Fyrirliðar Nacho Heras klúðraði sinni vítaspyrnu hjá Keflavík en Kristinn Freyr Sigurðsson skoraði úr sinni og tryggði Val sigur í vítaspyrnukeppni.
Fyrirliðar Nacho Heras klúðraði sinni vítaspyrnu hjá Keflavík en Kristinn Freyr Sigurðsson skoraði úr sinni og tryggði Val sigur í vítaspyrnukeppni. — Ljósmynd/Kristinn Steinn
Valur varð í gærkvöldi fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu með því að leggja 1. deildar lið Keflavíkur að velli í vítaspyrnukeppni í átta liða úrslitum keppninnar á grasvelli Keflavíkur í Reykjanesbæ

Bikarkeppnin

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Valur varð í gærkvöldi fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu með því að leggja 1. deildar lið Keflavíkur að velli í vítaspyrnukeppni í átta liða úrslitum keppninnar á grasvelli Keflavíkur í Reykjanesbæ.

Staðan að loknum venjulegum leiktíma var 2:2 og 3:3 að lokinni framlengingu. Valur vann svo í vítaspyrnukeppni, 5:3.

Bestu deildar lið Vals, sem er þar í þriðja sæti, lenti í stökustu vandræðum með heimamenn, sem eru í fjórða sæti 1. deildar.

Valur náði forystunni á 33. mínútu þegar Patrick Pedersen skoraði með góðu vinstri fótar skoti úr vítateignum eftir að Guðmundur Andri Tryggvason lagði boltann út á hann.

Viðsnúningur Keflavíkur

Stuttu síðar jafnaði Ásgeir Páll Magnússon metin fyrir Keflavík þegar hann kom boltanum niður í vinstra hornið eftir misheppnaða hreinsun Bjarna Marks Antonssonar.

Snemma í síðari hálfleik, á 56. mínútu, kom Dagur Ingi Valsson heimamönnum í Keflavík í forystu með þrumuskoti rétt fyrir utan vítateig í kjölfar þess að varnarmenn Vals höfðu í tvígang komist fyrir skot Vals Þórs Hákonarsonar.

Á 68. mínútu skoraði Gunnlaugur Fannar Guðmundsson, varnarmaður Keflavíkur, sjálfsmark eftir fasta sendingu Kristins Freys Sigurðssonar sem stefndi á Pedersen.

Fleiri urðu mörkin ekki í venjulegum leiktíma.

Á 98. mínútu framlengingar náði Valur forystunni að nýju þegar Jónatan Ingi Jónsson skoraði með glæsilegri afgreiðslu hægra megin úr vítateignum eftir laglegan undirbúning varamannsins Adams Ægis Pálssonar á vinstri kantinum.

Dramatískt jöfnunarmark

Ekkert virtist benda til annars en að Valur væri að hafa sigur í framlengingunni þegar varamaðurinn Gabríel Aron Sævarsson, 18 ára Keflvíkingur, jafnaði metin á lokamínútu framlengingarinnar.

Dagur Ingi skallaði þá boltann fyrir fætur Gabríels Arons sem náði smá snertingu á boltann, beint á Fredrik Schram í marki Vals sem missti boltann klaufalega í markið. Var þetta fyrsta mark Gabríels Arons í meistaraflokki.

Því þurfti vítaspyrnukeppni til að knýja fram úrslit. Í henni skoraði Valur úr öllum fimm spyrnum sínum en Keflavík úr þremur af fjórum spyrnum sínum.

Fredrik varði spyrnu Nacho Heras og bætti þannig upp fyrir mistök sín undir lok framlengingarinnar.

Átta liða úrslitin halda áfram í vikunni. Eina 1. deildar liðið sem er eftir nú þegar Keflavík er dottið úr leik, Þór, fær Stjörnuna í heimsókn á Þórsvöllinn á Akureyri næstkomandi miðvikudagskvöld.

Á fimmtudagskvöld fara svo tveir síðustu leikirnir fram. KA fær Fram í heimsókn á gervigrasvöll sinn á Akureyri og ríkjandi bikarmeistarar Víkings úr Reykjavík taka á móti Fylki á Víkingsvelli.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson