Rafvirkjar Feðgarnir Jón Ágúst, Pétur og Halldór Ingi vinna saman í fjölskyldufyrirtækinu Raftækjasölunni.
Rafvirkjar Feðgarnir Jón Ágúst, Pétur og Halldór Ingi vinna saman í fjölskyldufyrirtækinu Raftækjasölunni. — Morgunblaðið/Eyþór
Bræðurnir Jón Ágúst og Halldór Ingi Péturssynir útskrifuðust frá Rafmennt sem rafvirkjameistarar síðastliðinn laugardag. Pabbi þeirra, Pétur H. Halldórsson, er formaður Félags löggiltra rafverktaka og kom því að útskriftinni og fékk að rétta sonum sínum útskriftarskírteinin sín

Viktoría Benný B. Kjartansd.

viktoria@mbl.is

Bræðurnir Jón Ágúst og Halldór Ingi Péturssynir útskrifuðust frá Rafmennt sem rafvirkjameistarar síðastliðinn laugardag. Pabbi þeirra, Pétur H. Halldórsson, er formaður Félags löggiltra rafverktaka og kom því að útskriftinni og fékk að rétta sonum sínum útskriftarskírteinin sín. Bræðurnir tveir fóru í gegnum námið saman ásamt því að vinna í fyrirtækinu, Raftækjasölunni, sem er fjölskyldufyrirtæki í eigu pabba þeirra en bræðurnir eru meðeigendur. Morgunblaðið náði tali af feðgunum til þess að spjalla um afrekið. Bræðurnir grínast með það að þeir ætli að taka við fyrirtækinu þegar pabbi gamli hættir að vinna og flytur til Spánar. „Ætli maður taki ekki bara við þessu af gamla þegar hann ákveður einhvern tímann að hætta að vinna, hvenær sem það verður, það er góð spurning,“ segir Jón.

Hvernig var að fara í gegnum námið með bróður þínum?

„Það voru í rauninni forréttindi að hafa einhvern með sér,“ segir Halldór. Að sögn bræðranna voru þeir mikið að styðja hvor annan í gegnum námið, lærðu saman og ýttu hvor öðrum áfram. „Það sem hann lenti í vandræðum með hjálpaði ég honum með og öfugt,“ segir Halldór.

Eruð þið ekkert orðnir pirraðir hvor á öðrum?

„Nei, það vill svo vel til að við höfum alltaf átt það gott samband að það hefur aldrei verið neitt erfitt á milli okkar,“ segir Halldór.

Mikilvægt að mynda tengsl

Halldór ráðleggur fólki sem stefnir á þetta nám að mynda góðan hóp og ná góðu samstarfi við námsfélaga til þess að vera með einhvern sem getur hjálpað þegar þess þarf.

„Þetta er flott nám, bæði í Tækniskólanum og hjá Rafmennt, þetta er vinna en ef maður nær að halda utan um þetta þá gengur þetta bara vel og er ekkert mál,“ segir Jón.

Feta í fótspor pabba síns

Pétur segir að það hafi verið ævintýri líkast að fylgjast með þeim feta í hans fótspor og að sögn hans fengu bræðurnir mjög snemma áhuga á rafmagninu og hafa unnið hjá honum frá því að þeir voru ungir drengir. „Þeir eru mjög ljúfir strákar og taka tilsögn mjög vel og samstarf okkar hefur alltaf gengið bara gríðarlega vel, það hafa í rauninni aldrei verið neinir árekstrar í okkar samskiptum í vinnunni.“

„Ég er búinn að styðja þá eins og ég get í þessu námi, þetta er búið að taka á líka,“ segir Pétur og bætir við: „Þeir eru búnir að gera þetta samhliða vinnu, sem er talsvert þrekirki, að loknum vinnudegi að fara í skóla, það tekur á. Ég er gríðarlega stoltur af strákunum,“ segir Pétur að lokum.

Höf.: Viktoría Benný B. Kjartansd.