Holberg Másson
Áreiðanlegar heimildir eru fyrir því að vel gangi í viðræðum um fríverslunarsamning milli EFTA og Taílands. Nokkur viðskipti eru milli Íslands og Taílands, bæði beint og í gegnum milliliði og fyrirtæki í eigu íslenskra aðila í Evrópusambandinu og í Bretlandi.
Í apríl var samningafundur milli EFTA-landanna og Taílands og gekk hann vel. Er gert ráð fyrir að annar fundur verði haldinn í ágúst og þá ljúki samningum. Stefnt er að því að skrifa undir nýjan fríverslunarsamning fyrir áramót, samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu EFTA. Nýr fríverslunarsamningur mun stuðla að auknum viðskiptum, fjárfestingum og ferðaþjónustu milli landanna.
Kom þetta meðal annars fram á aðalfundi Íslensk-taílenska viðskiptaráðsins sem var haldinn þann 24. maí sl. ÍTV stuðlar að og eflir viðskipti á milli Íslands og Taílands. Ráðið er hýst hjá Félagi atvinnurekenda.
Á Íslandi bjuggu 565 taílenskir ríkisborgarar þann 1. desember 2023. Svipaður fjöldi íslenskra ríkisborgara er búsettur í Taílandi, aðallega í Bangkok, í Pattaya og á Phuket-eyju. Nokkuð langt er á milli landanna og tekur um 15 klst. að fljúga aðra leið. Þrátt fyrir þetta heimsækja þúsundir Taílendinga okkur árlega og þúsundir Íslendinga heimsækja Taíland. Nokkur vöru- og þjónustuviðskipti Íslands eru við Taíland og var á síðasta ári skráður inn- og útflutningur upp á tæpa sex milljarða króna. Inn- og útflutningur milli landanna er sennilega mun meiri, en þar sem ekki er í gildi fríverslunarsamningur fara viðskipti oft meira í gegnum önnur lönd og eru ekki skráð sem bein viðskipti milli landanna. Það er líklegt til að breytast með fríverslunarsamningi.
Taíland hefur 15 fríverslunarsamninga við 19 lönd og hefur nýr forsætisráðherra landsins sagt að hann leggi mikla áherslu á að klára fleiri samninga sem fyrst (heimild: Kikkei Asia News, 25.5. 2024).
Taílensk stjórnvöld bjóða fram aðstoð sína og vilja, í samstarfi við taílenska verslunarráðið (e. Thai Chamber of Commerce) hafa frumkvæði að því að taílensk fyrirtæki í viðskiptum við Ísland stofni með sér félagsskap.
ÍTV var stofnað 2016. Á síðasta ári fólst starfsemi ráðsins, auk stjórnarfunda, t.d. í fundahöldum með sendifulltrúa taílenska sendiráðsins í Ósló og sendiherra Íslands í Bangkok. Meðal annars hefur verið rætt um möguleika á að stofna taílensk-íslenskt viðskiptaráð í Taílandi með aðstoð taílenska verslunarráðsins og utanríkisráðuneytisins. Slíkt viðskiptaráð yrði þá samstarfsaðili ÍTV. Nýr fríverslunarsamningur myndi skjóta sterkari stoðum undir slíkt samstarf.
Við sem stöndum að Íslensk-taílenska viðskiptaráðinu hvetjum fyrirtæki, sem eru í viðskiptum við Taíland, til að skrá sig í ráðið ef þau eru ekki félagsmenn nú þegar. Einnig viljum við minna félagsmenn og aðra áhugasama á að senda okkur ábendingar og tillögur um fyrirtæki, sem þeir telja líklegt að væru til í að taka þátt í stofnun samstarfssamtaka ÍTV í Taílandi. Þetta geta verið samstarfsaðilar íslenskra fyrirtækja, birgjar, kaupendur, fyrirtæki í eigu Íslendinga o.s.frv. Umsóknum og ábendingum má koma til skrifstofu Félags atvinnurekenda.
Höfundur er formaður Íslensk-taílenska viðskiptaráðsins.