Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, baðst í gær afsökunar á því að hafa yfirgefið hátíðarhöldin í Normandí á D-deginum snemma, en Sunak fór til þess að taka upp kosningaviðtal við bresku sjónvarpsstöðina ITV.
Andstæðingar Sunaks sögðu að hann hefði vanrækt embættisskyldur sínar með því að sniðganga viðburðinn, þar sem fjöldi þjóðarleiðtoga frá helstu bandalagsríkjum Bretlands kom saman. Þá olli ákvörðunin einnig ólgu innan Íhaldsflokksins.
Keir Starmer, formaður Verkamannaflokksins, var viðstaddur alla athöfnina og ræddi hann m.a. við Selenskí Úkraínuforseta. Sagði Starmer við Selenskí að flokkur sinn myndi styðja við Úkraínumenn áfram, nái hann völdum eftir kosningarnar 4. júlí.