1 klst. og 15 mín. á fyrstu 40 leikina, það sama á næstu 40 og að skákin verði sett í dóm eftir t.d. 100 leiki. Margar afar athyglisverðar en erfiðar stöður leysast upp í tóma vitleysu þegar hraðskákþátturinn hefst, ekki síst vegna þess hve erfitt er að verja tæknilega lakari stöður í miklu tímahraki. Tökum dæmi úr fimmtu umferð mótsins:

Norska mótið 2024:

Magnús Carlsen – Alireza Firouzja

Staðan kom upp eftir 77. leik hvíts, Hd7-d6. Nú er það svo að þó að h-peðið falli þá er staðan fræðilegt jafntefli, t.d. 77. …Hb1 78. Hxh6 Kg7 79. Hg6+ Kf7 og hvítur getur ekki unnið gegn bestu taflmennsku svarts. Þetta vissi Firouzja auðvitað en hann vildi „stytta sér leið“ og hlýtur að hafa gleymt „þríhyrningnum“, en svo heitir þekkt leikbragð í peðsendatöflum sem Magnús kunni auðvitað skil á …

77. … Hxd6?? 78. Kxd6 Kf7 79. Ke5 Ke7 80. f6+ Kf8

¶Hvítur getur ekki unnið eftir 81. Ke6 Ke8 eða 81. Kf5 Kf7. „Þríhyrningurinn“ útheimtir eitt skref til hægri og annað til vinstri og þá er björninn unninn.

81. Kf4 Ke8 82. Ke4 – og svartur gafst upp!

Eftir 82. … Kf8 83. Ke5 er komin upp sama staða – en svartur á leik og tapar, t.d. 83. … Ke8 84. Ke6 og vinnur.