Gunnar V. Kristjánsson frá Sólbakka, Ytri-Njarðvík, fæddist 22. mars 1928. Hann lést 27. maí 2024 á Hrafnistu, Hlévangi.

Foreldrar hans voru Kristján Níels Konráðsson, f. 1. janúar 1902, d. 24. janúar 1985, og Dagbjört Unnur Magnúsdóttir, f. 15. nóvember 1908, d. 19. september 1998.

Gunnar gekk í hjónaband 27. maí 1950 með Jónu Gunnarsdóttur frá Vinaminni í Sandgerði, f. 2. ágúst 1927, d. 9. maí 2016. Gunnar og Jóna eignuðust fjögur börn: 1) Gunnveig Hulda Gunnarsdóttir, f. 31. mars 1946, maki Thor Sverrisson. 2) Einar Pálsson Gunnarsson, f. 22. september 1949, maki Þorbjörg R. Óskarsdóttir. 3) Linda Gunnarsdóttir, f. 21. júní 1957, d. 21. mars 1958. 4) Dagbjört Linda Gunnarsdóttir, f. 22. nóvember 1959, maki Jón Kr. Magnússon. Barnabörnin eru sjö, barnabarnabörnin 25 og barnabarnabarnabörnin tvö.

Gunnar vann sem vörubílstjóri. Starfaði síðar í fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli frá stofnun 1958 þar til hann fór á eftirlaun.

Útför Gunnars fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 10. júní 2024, klukkan 13.

Í dag kvaddi ég nafna, vin og afa minn. Óhætt er að segja að hann hafi reynst mér og mínu fólki vel í gegnum tíðina og hann var alltaf tilbúinn að hjálpa, ráðleggja og ræða um hlutina. Ég er gífurlega þakklátur fyrir hann afa og hans stuðning, hvort sem það var að leggja mér lífsreglurnar, skutla mér heim eftir skóla eða sækja körfuboltaleiki hjá mér og hvetja mig áfram þar sem hann var einn af mínum dyggustu stuðningsmönnum.

Ég sótti alltaf mikið til afa og ömmu í Baugholtið til þess að fá hlýju, heyra skemmtilegar sögur og fá góðgæti við eldhúsborðið. Það rifjast upp ótal skemmtilegar minningar þegar ég skoða myndir. Ein góð sækir á mig þegar happajakkinn sem hann mætti á alla körfuboltaleiki var farinn að bregðast og tók hann upp á því að brenna jakkann eftir úrslitakeppnina og öskunni sópað saman og sett í krukku og skrifað á með skrautskrift: „Lukkuúlpan brást og hefur hér með verið brennd“ og kom hann færandi hendi með krukkuna á afmælisdeginum mínum. Ég á krukkuna ennþá og hana geymi ég vel.

Hann var hrókur alls fagnaðar í veislum og oftar en ekki tók hann til máls og hélt ræður og þegar það var stemning tók hann fram skeiðarnar sem hann spilaði á af mikilli list og sló alltaf í gegn hvort sem það var í brúðkaupum, afmælum eða síðar meir hjá Eldey, kór eldri borgara á Suðurnesjum.

Eitt verð ég þó að viðurkenna að það vorum við bróðir minn Óskar sem settum upp geitungabúið í reynitréð fyrir utan eldhúsgluggann á Baugholtinu og þegar hann kom auga á það þá var ekkert verið að bíða eftir neinu – hann blandaði sterkustu eiturblönduna og úðaði á búið svo þeir myndu drepast hratt og örugglega en fljótlega fóru að renna á hann tvær grímur þegar hann sá að geitungabúið var hengt upp með snúrubandi og var það klippt niður og enginn viðurkenndi verknaðinn fyrr en nú!

Ég heyri ennþá hláturinn í afa Gunna þegar hann áttaði sig á því að það var verið að stríða honum.

Afi Gunni valdi heldur betur daginn til að kveðja en það gerði hann á 74 ára brúðkaupsdegi þeirra ömmu og fögnuðu þau brúðkaupsdeginum sínum saman í sumarlandinu.

Mikið þótti mér vænt um afa Gunna og þakka ég honum fyrir allt.

Gunnar
Einarsson.

Elsku afi.

Ég mun aldrei gleyma tímanum okkar saman. Öllum ferðunum í Hvamm og hversu oft ég fékk að lúlla á milli ykkar ömmu á Baugó. Ég var alltaf mikil afastelpa og þú varst alltaf mikill vinur og elskaðir að leika við mig.

Ég er þakklát fyrir minninguna frá brúðkaupsdeginum mínum þegar þú keyrðir mig í athöfnina, því það kom auðvitað enginn annar bílstjóri til greina. Þú með spjaldtölvuna á lofti, stoltur að taka myndir af minnstu afastelpunni þinni ganga í hjónaband.

Ég er þakklát fyrir að hafa verið mikið hjá þér síðustu mánuði og ekki síst þakklát fyrir að hafa haldið í höndina á þér þegar þú dróst síðasta andardráttinn.

Takk fyrir allt.

Þín

Marín.