Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, sagði á fréttamannafundi í Rotterdam í Hollandi í gær að Ísland ætti að byggja ofan á frábærum 1:0-sigri á Englandi í vináttulandsleik á Wembley í London þegar liðið mætir Hollandi í vináttulandsleik í Rotterdam í kvöld.
„Sjálfstraust leikmanna liðsins mun aukast með svona úrslitum. Við ætlum að reyna að ná í önnur góð úrslit á morgun og af hverju ekki? Það er mögulegt að sýna að við erum með leikmenn í góðum gæðaflokki sem geta spilað vel. Við eigum auk þess leikmenn inni.
Við byggjum ofan á þessu en verðum að átta okkur á því að allir landsleikir eru erfiðir, sérstaklega gegn liðum á borð við Holland, sem er gott fótboltalið og sérstaklega á heimavelli. Við þurfum að gleyma Englandsleiknum og horfa til næsta leiks,“ sagði Hareide.
Norðmaðurinn greindi frá því að Daníel Leó Grétarsson væri meiddur á hásin og tók því ekki þátt á æfingu í gær. Vonir stæðu þó til að hann geti spilað í kvöld.
„Þetta verður kannski svipað. Við eigum eftir að þurfa að verjast ansi mikið. Við vitum það alveg að hollenska liðið elskar að halda í boltann en við vitum líka að við getum beitt skyndisóknum og þorað að halda boltanum.
Við munum vonandi sýna það enn betur á morgun. Þeir ætla eflaust að pressa okkur eitthvað betur en Englendingarnir og við þurfum þá að nýta okkur aðra veikleika sem verða í þeirra leik. Það er alveg klárt að hvert einasta lið er með einhverja veikleika,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson, fyrirliði Íslands, á fundinum.