Hasar Martin Lawrence og Will Smith í Slæmir strákar: Duga eða drepast sem er fimmta myndin í seríunni.
Hasar Martin Lawrence og Will Smith í Slæmir strákar: Duga eða drepast sem er fimmta myndin í seríunni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Laugarásbíó, Sambíóin og Smárabíó Bad Boys: Ride or Die / Slæmir strákar: Duga eða drepast ★★★½· Leikstjórn: Adil El Arbi og Bilall Fallah. Handrit: Chris Bremner, Will Beall og George Gallo. Aðalleikarar: Will Smith, Martin Lawrence, Eric Dane, Jacob Scipio, Melanie Liburd, Paola Núñez, Rhea Seehorn, Vanessa Hudgens, Alexander Ludwig og Ioan Gruffudd. 2024. Bandaríkin. 115 mín.

KVIKMYNDIR

Jóna Gréta Hilmarsdóttir

Slæmu strákarnir, Mike Lowrey (Will Smith) og Marcus Burnett (Martin Lawrence), eru mættir aftur í bíóhúsin eftir fjögurra ára pásu. Slæmir strákar: Duga eða drepast er fimmta myndin í kvikmyndaseríunni en fyrsta myndin, Slæmir strákar, kom í bíó árið 1995. Fyrstu tveimur myndunum leikstýrði Michael Bay en hann lætur sjá sig í nýjustu myndinni þar sem hann er næstum því búinn að keyra á Mike Lowrey í bráðfyndnu atriði þegar Marcus telur sig ódauðlegan og gengur pollrólegur yfir hraðbraut með Mike í eftirdragi áhyggjufullur. Atriðið er sambærilegt atriðinu í teiknimyndinni Mulan (1998) eftir Tony Bancroft og Barry Cook þegar amman (June Forey) gengur yfir götuna með Mushu (Eddie Murphy) til að athuga hvort hann sé alvöru lukkudýr. Líkt og Mushu er Mike bókstaflega á barmi taugaáfalls en í næsta atriði fær hann einmitt kvíðakast.

Það að Mike sé að takast á við mikinn kvíða er einn af smærri söguþráðunum í myndinni en það er áhugavert að fylgjast með þessum hörkulöggum takast á við eitthvað eins hversdagslegt og kvíða. Mike vill að sjálfsögðu ekki leita sér hjálpar en Marcus hvetur hann ítrekað til að tala um tilfinningar sínar í staðinn fyrir að byrgja þær inni en það er greinilegt að Mike á margt ósagt við son sinn og glæpamanninn Armando (Jacob Scipio) sem undirrituð verður að viðurkenna að er mjög aðlaðandi þrátt fyrir að vera slæmur strákur. Það er mjög fyndið að fylgjast með þessum tveimur karlmönnum berskjalda sig af því töffaraskapurinn virðist alltaf flækjast fyrir þeim, þeir eru einfaldlega vonlausir í því að opna sig, sérstaklega Mike. Marcus virðist eiga auðveldara með það eftir að hann fær hjartaáfall í brúðkaupi Mike og Christine (Melanie Liburd) í byrjun myndarinnar en það kemur kannski ekki beint náttúrulega til hans heldur.

Til í tilraunir

Atriðið þegar Marcus fær hjartaáfall og lætur næstum því lífið er skemmtilega tilraunakennt. Marcus heimsækir þar eftirlífið og hittir páfagauk og gamlan, látinn vin, Howard (Joe Pantoliano), á strönd en áður en hann kemst á ströndina fá áhorfendur skot þar sem það er eins og tökuvélin fari í gegnum augað á Marcus og í kjölfarið eru sýnd brot úr fyrri myndum, þ.e. lífi Marcus og Mike, en eitt af því sem Marcus kemst að er að hann og Mike eru sálufélagarnir. Þessi upplifun hans við dauðann verður eins konar grínstoðtæki (e. comic relief) út myndina en Marcus vill til dæmis meina að í fyrra lífi hafi Mike verið asninn hans Marcus og hann hafi farið illa með hann og fyrir það biður hann Mike að sjálfsögðu afsökunar.

Myndin fjallar þó ekki aðeins um samband Mike og Marcus þó sumir áhorfendur hafi bara farið á myndina til að sjá þær persónur kýta en það er ekki eins og myndirnar séu frægar fyrir handritin. Í Slæmir strákar: Duga eða drepast er rangur einstaklingur í lögreglunni sakaður um að vera spilltur og Mike og Marcus eru þeir einu sem geta sannað hver sökudólgurinn er í raun og veru en það kemur þeim og fjölskyldunni í hættu. Söguþráðurinn er ekkert sérstaklega frumlegur en eins og áður hefur komið fram fer enginn á myndina í bíó með þær væntingar. Leikstjórarnir, Adil El Arbi og Bilall Fallah, eru einnig fullkomlega meðvitaðir um hverju áhorfendur eru að sækjast eftir og taka sig ekki of hátíðlega. Þeir leyfa sér þess vegna að kafa djúpt í klisjurnar í greininni enda nóg um ofbeldi og undir lokin er erfitt að ná utan um það hversu margir eru drepnir í myndinni. Þetta þýðir líka að þeir þora og eru viljugir til að gera fleiri tilraunir, sem borgar sig en það eru mörg skemmtileg og öðruvísi skot í myndinni. Dæmi um slíkt er þegar Marcus lítur á úrið sitt en þá er eins og tökuvélin sé inni í úrinu og áhorfendur fá þá skemmtilegan lágan vinkil, þar sem tökuvélin beinist upp á við á Marcus. Það er líka skemmtilegt að sjá að svokallað Snorricam er oft notað til að færa áhorfendur nær persónum í bardagaatriðum og auka spennuna. Snorricam er háþróað tól fyrir kvikmyndatöku þar sem tökuvélin er fest við leikarann, hún snýr að honum, eltir hann og fangar um leið viðbrögð hans og leik. Það er eitt atriði sem stendur sérstaklega upp úr hjá undirritaðri en þá er tökuvélin fest við Mike, nema í staðinn fyrir að fanga aðeins Mike þá færist tökuvélin áreynslulaust frá Mike yfir í svokallað sjónarhornsskot (e. point of view), þ.e. hlutlægt skot tekið frá sjónarhorni Mike þar sem byssan er staðsett. Þessi tækjabúnaður er líka fenginn frá Snorri Bros, sem er stofnað af tveimur Íslendingum, Einari Snorra og Eiði Snorra, og heitir Snorricam Sputnik en þessi einfalda hreyfing á vélinni bætir miklu við atriðið.

Klisjurnar vinna bónusstig

Það er ljóst að tilraunamennska getur skilað sér en þessi frumlegu skot geta hins vegar tekið áhorfendur út úr myndinni af því að þeir búast ekki endilega við þeim í klisjukenndri hasar- og gamanmynd eins og þessari. Undirrituð fékk smá á tilfinninguna að teymið hefði fengið peninga til að leika sér, þau gerðu því mynd sem er fyrst og fremst skemmtileg og fengu tækifæri til að prófa töff skot af því að það er ekki eins og það sé einhver mjög áberandi stíll í myndinni sem þau þurfa að halda sig við. Þessi leikgleði sem skín í gegn er bæði helsti kostur og ókostur myndarinnar en af því að teymið tekur myndina ekki alvarlega þá eiga áhorfendur líka erfitt með að taka hana alvarlega. Slæmir strákar: Duga eða drepast er ekki að fara að vera sýnd á virtum kvikmyndahátíðum eða hljóta mörg verðlaun enda er það ekki markmiðið, hún er fyrst og fremst skemmtileg en eftir sýninguna missti undirrituð það út úr sér að hún væri búin að gleyma því að það getur stundum verið gaman að fara í bíó. Síðasta kvikmyndin sem undirrituð sá var danska myndin Bastarðurinn (2024) eftir leikstjórann Nikolaj Arcel og þó hún hafi verið virkilega góð þá er varla hægt að segja að hún hafi verið skemmtileg enda fjallar hún um þrjóskhaus sem er að reyna að rækta kartöflur á jósku heiðunum. Slæmir strákar: Duga eða drepast er kannski í mesta lagi fyndin froða en undirrituð sér ekki ástæðu til þess að refsa henni fyrir það enda virðist eina markmiðið vera að skemmta áhorfendum og það tekst svo sannarlega.