Þór Sigurðarson fæddist 9. júní 1949 í Þingvallastræti 18 á Akureyri. Hann lést 21. maí 2024 á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Foreldrar Þórs voru Kristín Bjarnadóttir húsfreyja, f. á Seyðisfirði 1909, d. 1984, og Unnar Sigurður Oddsson Björnsson prentsmiðjustjóri,
f. í Kaupmannahöfn 1901, d. 1975.

Systkini Þórs: Geir, f. 1924, d. 1993, Bjarni, f. 1934, d. 1996, Sólveig, f. 1936, d. 1991, Ingibjörg, f. 1940, Ragnar, f. 1942, og Oddur, f. 1945.

Árið 1974 kvæntist Þór Herdísi Stefánsdóttur, f. 1951, d. 1999, sjúkraliða frá Sauðárkróki, dóttur hjónanna Guðnýjar Þuríðar Pétursdóttur húsfreyju og Stefáns Sigurðssonar skipstjóra.

Börn Herdísar og Þórs eru Stefán, f. 1974, Sigurður, f. 1978, og Þórdís, f. 1989. Synir Stefáns og Elenu Semjonovu Júrísdóttur, f. 1982, eru Daníel Semjonov, f. 2006, og Gabríel Þór, f. 2011.

Þór ólst upp í foreldrahúsum á Akureyri. Hann gekk í Barnaskóla Akureyrar og Gagnfræðaskóla Akureyrar. Hann var á unglingsárum í sveit í Grímstungu í Vatnsdal og hafði sú dvöl mikil áhrif á hann, einkum kynni hans af hestamennsku. Árið 1969 lauk Þór búfræðinámi við Bændaskólann á Hólum í Hjaltadal. Hann lauk námi 1974 í setningu frá Iðnskólanum á Akureyri og starfaði í Prentverki Odds Björnssonar til ársins 1977 sem setjari og síðar offsetljósmyndari, einnig hjá Akoplasti og POB og síðast hjá Ásprenti. Eftir að starfi hans þar lauk var hann safnvörður og húsvörður við Minjasafnið á Akureyri til starfsloka 2016.

Frá unga aldri hafði Þór mikið dálæti á hestum enda alinn upp við góðhesta föður síns og þá einkum Fölska sem hann stýrði til margra verðlauna á hestamannamótum á Norðurlandi á æskuárum. Hann var einn af stofnendum og fyrsti og eini formaður hestamannafélagsins Fjölnis, sem var bindindisfélag ungra hestamanna á Akureyri, sem sameinaðist hestamannafélaginu Létti 1969. Þar var Þór varaformaður um skeið.

Þór hafði fádæma djúpa og þýða bassarödd með vítt raddsvið. Hann gekk mjög ungur til liðs við karlakórinn Geysi á Akureyri og síðar söng hann með fjölmörgum öðrum kórum þar um slóðir og þá gjarnan einsöng. Hafa komið út geisladiskar með söng hans.

Frá frumbernsku dvaldi Þór á hverju sumri á sumarbústaðarjörð foreldra sinna í Sellandi í Fnjóskadal. Þar byggði hann síðar bústað á landareigninni handa fjölskyldu sinni og kallaði Lækjarkot. Er ekki ofmælt að þar hafi verið hálfur heimur Þórs og hvergi undi hann sér betur en með hestum sínum í Fnjóskadal.

Þór var alla tíð mjög félagslyndur og átti geysistóran og fjölbreyttan vinahóp. Ófáar stundir sat umhverfis hann barnahópur og hlustaði hugfanginn á sögur hans. Í húsum hans var, að því er virtist, ótakmarkað rými til gistingar ef hópa bar að garði.

Frásagnargáfu Þórs var við brugðið. Bárust sögur hans, sagðar af munni fram, ekki aðeins til nánasta áheyrendahóps heldur einnig á öldum ljósvakans í útvarpi og sjónvarpi undir nafninu Þórssögur. Einnig ritaði hann minningapistla á netmiðla, einkum um æskuár á Akureyri, og létu lesendur óspart í ljós ánægju með þá.

Útför hans fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 10. júní 2024, klukkan 13.

Orð ná ekki utan um minningar um Vósa frænda, móðurbróður okkar. Vósi var einstakur maður og eins og einn af sonum okkar sagði, „hann var í alvörunni einstakur“.

