Háskólinn á Bifröst Viðskiptalögfræðin er vinsæl námsleið í ár.
Háskólinn á Bifröst Viðskiptalögfræðin er vinsæl námsleið í ár. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Nýtt aðsóknarmet var slegið við Háskólann á Bifröst þegar umsóknarfrestur rann út síðastliðinn fimmtudag. Alls höfðu þá borist tæplega 1.460 umsóknir og jókst aðsókn um nærri 200% milli ára. Síðast var aðsóknarmet slegið við háskólann árið 2020, en…

Nýtt aðsóknarmet var slegið við Háskólann á Bifröst þegar umsóknarfrestur rann út síðastliðinn fimmtudag. Alls höfðu þá borist tæplega 1.460 umsóknir og jókst aðsókn um nærri 200% milli ára. Síðast var aðsóknarmet slegið við háskólann árið 2020, en þá höfðu borist liðlega 875 umsóknir er umsóknarfresturinn rann út.

Þá eru skráningar á námslínur á borð við viðskiptafræði og viðskiptalögfræði um þrisvar sinnum fleiri en í fyrra, en þær eru meðal vinsælustu námsleiðanna.

Hinn 2. mars síðastliðinn voru skólagjöld felld niður við Háskólann á Bifröst og tekið var upp í þeirra stað skráningargjald eins og tíðkast hjá opinberu háskólunum. Aðdragandi málsins er sá að samningar um niðurfellingu skólagjalda tókust á milli Háskólans á Bifröst og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins í framhaldi af því að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskólaráðherra bauð sjálfstætt starfandi háskólum óskert framlög úr ríkissjóði gegn niðurfellingu skólagjalda.

Ljóst er að niðurfelling skólagjalda hefur haft bein áhrif á fjölda umsókna í háskóla, en Listaháskóla Íslands bárust í ár tvöfalt fleiri umsóknir um nám en í fyrra.

Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, segir að sér sé þakklæti efst í huga. „Þakklæti fyrir þann áhuga og það traust sem umsækjendur bera til Háskólans á Bifröst sem menntastofnunar. Ljóst er að sú ákvörðun að fella niður skólagjöld hefur orðið til þess að styrkja samkeppnisstöðu háskólanáms hér á landi, en einnig er um að ræða mikilvægt jafnréttismál varðandi aðgang að háskólanámi.“ gsa@mbl.is