50 ára Bragi Þór Hinriksson er fæddur í Reykjavík og var barnsskónum gatslitið í Espigerði 2 og næstu pörum þar á eftir á brekkunni á Akureyri þar sem Bragi spilaði knattspyrnu með KA. Hann stundaði tónlistarnám í Tónlistarskóla Akureyrar og söng hástöfum með Skólakór Barnaskóla Akureyrar undir styrkri stjórn Birgis Helgasonar. „Kópavogurinn er þó ákveðinn heimavöllur en þar sparkaði ég í tuðru með UBK, ömmu minni, Huldu Pétursdóttur, til mikillar gleði.“
Þegar Bragi Þór var 13 ára gekk hann rakleiðis á fund Helgu Steffensen og réði sig sem brúðustjórnanda í Stundinni okkar og hófst í kjölfarið óslitinn ferill hans í kvikmyndagerð en hann hefur verið farsæll leikstjóri og framleiðandi. Margar af vinsælustu myndum þjóðarinnar eru honum að kenna en þar má nefna Sveppamyndirnar, Harry & Heimi, Klukkur um jól, Víti í Vestmannaeyjum og Birtu. Bragi hefur unnið til Edduverðlauna alls sex sinnum ásamt því sem kvikmyndir hans hafa hlotið ótal alþjóðleg verðlaun og verið sýndar víða um heim.
Bragi er mikill fjölskyldumaður og er gjarnan mikið líf á heimilinu og gestagangur með mesta móti. Hreyfing og heilbrigt mataræði er Braga hugleikið og hefur hann framleitt fjölda heilsutengdra sjónvarpsþátta ásamt Helgu eiginkonu sinni. „Fjölmörg spennandi verkefni eru fram undan eins og ævintýramynd um heim álfa og huldufólks sem heitir Álfur út úr hól en næst er kvikmyndin Röskun sem fer í tökur í janúar 2025.“
Fjölskylda Eiginkona Braga Þórs er Helga Arnardóttir, f. 1979, fjölmiðlakona og handritshöfundur, og eiga þau saman soninn Jakob Örn Bragason, f. 2020. Börn Braga frá fyrra hjónabandi eru Erna Ísabella Bragadóttir, f. 1998, og Hinrik Huldar Bragason, f. 2008. Stjúpbörn Braga Þórs eru Bergþór Frímann Sverrisson, f. 1991, og Margrét Júlía Reynisdóttir, f. 2013. Foreldrar Braga Þórs eru Erna Norðdahl, f. 1954, og Hinrik Þórhallsson, f. 1954, en stjúpfaðir Braga Þórs er Edward Hjálmar Finnsson, f. 1947.