Hlutabréfaverð olíufélagsins Saudi Aramco hækkaði á sunnudag í kjölfar sölu þarlendra stjórnvalda á 0,64% hlut í félaginu. Líkt og Morgunblaðið fjallaði um á sínum tíma var samtals 1,5% hlutur í þessu ríkisrekna risafyrirtæki seldur í útboði árið 2019 og varð það stærsta hlutabréfaútboð sögunnar

Hlutabréfaverð olíufélagsins Saudi Aramco hækkaði á sunnudag í kjölfar sölu þarlendra stjórnvalda á 0,64% hlut í félaginu. Líkt og Morgunblaðið fjallaði um á sínum tíma var samtals 1,5% hlutur í þessu ríkisrekna risafyrirtæki seldur í útboði árið 2019 og varð það stærsta hlutabréfaútboð sögunnar. Var hver hlutur þá seldur á 32 ríala og síðan þá hefur hlutabréfaverðið farið hæst upp í u.þ.b. 37 ríala, en farið lækkandi undanfarið ár.

Að þessu sinni seldist hver hlutur á 27,25 ríala sem þýðir að ríkissjóður Sádi-Arabíu fær um 11,2 milljarða dala innspýtingu með viðskiptunum. Fór meirihluti hlutabréfanna til erlendra kaupenda, einkum í Evrópu og Bandaríkjunum, og hafa greinendur bent á að sölunni hafi m.a. verið ætlað að mæla hversu áhugasamir erlendir aðilar væru um að fjárfesta í sádiarabíska hagkerfinu.

Við opnun Tadawul-kauphallarinnar á sunnudag hækkaði hlutabréfaverð Aramco lítillega og endaði daginn í 28,6 ríölum. Er markaðsvirði Saudi Aramco því um 1.850 milljarðar dala. ai@mbl.is