Sigríður Helga Sverrisdóttir
sigridurh@mbl.is
Fimm fv. lögreglukonur voru í vikunni heiðraðar fyrir störf sín í þágu embættisins en 50 ár eru frá því að fyrstu lögreglukonurnar fengu að klæðast einkennisfatnaði og einnig 50 ár frá því að fyrstu konurnar hófu störf í lögreglunni.
Þær Katrín Þorkelsdóttir, Arnþrúður Karlsdóttir, Björg Jóhannesdóttir og Bonnie Laufey Dupuis tóku við viðurkenningu frá Landssambandi lögreglumanna. Jóhanna Njálsdóttir hlaut einnig viðurkenningu en hún var fjarverandi.
Blaðamaður ræddi við Arnþrúði Karlsdóttur, eina af lögreglukonunum fimm sem heiðraðar voru af þessu tilefni.
Arnþrúður segir að áður fyrr hafi konur mátt vinna í lögreglunni, en þær fengu hvorki að klæðast einkennisfatnaði né fara í lögregluskólann. Nú sé hins vegar hálf öld liðin frá þessum tímamótum að konur máttu bæði klæðast einkennisfatnaði og vera lögregluþjónar.
Hún segir það hafa markað tímamót þegar Dóra Hlín Ingólfsdóttir, sem nú er látin, og Katrín Þorkelsdóttir voru ráðnar því þá var ákveðið að þær yrðu settar í einkennisfatnað. Að sögn Arnþrúðar var þetta mikil framtakssemi af hálfu Sigurjóns Sigurðssonar þáverandi lögreglustjóra sem þorði að veðja á konurnar.
Síðan bættust þær Arnþrúður Karlsdóttir og Björg Jóhannesdóttir í hóp lögreglukvenna og þá var ákveðið að þær fengju að fara í lögregluskólann. Samhliða því var stofnuð kvenlögregludeild.
„Við útskrifuðumst síðan allar fjórar saman úr lögregluskólanum 1976,“ segir Arnþrúður. Eru þær því fyrstu konurnar sem útskrifuðust sem fullgildir lögreglumenn úr lögregluskólanum.
„Og þá var nú hanskanum kastað því þá höfðum við full réttindi og fórum inn á vaktir og urðum að njóta jafnréttis í starfi eins og aðrir, eins og fullgildir lögreglumenn,“ segir Arnþrúður.
Sama ár og þær útskrifuðust tóku jafnréttislögin gildi. Með þessu hafi verið brotið blað í sögu jafnréttisbaráttunnar og stórt skref stigið í framfaraátt, að sögn Arnþrúðar. Í kjölfar útskriftarinnar bættust síðan þær Jóhanna Njálsdóttir og Bonnie Laufey Dupuis við og voru þær þá orðnar samtals sex, eða „Skytturnar sex“, eins og þær kölluðu sig.
„Þáverandi lögreglustjóri, Sigurjón Sigurðsson, var mjög framsýnn og trúði á lögreglukonur,“ segir Arnþrúður. Starfið hafi verið ómótað á þessum tíma og var það mest á herðum þeirra að móta starfið fyrir lögreglukonur. Viðhorfin í þjóðfélaginu voru þau að konur áttu alls ekki að gegna slíku starfi. „Menn voru hræddir um að við myndum lenda í átökum og slasast sem sannarlega gerðist,“ segir Arnþrúður. Þannig að ótti manna hafi verið réttlætanlegur.
Segir hún það til marks um hvernig viðhorfið var á þessum árum að um svipað leyti hafi Alþingi verið að rífast yfir því hvort það ætti að vera litasjónvarp eða ekki á Íslandi. Mótrökin hafi verið þau að konur og börn þyldu ekki að sjá blóð í sjónvarpi í lit. En að fara í gegnum alla þessa múrveggi hafi verið gríðarlega erfitt því þær hafi mætt svo miklum efasemdum þótt vinnufélagarnir hafi reynst þeim vel og þær hafi fallið vel inn í hópinn.
Hún bætir við að Haraldur Johannessen hafi staðið sig vel sem ríkislögreglustjóri og eins Sigurjón lögreglustjóri, sem Arnþrúður telur að hafi verið algjör frumkvöðull, að þora að veðja á þær. Hann hafi verið einstaklega góður maður og elskaður og dáður af lögreglumönnum.
Í dag er hlutfall kvenna í lögreglunni í kringum 25% skv. tölum frá því í kringum leiðtogafund Evrópuráðsins á síðasta ári.