Sælureitur stórfjölskyldunnar er Selland í Fnjóskadal sem fær töfra sína frá Vósa og náttúrunni. Ekki er hægt að hugsa um Selland án Vósa og Vósa án Sellands. Það eru tvö lögmál í fjölskyldunni, að öll börn elska Vósa frænda og öll börn elska Selland. Þegar við ræddum við börnin okkar var samhljómur hjá þeim öllum, og okkur systkinunum líka, um hvað hann var einstaklega hlýr og góður og við sóttumst eftir því að vera í návist hans. Ef Vósi var ekki í Sellandi þá vantaði eitthvað í Sellandsferðina.

Vósi var líka magnaður sögumaður. Sögurnar urðu ljóslifandi og við börnin trúðum þeim sem heilögum sannleika. Sannfæringarkrafturinn var svo mikill að við vorum sannfærð um að hann hefði barist við beinagrindakónginn með sverðunum sem hanga í stofunni í Sellandi. Hann hafði endalausa ánægju af því að leika við öll börn í fjölskyldunni og kom óumbeðinn til að sækja okkur eða þau og fara með í ævintýraferðir um Selland og nágrenni. Hann var ekki bara góður í að skálda ævintýrasögur heldur var hann líka einstaklega fróður um öll örnefni, holt og hæðir og sér í lagi í Sellandslandi.

Vósi elskaði fátt meira en að vera í náttúrunni og innan um hrossin sín. Við börnin fengu líka að njóta þess að fara á bak og ófáar minningar koma upp í hugann. Hlýjar minningar um hundana Snata og Tinu, hrossin Yngri-Rauð, Fölska og Skjónu svo einhver séu nefnd tengjast öll Vósa. Ekki má gleyma að minnast á söngmanninn Vósa með sína fallegu djúpu bassarödd. Vósi frændi var órjúfanlegur hluti af okkar bestu og sterkustu æskuminningum.

Elsku Stebbi, Siggi og Þórdís, missir ykkar er mestur. Elsku Vósi, við erum óendanlega þakklát fyrir alla þína hlýju og natni í okkar garð.

Kristín (Gitta), Sigurður (Siggi), og Herdís (Heddý), Dídíarbörn.

Aldrei erum við í raun viðbúin þegar dauðagyðjan knýr dyra hjá ástvinum okkar og svo er einnig í þetta sinn. Hins vegar er það huggun að Þór eða Vósi, eins og við kölluðum hann, var sáttur við að kveðja þetta jarðlíf og í hvaða himnaríki sem er munu honum standa allar dyr opnar. Hann var einstakur maður. Hógvær, réttsýnn og auðmjúkur og svo góður og örlátur á allt sem hann gat gefið, að sumum þótti nóg um. En hann var líka allra manna skemmtilegastur og kraftmestur, sísyngjandi sagnamaður, sem tók sjálfan sig aldrei of alvarlega. Hans verður víða sárt saknað.

Vósi var bara fimm árum eldri en ég, þótt hann væri föðurbróðir minn. Við lékum okkur mikið saman á barnsaldri og elskuðum bæði sögur, Sígildu sögurnar, Tarsan og Prins Valíant, auk alls sem var dulúðugt. Stór hópur barna og unglinga lifði og hrærðist í náttúrunni í Sellandi á sumrin, í leikjum indíána og káboja á góðviðrisdögum, í ógleymanlegum sundferðum, reiðtúrum, gróðursetningu, berjatínslu og fjárrekstri. Og þegar ekki viðraði til útiveru var setið inni við lestur og leiki, sköpun ævintýra í borgum mótuðum úr leir, með höllum og herjum, drottningum, konungum og hofgyðjum. Þór var listamaður og ég var tilbúin að borga vel fyrir að fá hann til að móta hofgyðjur og drottningar í silkikjólum (úr Macintosh-bréfi) og litfagrar dyngjur þeirra. Greiðslan fólst gjarna í því að klóra honum á iljunum eða bakinu, sem krafðist fullkomins jafnvægis milli „laust og fast“. Þetta átti ekki bara við um mig, heldur okkur flest yngri frænkur hans og frændur. Hann fékk smáhvíld og umhyggju og við fengum okkar listilega gerðu leirkellingar og –kalla með öllu tilheyrandi.

Svo týndist tíminn og fullorðinslífið kom með daglegu amstri, sem bauð ekki upp á eins margar samverustundir. En síðustu áratugi höfðum við aftur tekið upp náið vinasamband í sveitinni, þar sem við vorum nágrannar. Hann var duglegri en ég að birtast fyrirvaralaust og þá var kannski skellt í pönnukökur með mjólkinni og svo settumst við á jörðina eða við eldinn og spjölluðum um lífið og tilveruna, gleði og sorgir, en ekki síst sameiginleg áhugamál okkar, sögu mannkyns, trúarhugmyndir, ættarsögurnar og töfra náttúrunnar. Þetta hefur kannski yfir sér alvarlegan blæ, en ég get lofað ykkur að það var mikið hlegið – og ekki síst að sjálfum okkur.

Helgustu stundirnar voru þó þegar við vorum hvort í „okkar landi“, ég að sýsla eitthvað utandyra og hann að vinna í skóginum, aleinn með sjálfum sér og náttúruvættunum, syngjandi hástöfum svo það barst fjallanna á milli. Þá settist ég gjarna niður, lokaði augunum og hlustaði. Dásamlegri tónleika hef ég aldrei upplifað.

Svo gerðist það, fyrir nokkrum nóttum milli svefns og vöku, að ég heyrði hann syngja. Ég fann þá fyrir umvefjandi Sellandsnáttúrunni allt í kring, ilmi af jörðu og fuglasöng. Og svo fylltist tilveran af söngnum hans – sem aldrei mun þagna.

Elsku Þórdís, Siggi og Stebbi. Hugur minn og hjarta er hjá ykkur á þessum tímamótum.

Valgerður.

- Gísli minn, það amar ekkert að hjá mér; ég hef það bara fínt. Þannig svaraði gjarnan minn gamli skólabróðir og vinur, Þór Sigurðarson, þegar ég spurði frétta af heilsu hans af og til á síðustu misserum. Það var ekki hans stíll að barma sér; hann vildi ekki skapa öðrum áhyggjur. En þrátt fyrir bjartsýnina tæmdist stundaglasið. Þór hafði undanfarin ár glímt við krabbamein og gengið í gegn um marga lyfjakúra, sem tóku sinn toll af líkamsþreki þessa sómadrengs, án þess þó að lyfin næðu að drepa meinið. Fleiri kárínur bættust við, þannig að lokum var orkubankinn tæmdur.

Það fór aldrei mikið fyrir Þór; hann var ekki gjarn á að guma af eigin afrekum. Átti hann þó tíðum innistæðu fyrir slíku. Hann hafði einstaka söngrödd, skrifaði góða prósa og orti ljóð, svo eitthvað sé nefnt. Nei, Þór vildi halda sér til hlés, en hann var alltaf tilbúinn til átaka ef eftir kröftum hans var leitað, án eftirgangs.

Við í árgangi 1949 höfum haldið margar og góðar veislur á lífsleiðinni. Mér er ein sérlega minnisstæð í tengslum við Þór. Það var í Sjallanum þegar við urðum sextug. Ég var veislustjóri og fékk allt í einu þá flugu í höfuðið, á meðan veislan stóð sem hæst, að fá Þór til að syngja einsöng fyrir okkur. Ég gekk að borðinu til hans og hafði um það orð, að næst á dagskránni væri Þór Sigurðarson með Bjórkjallarann!

- Já, já, Gísli minn, ég skal gera það, ef þú útvegar mér meðleikara, svaraði Þór glaðbeittur að bragði. Bróðir Grímur Sigurðsson gítarleikari var við næsta borð og til í meðleikinn. Þeir bræður gengu á svið án undirbúnings eða æfingar og fluttu Bjórkjallarann með þvílíku trukki að styrkustu stoðir gamla góða Sjallans nötruðu. Fagnaðarlætin voru slík að söng loknum að þakið lyftist um nokkur fet!

Þór fékk oft storminn í fangið á lífsleiðinni, þann harðasta þegar Herdís, hún Dísa konan hans, varð að játa sig sigraða af krabbameini. Hann bognaði án þess að brotna og þrátt fyrir kárínur síðustu ára var Þór aldrei ósáttur við skaparann. Það hefur enga þýðingu, sagði hann; lífið verður að ganga fram eins og almættið vill.

Þór var náttúrubarn fram í fingurgóma. Honum leið best austur í Fnjóskadal með sínu fólki, við skógrækt og hestastúss. Ungur var hann léttur á sér eins og hind og hljóp þá berfættur og glaður um skógarlundi Sellands sem hann hafði tekið þátt í að koma til. Særður naut hann þess síðar að leita þar skjóls, líkt og Skógarhindin hans Davíðs frá Fagraskógi:

Langt inn í skóginn leitar hindin særð

og leynist þar, sem enginn hjörtur býr,

en yfir hana færist fró og værð.

