Frakkland Stuðningsmenn jaðarflokksins Reconquete fögnuðu mjög yfirlýsingu Macrons um þingrof og kosningar.
Frakkland Stuðningsmenn jaðarflokksins Reconquete fögnuðu mjög yfirlýsingu Macrons um þingrof og kosningar. — AFP/Ian Langsdon
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Flest benti til þess í gærkvöldi að flokkar, sem skilgreindir eru yst á hægri jaðrinum, hefðu unnið mjög á í Evrópuþingkosningunum um helgina. Flokkaþyrping mið-hægriflokka, EPP, hélt þó stöðu sinni sem stærsti þingflokkurinn, og heldur hann meirihluta á þinginu ásamt samstarfaðilum sínum, flokkaþyrpingu mið-vinstri flokka, Sósíalistar og demókratar; og miðjuflokkabandalaginu Endurnýjum Evrópu.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Flest benti til þess í gærkvöldi að flokkar, sem skilgreindir eru yst á hægri jaðrinum, hefðu unnið mjög á í Evrópuþingkosningunum um helgina. Flokkaþyrping mið-hægriflokka, EPP, hélt þó stöðu sinni sem stærsti þingflokkurinn, og heldur hann meirihluta á þinginu ásamt samstarfaðilum sínum, flokkaþyrpingu mið-vinstri flokka, Sósíalistar og demókratar; og miðjuflokkabandalaginu Endurnýjum Evrópu.

Í heildina báru úrslitin vott um hægrisveiflu sem bæði hinir hefðbundnu íhaldsflokkar og hægri-jaðarflokkarnir nutu góðs af. Þegar talning var nokkuð á veg komin í gærkvöldi stefndi allt í að EPP, bandalag mið-hægri flokka, myndi fá samtals 191 þingsæti af 720, eða 15 þingsætum meira en bandalagið hafði fyrir kosningarnar.

Flokkaþyrping mið-vinstriflokka, S&D, átti samkvæmt sömu tölum að fá 135 þingsæti, og tapaði þá fjórum þingsætum í heildina. Hins vegar stefndi allt í að bandalag miðjuflokka, Endurnýjum Evrópu, RE, myndi tapa 19 þingsætum og fá 83 þingsæti. Þessi þrjú miðsæknu bandalög mynduðu meirihlutann á Evrópuþinginu fyrir kosningarnar, og var því ljóst í gær að sá meirihluti myndi halda með 409 þingsæti af 720, þrátt fyrir árangur jaðarflokkanna.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og leiðtogi EPP á Evrópuþinginu, hét því í gær að hún myndi byggja „varnarvirki gegn öfgaöflunum frá vinstri og frá hægri“, þar sem ómögulegt yrði að mynda meirihluta án aðkomu EPP.

Þjóðfundurinn með stórsigur

Útgönguspár í Frakklandi bentu til þess að Þjóðfundurinn (RN), flokkur Marine Le Pen, hefði unnið stórsigur á flokkaþyrpingu miðjuflokkanna, sem Emmanuel Macron Frakklandsforseti studdi. Var RN með tæpan þriðjung atkvæða þegar talning þeirra var vel á veg komin í gærkvöldi og stefndi allt í að hann fengi 30-31 þingsæti á Evrópuþinginu, á sama tíma og flokkur Macrons, BE, fékk einungis um 15% atkvæða og 14 þingsæti.

Jordan Bardella, sem nýlega var valinn sem leiðtogi Þjóðfundarins, skoraði á Macron í gær að boða til þingkosninga í ljósi úrslitanna. „Forsetinn getur ekki skellt skollaeyrum við skilaboðum frönsku þjóðarinnar,“ sagði Bardella. Honum varð að ósk sinni, því Macron brást við úrslitunum með því að slíta þingi og boða til þingkosninga. Verður fyrri umferð þeirra haldin 30. júní, og sú síðari 7. júlí.

Macron sagði þegar hann kynnti ákvörðun sína, að auk Þjóðfundarins hefðu öfga-hægri flokkar fengið nærri því 40% atkvæða í Frakklandi og að það væri ekki staða sem hann gæti sætt sig við. „Ég get ekki látið sem ekkert hafi gerst,“ sagði Macron, sem sagði jafnframt að niðurstaða kosninganna hefðu ekki verið góð fyrir þá sem styddu Evrópusambandið.

Tilkynning Macrons kom mjög á óvart, og sögðu franskir fjölmiðlar í gærkvöldi að um væri að ræða stærsta „veðmál“ sem Macron hefði gert á pólitískum ferli sínum, en þarlendir stjórnmálaskýrendur segja að arfleifð hans sem forseta muni ráðast að miklu leyti af niðurstöðu þingkosninganna í sumar.

Ríkisstjórnin beið afhroð

Í Þýskalandi urðu kristilegu flokkarnir CDU og CSU hlutskarpastir, en útgönguspár þar bentu til þess að þeir myndu fá rétt rúmlega 30% atkvæða og 31 þingsæti á Evrópuþinginu. Komu úrslitin að því leyti til fáum á óvart, því að skoðanakannanir höfðu bent til sigurs kristilegu flokkanna um nokkra hríð.

Sömu kannanir höfðu hins vegar einnig að miklu leyti bent til þess að Jafnaðarmannaflokkur Olafs Scholz Þýskalandskanslara, SPD, myndi lenda í öðru sæti. SPD beið hins vegar afhroð og fékk 13,9%, Endaði flokkurinn því í þriðja sæti á eftir pópúlistaflokknum Alternative für Deutschland, AfD, sem fékk um 16% atkvæða, þrátt fyrir að röð hneykslismála hefðu skekið AfD síðustu vikurnar áður en Þjóðverjar gengu að kjörborðinu.

Raunar þóttu úrslitin í heild ekki uppörvandi fyrir ríkisstjórnarflokkana þrjá, þar sem Græningjar fengu 11,9% og frjálslyndir demókratar 5%. Fengu þeir því samtals um 30,8% atkvæða, eða sjónarmun meira samtals en kristilegu flokkarnir.

Hægri-jaðarflokkunum gekk einnig vel í Austurríki, þar sem FPÖ-flokkurinn fékk flest atkvæði samkvæmt útgönguspám, eða um 27%, á sama tíma og íhaldsflokknum ÖVP, sem nú leiðir ríkisstjórnina, var spáð 23%. Vinstri flokkarnir unnu hins vegar á í norrænu ríkjunum þremur, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson