Guðmundur Ingi Guðbrandsson
Guðmundur Ingi Guðbrandsson
Drífa Lýðsdóttir Hermann Nökkvi Gunnarsson Enn er óvíst hvort einhver innan raða Vinstri grænna sé að íhuga framboð til formanns, segir Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, varaformaður VG, í samtali við Morgunblaðið.

Drífa Lýðsdóttir

Hermann Nökkvi Gunnarsson

Enn er óvíst hvort einhver innan raða Vinstri grænna sé að íhuga framboð til formanns, segir Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, varaformaður VG, í samtali við Morgunblaðið.

Spurð hvort forystufólk hreyfingarinnar hafi rætt sín á milli um hver væri líklegur til að taka við formannssætinu svarar Jana Salóme neitandi. Hún bætir við að allir séu bara að hugsa málið og máta sig við breyttar aðstæður.

Jana Salóme segist aðspurð telja að þingmenn og ráðherrar VG séu bjartsýnir um framhaldið. „Já ég held það, það er í raun og veru ekki annað hægt.“ Hún bætir við að núna verði að halda áfram og þá sé mikilvægt að fara í innri endurskoðun hreyfingarinnar.

Spurð hvað muni fylgja nýjum kafla VG segir Jana það fyrst og fremst vera ný forysta, þar sem Katrín Jakobsdóttir hefur verið í forystu flokksins síðustu 20 árin en nú séu breyttir tímar og þeim fylgi breyttar áherslur. „Það koma væntanlega nýjar áherslur með nýrri forystu,“ segir Jana.

Mikilvægt að taka samtalið

„Ég held það sé nauðsynlegt að eiga samtal við félaga í hreyfingunni um hvað fólk vill sjá að verði lagt áherslu á,“ segir Jana, en hún býst fastlega við því að landsfundurinn, sem verður haldinn helgina 4.-6. október, verði í Reykjavík.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, starfandi formaður VG, kveðst í samtali við Morgunblaðið ekki vera búinn að ákveða hvort hann bjóði sig fram til formennsku í flokknum.

-Ertu búinn að ákveða hvort að þú bjóðir þig fram til formanns?

„Nei ég er ekki búinn að taka ákvörðun um það. Núna erum við búin að leggja niður plan – halda landsfund í byrjun október,“ segir Guðmundur Ingi, og bætir við að flokkurinn ætli sér að efna til meira samtals við grasrótina og félaga í hreyfingunni. Þá segir hann að í undirbúningi sé félagsfundur í lok júní og svo í ágúst verði haldinn reglubundinn flokksráðsfundur.

-Hefur þú áhuga á því að bjóða þig fram til formanns eða varaformanns, ef þú telur erindi þitt skýrt og ákall vera um það?

„Ég held að það sé ekki alveg tímabært að tjá mig um það,“ svarar Guðmundur Ingi.

VG verði róttækari en áður

Hann bætir við að erindi VG sé byggt á félagslegu réttlæti, umhverfisvernd, friðarhyggju, mannréttindamálum og kvenfrelsismálum. Hann segir að mikill árangur hafi náðst í þessum málaflokkum, en taka þurfi stöðuna hjá grasrót flokksins.

„Já, ég tel að við þurfum að taka samtalið inni í grasrótinni og sjá hvert fólk vill að VG stefni núna fyrir næstu kosningar, leita svolítið í ræturnar og erindi í pólitíkinni,“ segir Guðmundur og bætir við:

„Ég er þeirra skoðunar að það þurfi að vera til vinstri og það þurfi að vera enn þá meira í áttina að róttækari umhverfisstefnu.“

Höf.: Drífa Lýðsdóttir