Svo fjarar lífið út…

Ó, kviku dýr,

reikið þið hægt, er rökkva tekur að

og rjúfið ekki heilög skógarvé,

því lítil hind, sem fann sér felustað

vill fá að deyja ein á bak við tré.

Er fuglar hefja flug og morgunsöng

og fagna því, að ljómar dagur nýr,

þá koma öll hin ungu, þyrstu dýr

að uppsprettunnar silfurtæru lind

- öll, nema þessi eina, hvíta hind.

Góða ferð kæri vinur.

Gísli Sigurgeirsson.

Kveðja

Berfættur á berangri

gengur hann

slóðir frá Sellandi

brosandi flytur hann

stemmurnar djúpum rómi

biður okkur að

láta minningar

um brosið á smalaslóð

létta sorgina

láta djúpu

tónana tala áfram

þökk sé þeim.

Jón Hlöðver Áskelsson.

Nú er Þór vinur minn farinn af þessu sviði sem okkur er skammtað, kynni okkar voru nokkuð löng eða 62 ár en þá fer ég til náms í Prentsmiðju Odds Björnssonar sem Sigurður faðir hans stýrði, Þór var þá við sendistörf og fór síðan að læra þar og vorum við saman í setjarasalnum í æði mörg ár, ótvírætt var það áhuginn á hestum sem dró okkur saman til vinskapar sem hefir haldist alla tíð síðan. Að lýsa Þór er ekki erfitt verk því um hann má segja eins og sagt hefir verið í aldanna rás um menn í merkum ritum „hann var drengur góður,“ „þegar góðs er getið“ og „vinur vina sinna“ í raun þarf ekki að segja neitt mikið meira því undir þessum fullyrðingum stóð Þór betur en flestir aðrir sem ég hef gengið götuna með.

Þór bjó yfir miklu listfengi, hann var teiknari góður og einstakur söngvari hvað radddýpt og styrk varðaði og marga gladdi hann á göngu sinni með söngnum, það þurfti ekki annað en nefna eitthvert lag þá var tónninn kominn. Hann hafði engan metnað um frægð eða frama, sagðist sjálfur vera sveimhugi og sér liði best gangandi eða ríðandi í víðáttum að vori, dreymdi um að verða bóndi, sagðist ekki hafa getað bundið sig við stólsetu og bóknám í skóla þótt greindur væri, einstaklega minnugur, kunni óhemju mikið af sögum, stökum og ljóðum sem hann hafði á hraðbergi svo undrum sætti og allar sagnir frá gengnum tíma heilluðu hann, allt gamalt, hann var í raun gömul sál í besta skilningi þess orðs.

Margar hestaferðirnar fórum við saman um dagana, fyrst 1964 á Fjórðungsmót hestamanna í Húnaveri og báðir komum við þaðan með gull í barmi, Þór þá rétt orðinn 15 ára fyrir besta gæðinginn í B-flokki, Fölska, reiðhest föður síns, og ég fyrir Golu frá Krossastöðum í stökki, efalaust er þó tuttugu daga ferð með okkur Möggu minni vestur um Öxnadalsheiði og Skagafjörð og allt til Grímstungu í Vatnsdal og svo norður um Heljardalsheiði til Eyjafjarðar eftirminnilegust, þetta var árið 1965, þar gerðist margt sem brenndist í minni okkar, Krossvaðið á Blöndu, heimsókn í Skarðsá, nótt í Viðvík og æði oft rifjuðum við upp þessa för saman ekki síst núna undanfarið er við töluðum saman annan hvern dag þegar ljóst var að hverju dró, þá voru það minningarnar frá gengnum tíma sem glöddu hann mest, við töluðum um hestakost okkar í gegnum tíðina, ilminn af lautum og lyngbrekkum á vorin, vaknandi jörð, gömlu vinina og uppátæki okkar félaganna.

Eitt sinn í gáska gerðum við Þór samning: Í öllum hestaferðum okkar yrði annar okkar alltaf án víns, við það var staðið og síðan að ef ég færi á undan honum burt þá mundi hann syngja yfir mér en ef hann yrði fyrri til mundi ég minnast hans í orðum og nú er staðið við það.

