Fjölskyldan Frá vinstri: Sævar, Birgir, Unnur Pálína, Sólveig, Guðmundur, Guðbjörg, Bryndís og Hafrún.
Fjölskyldan Frá vinstri: Sævar, Birgir, Unnur Pálína, Sólveig, Guðmundur, Guðbjörg, Bryndís og Hafrún.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðmundur Gísli Jónsson fæddist 9. júní 1939 og varð því 85 ára í gær. Hann fæddist á Munaðarnesi í Árneshreppi og ólst þar upp. Hann var í barnaskóla í Finnbogastaðaskóla og lauk þar svokölluðu barnaskólaprófi 12 ára gamall

Guðmundur Gísli Jónsson fæddist 9. júní 1939 og varð því 85 ára í gær. Hann fæddist á Munaðarnesi í Árneshreppi og ólst þar upp.

Hann var í barnaskóla í Finnbogastaðaskóla og lauk þar svokölluðu barnaskólaprófi 12 ára gamall.

Guðmundur fór á sex vertíðir, tvær í Djúpavík, þrjár í Grundarfirði og eina síldarvertíð. Hann tók svo við búi á Munaðarnesi 1961 með eiginkonu sinni og bjuggu þau þar til haustsins 2005 þegar þau flytja til Grundarfjarðar þar sem þau búa enn. „Þegar ég var að alast þar upp voru sex bændur þar en við hjónin vorum orðin tvö eftir þegar við fluttum þaðan. Við vildum fara þaðan meðan við gátum staðið í lappirnar. Við áttum nýtt og ágætt hús en afsöluðum því og jörðinni til barna okkar og erum því alveg frjáls. Við erum samt alltaf þar á sumrin, maður á ræturnar þarna en sama ættin bjó þarna í nokkur hundruð ár, man ekki í svipinn hve lengi.“

Með bústörfunum stundaði Guðmundur sjómennsku og fór á grásleppu og skak. „Það var ekki hægt að komast af án þess að stunda líka sjómennskuna. Konan mín sá þá meira um bústörfin, við vorum með sauðfjárbúskap og 2-3 kýr.“

Einnig var á bænum svokallaður hlunnindabúskapur þar sem landið var nýtt, t.d. að bjarga rekavið sem var sagaður í staura og seldur, selveiðar voru stundaðar og grenjaskytta var Guðmundur einnig. Hann var líka landpóstur þar sem þurfti að fara hálfsmánaðarlega gangandi frá Ófeigsfirði norður á Dranga. „Meðan byggð var á Dröngum, en þeir fóru í eyði 1966, þá þurftum við að fara þangað gangandi á veturna en póstbátur fór þangað á sumrin. Það tók sjö tíma að ganga þetta og gátu verið erfiðar ferðir.“

Hreppstjóri var Guðmundur frá 1971 til 2005. Hann sat í sýslunefnd, hreppsnefnd, sóknarnefnd og í stjórn Kaupfélags Strandamanna um árabil. „Þetta voru skemmtilegir tímar þegar ég var í sýslunefnd, ég kunni vel við það og kynntist ágætum mönnum.“

Hann hefur reglulega skrifað greinar í bókaflokkinn Strandapóstinn. „Ég held ég láti ekki fleira frá mér en þó er aldrei að vita. Það kemur alltaf upp annað slagið að ég skrifi eitthvað, einhverjar endurminningar.“

Helsta áhugamál Guðmundar er bókmenntir. Hann hefur alla tíð lesið mikið, þá sérstaklega íslenskar bókmenntir, Laxness, Íslendingasögurnar, fræðirit og sögulegar bókmenntir. „Ég á óhemju mikið af bókum, góðum bókum og les fram á nótt á hverju einasta kvöldi, get aldrei vanið mig af því. Þetta er fíkn. Lesturinn jókst mikið eftir að ég hætti að vinna en ég hef alltaf lesið mikið. Maður hefur lært ýmislegt á því. Ég er núna að lesa Þórberg upp á nýtt.“

Fjölskylda

Eiginkona Guðmundar er Sólveig Stefanía Jónsdóttir, f. 12.6. 1942, húsfreyja og fyrrverandi bóndi. Þau eru búsett á Hlíðarvegi 6 í Grundarfirði. Foreldrar Sólveigar voru hjónin Jón Guðmundsson, f. 13.9. 1919, d. 25.1. 1974, og Unnur Aðalheiður Jónsdóttir, f. 1.8. 1917, d. 8.9. 1991, bóndi og húsfreyja í Stóru-Ávík í Árneshreppi.

Börn Guðmundar og Sólveigar eru 1) Bergvin Sævar, f. 18.10. 1961, sjómaður og búsettur í Grundarfirði, maki: Elínborg Þorsteinsdóttir; 2) Birgir, f. 13.3. 1963, forstöðumaður á Kvíabryggju, búsettur í Grundarfirði, maki: Patricia Laugensen, 3) Unnur Pálína, f. 22.7. 1966, bæjarstarfsmaður, búsett í Hafnarfirði; 4) Guðbjörg, f. 6.2. 1975, húsmóðir í Grundarfirði, maki: Hjálmar Gunnarsson; 5) Bryndís, f. 13.4. 1978, stuðningsfulltrúi, búsett í Grundarfirði, maki: Bjarni Georg Einarsson; 6) Hafrún, f. 7.4. 1981, sjúkraliði og starfar við grunnskólann í Grundarfirði, maki: Eiríkur Þór Halldórsson. Barnabörnin eru 20 og barnabarnabörnin eru 13.

Systkini Guðmundar: Guðlaug, f. 3.11. 1937, d. 5.12. 2012, húsfreyja, síðast í Mosfellsbæ; Guðjón, f. 22.5. 1942, fyrrverandi skipstjóri, búsettur í Mosfellsbæ, Samúel Vilberg, f. 26.2. 1944, pípulagningameistari, búsettur í Hafnarfirði; Þorgerður Erla, f. 18.11. 1946, húsfreyja á Patreksfirði; Ragnar Sólmundur 26.2. 1950, fv. starfsmaður Vatnsveitu Hafnarfjarðar, búsettur í Hafnarfirði; Anna Sigríður, f. 25.9. 1951, húsfreyja í Hafnarfirði, Jón Elías, f. 10.6. 1955, fv starfsmaður Norðuráls, búsettur á Spáni, og Ólöf Brynja, f. 16.10. 1961, vinnur hjá ASÍ, búsett í Hafnarfirði.

Foreldrar Guðmundar voru hjónin Jón Jens Guðmundsson, f. 27.5. 1912, d. 9.3. 2005, og Pálína Sigurrós Guðjónsdóttir, 13.11. 1919, d. 24.5. 2006, bóndi og húsfreyja á Munaðarnesi. Þau bjuggu í Hafnarfirði síðustu árin.