Urgur Frá mótmælum í Hong Kong.
Urgur Frá mótmælum í Hong Kong.
Miklar eru raunir kínverskra stjórnvalda. Á fimmtudag gerðist það að vanþakklátir borgarar í Hong Kong gerðust óstýrilátir og hlýddu ekki lögum um að sýna bæri kínverska þjóðsöngnum virðingu.

Miklar eru raunir kínverskra stjórnvalda. Á fimmtudag gerðist það að vanþakklátir borgarar í Hong Kong gerðust óstýrilátir og hlýddu ekki lögum um að sýna bæri kínverska þjóðsöngnum virðingu.

Atburðurinn átt sér stað á knattspyrnuleik landsliðs Hong Kong við það íranska í Hong Kong. Á meðan kínverski þjóðsöngurinn var leikinn sáust heilir þrír áhorfendur snúa baki í leikvöllinn og sitja sem fastast.

Þetta framferði sást á öryggismyndavélum og var fólkið, tveir karlar og ein kona, umsvifalaust handtekið.

Í yfirlýsingu frá lögreglu sagði að allir þeir sem „opinbera og viljandi vanvirða þjóðsönginn á nokkurn hátt hafi framið glæp“.

Viðurlögin við þessum „glæp“ eru allt að þriggja ára fangelsi og einnar milljónar króna sekt.

Á síðasta áratug var oft svo mikið baulað þegar kínverski þjóðsöngurinn var leikinn á íþróttaviðburðum í Hong Kong að hann heyrðist ekki. Til að stöðva þetta framferði voru sett lög árið 2020 með hörðum viðurlögum við að „vanvirða“ þjóðsönginn.

Slík refsigleði afhjúpar vitaskuld veikleika óvinsælla stjórnvalda og gerir þau hlægileg.