Lyngbrekkur lifna um vordag

lítill fugl í mó,

kátir fyrrum kváðum brag

klukkan aldrei sló,

í huga brenndist hófaslag

hart af röskum jó,

nú er sungið þitt síðasta lag

sof þú vinur í ró.

Margrét (Magga)
og Reynir.

Vinur minn Þór Sigurðsson sem var ofsettljósmyndari, safnvörður, húsvörður, hestamaður, sagnamaður og söngvari er nú farinn í sumarlandið. Hann var ráðinn á Minjasafnið á Akureyri til að leysa mig af í tvö ár, á síðustu dögum júlímánaðar 2002, og sá hann um ljósmyndadeildina næstu árin. Hann var síðan ráðinn í ýmis störf á Minjasafninu eftir að ég kom til baka 2004, eftir það deildum við skrifstofu og var það gaman.

Þau voru mörg símtölin sem hann tók við vini sína um hestamennsku og var tungumálið ákaflega sérstakt, orðin forn og oftast leikur í að raða saman einkennum hesta, holdarfari, litarfari, gæðum og geðslagi, orð sem var á mörkunum að maður skildi, en samt næstum því.

Oft komu inn til okkar skjólstæðingar hans sem hann hafði séð aumur á, t.d. var einn, ættaður úr Húnavatnssýslu sem hann hjálpaði við innkaup á nauðsynjum og skrifaði einnig fyrir hann öll jólakortin, í mörg ár. Auk þeirra komu fjölmargir til hans að spjalla um hestamennsku eða allt það sem Þór hafði áhuga á. Var það fólk tengt Fnjóskadal, Eyjafirði og síðan úr hans heittelskaða Vatnsdal í Húnavatnssýslu, þar var hann í sveit.

Söngur var ein af hans náðargáfum enda með bassarödd mjög góða. Hann var í fjölda kóra og söng við ótal útfarir og var oft pantaður. Fyrir einhverjum árum hafði Haraldur Sigurðsson tekið upp á því að færa Þór geisladiska með söng rússneskra bassasöngvara og töluðu þeir saman um þá eins og hverja aðra heimilisvini. Síðan kom að því að Lalli Sig. átti stórafmæli og bað hann Þór að syngja í afmælinu í Oddfellowhúsinu. Hóf Þór nú að syngja á rússnesku og hvatti afmælisbarnið hann áfram og urðu lögin allmörg. Eftir á sagði Þór að hann hefði verið því fegnastur að í salnum var ekki neinn sem kunni rússnesku því hann hafi verið farinn að rugla saman lögunum og einnig textunum, en allir héldu að þetta hefði átt að vera svona, var oft hlegið að þessu eftir á.

Sagnamaðurinn Þór var einstakur og fannst honum allra best þegar hann sagði mergjaðar draugasögur og ef honum tókst vel upp með endinn og gera hlustendum hverft við ljómaði kallinn. Hann tók mikinn þátt í Draugaslóð Minjasafnsins í Innbænum á Akureyri í fjölda ára og þótti fátt skemmtilegra.

Við áttum að mörgu leyti svipaða göngu í gegnum lífið, hvorugur drukkið og þar með verið ungir bílstjórar fyrir félaga okkar sem þurftu að fara á böll víðs vegar á Norðurlandi, og gátum samt dansað án áfengis. Báðir höfðum við misst eiginkonu frá ungum börnum sem leiddi til þess að við gátum talað um afleiðingar þess á opinn hátt án allrar viðkvæmni. Þór hjálpaði mér mikið með því að hlusta og ræða málin þegar djúpið á dimmu dögunum sótti að, því sorgarúrvinnsla er ekki sjúkdómur heldur eðlileg afleiðing ástvinamissis. Þarna var Þór sterkastur.

Ég sakna góðs vinar sem var alltaf jafn gaman að hitta eða spjalla við í síma. Ástvinum hans, Þórdísi, Sigurði, Stefáni og augasteinunum hans barnabörnunum, votta ég mína innilegustu samúð og er viss um að hann verður með þeim allar stundir.

Hörður Geirsson.

Vinátta, hvað er það? Jú, það er samband milli einstaklinga sem byggist á gagnkvæmu trausti, hjálpsemi og stuðningi þegar eitthvað bjátar á. Þannig var samband okkar Þórs Sigurðarsonar, jafnaldra míns, vinnufélaga til tuga ára í prentverki og sálufélaga í hestamennskunni í 60 ár. Við kynntumst fyrst 15 ára gamlir og var það hestamennskan og áhugi á hestum og öllu sem viðkom þeim. Það var mikil gróska í hestamennskunni á þessum tíma á Akureyri, fjöldi ungmenna sem stundaði hestamennskuna af áhuga. Við fundum okkur ekki innan hestamannafélagsins Léttis og þá var aðeins eitt að gera, stofna félag sem hæfði okkur, það var hestamannafélagið Fjölnir. Markmiðið var að aðstoða ungt fólk, halda fundi og ræða hestamennskuna en fyrst og fremst var markmiðið bindindi. Var Þór kosinn formaður Fjölnis en 1969 sameinaðist félagið Létti og fáni Fjölnis gerður að fána Léttis. Þór hélt fast í sín gildi, algjör reglumaður á bæði vín og tóbak alla ævi en flestir aðrir félagar hans í Fjölni tóku sín hliðarspor hvað það varðar.

Á þessum tíma voru hesthús og fjárhús á víð og dreif um bæjarlandið og við vorum í hverfi sem daglega var kallað Sameinuðu þjóðirnar. Þarna undum við okkur öll kvöld og allar helgar en Þór bar þó höfuð og herðar yfir okkur hina því hestakostur hans var langt yfir okkar getu, bar þar hæst gæðinginn Fölska, sem 1964 vann B-flokk gæðinga í Húnaveri með Þór 15 ára gamlan á baki, og glæsihryssuna Rimmu. Um 1970 var hestamönnum úthlutað svæði sem fékk nafnið Breiðholt, þar byggðum við Þór okkur hesthús hlið við hlið og þar höfum við stundað okkar hestamennsku í rúmlega hálfa öld ásamt fjölskyldum okkar. Fjölskylda Þórs á jörðina Selland í Fnjóskadal sem alla tíð hefur verið annað heimili Þórs og þar byggði hann sér síðar sumarhús sem hann kallar Lækjarkot. Annað sem tengdi okkur Þór saman var að við sóttum okkur kvonfang til Skagafjarðar og það gerði einnig vinur okkar Jói og svo skemmtilega vildi til að þær voru líka vinkonur svo ekki minnkaði samgangur okkar við það. Herdís, kona Þórs lést 1999 eftir erfiða baráttu og var það Þór vini mínum mikið áfall eins og gefur að skilja.

Annað sem einkenndi Þór alla tíð var söngurinn. Hann hafði óvenjulega fallega bassarödd, gekk ungur í Karlakórinn Geysi, söng með honum lengi og einnig með mörgum öðrum kórum, oft einsöng. Hann gaf út hljómdisk á efri árum og hélt einnig útgáfutónleika í Akureyrarkirkju fyrir fullu húsi. Hann var einnig félagi í Kvæðamannafélagi, söng rímur og stemmur við hin ýmsu tækifæri. Ungur var hann í sveit hjá Lárusi bónda í Grímstungu í Vatnsdal og þar fékk hann bakteríuna fyrir öllu sem gamalt var. Þór gekk ekki heill til skógar síðustu árin en kvartaði ekki yfir hlutskipti sínu. Hann átti stóran vinahóp sem hélt utan um hann og studdi allt til loka en Þór lést þann 21. maí. Lætur hann eftir sig þrjú börn, Stefán sem á tvo drengi, Sigurð og Þórdísi.

Börnum Þórs, öðrum ættingjum og vinum færi ég okkar innilegustu samúðarkveðjur og takk fyrir samfylgdina kæri vinur.

Jón Ólafur
og Alda.

Elsku Þór vinur okkar, okkur langar til að þakka þér fyrir alla góðu vináttuna frá 1973, eða í 51 ár, og fjölskyldu þinni líka. Þér fannst alltaf svo gaman að vera í hestamennsku og kveðast á. Þitt uppáhald var að ríða út með fólki og fara á hestamannamót. Okkur þótti leiðinlegt að heyra af veikindum þínum en nú ert þú laus úr þeim.

Elsku Stefán, Sigurður, Þórdís og öll stórfjölskylda, okkar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar allra. Guð styrki ykkur í þessari miklu sorg.

Veistu, ef þú vin átt,

þann er þú vel trúir,

og vilt þú af honum gott geta,

geði skaltu við þann blanda

og gjöfum skipta,

fara að finna oft.

(Úr Hávamálum)

Þínar vinkonur að eilífu,

Alda og Bára.