Samstarf Frá vinstri: Víglundur Laxdal Sverrisson og Hildur Sverrisdóttir frá Tækniskólanum og Kristján Þór Harðarson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar, undirrita pappírana.
Samstarf Frá vinstri: Víglundur Laxdal Sverrisson og Hildur Sverrisdóttir frá Tækniskólanum og Kristján Þór Harðarson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar, undirrita pappírana. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Undirritað var fyrir helgina samkomulag um menntun félagsfólks Slysavarnafélagsins Landsbjargar (SL) hjá Tæknskólanum sem aftur fær aðgengi að björgunarskipum félagsins fyrir nemendur í skip og vélstjórn. „Þetta er samkomulag sem er tvímælalaust beggja hagur. Raunar er nokkuð síðan við fórum að stað í þessa vinnu sem nú loks hefur verið formgerð. Fyrir okkur munar miklu að fá aðgang að frábærum skipum sem eru búin frábærum tækjum,“ segir Víglundur Laxdal Sverrisson, skólastjóri Skipstjórarskólans og Véltækniskólans, sem starfa undir hatti Tækniskólans.

Eftirsóknarvert fyrir nemendur

Samkomulagið sem fyrir liggur var undirritað af Víglundi og Hildi Ingvarsdóttur skólameistara Tækiskólans og Kristjáni Þór Harðarsyni framkvæmdastjóra SL. Til þessa samstarfs leggur félagið björgunarskipið Jóhannes Briem sem björgunarsveitin Ársæll í Reykjavík fékk á síðasta ári. Fullkomin stjórntæki skipsins koma sér vel í kennslu í skipstjórn og siglingareglum

„Fyrir nemendur okkar sem er skipstjórnarfólk framtíðarinnar er mjög eftirsóknarvert að kynnast þessum tækjum. Öll eru þau stafræn og nákvæm og um borð er til dæmis botnsjá og hitamyndavél,” segir Víglundur um björgunarskipið nýja. Ganghraði þess er allt að 30 sjómílur á klukkustund, tveir Scania-mótorar knýja þotudrif skipsins sem kemur í stað hefðbundins skrúfubúnaðar.

Styrkir tengsl milli skóla og félags

„Með þessu samstarfi getum við útfært kennslu við raunaðstæður um borð í fullkomnu skipi sem gefur nemendum einstakt tækifæri. Jafnframt ætti þetta að stuðla að meiri öryggisvitund. Með þessu samstarfi styrkjast líka þau tengsl sem eru milli Tækniskólans og Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Í raðir björgunarsveitanna þarf alltaf fólk, meðal annars með skipstjórnarmenntun, og hugsanlega hvetur þetta einhverja af okkar nemendum til að leggja mikilvægu starfi lið,“ segir Víglundur Laxdal um kennsluna á skipinu sem hefst af fullum krafti í haust.

Skólstjórinn bendir einnig á að í því tvíhliða samkomulagi sem nú liggur fyrir sé gert ráð fyrir því að fólk úr björgunarsveitunum fái skipstjórnarþjálfun hjá Tækniskólanum sem sé mikilvægt, nú þegar endurnýjun á björgunarskipum félagsins stendur yfir. Þrjú ný skip eru komin, það er til Vestmannaeyja, Siglufjarðar og Reykjavíkur.