Fótbolti Það er aldrei friður fyrir honum.
Fótbolti Það er aldrei friður fyrir honum. — Morgunblaðið/Eggert
Enn einu sinni gerðist það, nú á þriðjudagskvöldi á besta sjónvarpstíma, að sýnt var beint frá fótboltaleik á RÚV. Enn einu sinni þurfti maður að bíta á jaxlinn og sætta sig við ofríki íþróttaheimsins

Kolbrún Bergþórsdóttir

Enn einu sinni gerðist það, nú á þriðjudagskvöldi á besta sjónvarpstíma, að sýnt var beint frá fótboltaleik á RÚV. Enn einu sinni þurfti maður að bíta á jaxlinn og sætta sig við ofríki íþróttaheimsins. Ofríki sem RÚV bugtar og beygir sig fyrir. Þar á bæ er aukarás sem væri upplögð fyrir útsendingar eins og þessar, en hún þykir víst ekki henta. Auglýsendur vilja auglýsa á aðalrásinni.

RÚV vill alltaf pening, sem væri í lagi ef það skilaði sér í betri dagskrá. Þar þarf ekki enn eina framhaldsþáttaröð eins og þá finnsku um tilvistarvanda kvenna á breytingaskeiðinu. Þáttaröð sem virðist aldrei ætla að taka enda.

Svo fréttir maður út undan sér að útsendingin frá fótboltanum um daginn sé einungis forsmekkur af því sem koma skal. Evrópumót í knattspyrnu fer að halda innreið sína og mun standa vikum saman með tilheyrandi raski á hefðbundnum dagskrárliðum. Svo er einnig von á Ólympíuleikum. Hvað verður um mann?

Sjálfsagt er maður að gera stórfelld mistök með því að byggja hluta tilveru sinnar á dagskrá RÚV. Þar á bæ er eins og það sé lögmál að maður þurfi að líða fyrir það að hafa ekki áhuga á íþróttum. Enn einu sinni er reynt að þröngva þeim upp á mann. Mikil þjáning bíður manns.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir