Fis, þyrlur, drónar, svifvængur, einkaflugvélar og þotur ýmist á landi eða lofti voru sýndar á Flugdegi á Reykjavíkurflugvelli síðastliðinn laugardag. Margir mættu á samkomuna til þess að kynna sér nýjustu strauma og stefnur í fluginu sem nú er á tímamótum. Rafknúnar flugvélar koma sterkar inn og sú eina slíka sem Íslendingar eiga var einmitt sýnd við þetta tilefni.
Gestir á flugdegi fylgdust einnig með því þegar flugstjórar á þotum Icelandair sem voru að koma utan frá Evrópu tóku lágflug yfir vellinum áður en svo var lent í Keflavík. Þá var sýnt listflug á vél þar sem Einar Þorsteinsson, borgarstjóri í Reykjavík, var um borð, áhugasamur um flugið.
„Mér finnst bókstaflega magnað hvað öflugur hópur flugáhugamanna, sem brennur fyrir þetta áhugamál og atvinnu, stendur að flottri flugsýningu eins og við sáum nú. Að vera í þessum hópi eru í raun algjör forréttindi,“ segir Matthías Sveinbjörnsson, flugstjóri og forseti Flugmálafélags Íslands. sbs@mbl.is