Útgerðin Gjögur hf. hefur fest kaup á sextán íbúðum í Sunnusmára í Kópavogi. Þetta staðfestir Ingi Jóhann Guðmundsson, framkvæmdastjóri félagsins, í samtali við Morgunblaðið.
Hann segir að ástæða kaupanna sé sú að verið sé að koma þaki yfir höfuðið á skipverjum sem starfa hjá útgerðinni og fjölskyldum þeirra.„Það má ekki búa þar [Grindavík], menn voru ekki með húsnæði og þessu varð að kippa í liðinn,“ segir Ingi Jóhann.
Togskip félagsins, Áskell og Vörður eru gerð út frá Grindavík og áhafnir að mesta skipaðar þaðan. Núna að undanförnu hefur þó aðallega verið landað aflanum í Hafnarfirði.
-Heldurðu að Gjögur muni áfram gera út frá Grindavík í framtíðinni?
„Það verður bara að anda með nefinu. Það eru enn jarðhræringar þarna og það verður að sjá hvernig það þróast,“ segir Ingi.
Gjögur starfrækir einnig fiskvinnsluhús á Grenivík sem framleiðir fjölbreyttar fiskafurðir. Um 30 starfsmenn starfa í fiskvinnslunni. Hákon EA 148 er á uppsjávarveiðum og er áhöfnin frá Grenivík og Eyjafjarðarsvæðinu. hng@mbl.is