Sigurjón Benediktsson
Sigurjón Benediktsson
Þessar síðustu kosningar sýna okkur almenningi að við erum aðeins fóður fyrir skoðanamyndandi „kannanir“ sem hafa ekkert með lýðræði að gera.

Sigurjón Benediktsson

Síbyljan „að kjósa með hjartanu“ ríður nú húsum og er uppistaðan í blaðri vitringanna. Allir ættu vita að það er kosið með blýanti, sem þó inniheldur ekkert blý. Blekkingin byrjar þar. Einn gáfupáfinn er búinn að innleiða að hans frambjóðandi hafi tapað af því að kjósendur (sem allir eru auðvitað bjánar) kusu „taktískt“, en þó með blýantinum.

Byrjað er að naga niður úrslit kosninga til forseta landsins. Flestir kjósendur eru krossfestir og hengdir á gálga álitsgjafa, sem fullyrðir að þessi og hinn hafi kosið „taktískt“, og þá líklega hvorki með blýanti né hjarta í hendi. Allir eru auðvitað heilalausir. Undarlegt finnst mér þegar álitsgjafinn telur sig vita hvað kjósendur gera og hugsa í kjörklefanum. Auðvitað veit hann ekkert um það. Auk þess kemur það honum ekkert við.

Skoðanamyndandi „kannanir“

Þessar síðustu kosningar sýna okkur almenningi að við erum aðeins fóður fyrir skoðanamyndandi „kannanir“ sem hafa ekkert með lýðræði að gera. Fremst ganga þar fjölmiðlar og fyrirtæki sem lifa á ríkisframlögum. Það góða fólk sem nennir og getur boðið sig fram t.d. til forseta er svívirt og smánað. Ef ekki fyrir skoðanir sínar þá fyrir störf sín, kynlanganir, fataburð og annað í þeim dúr.

Fortíðin er björt!

Fátt jákvætt stendur eftir þennan viðburð. Ungt fólk, sem enn er ekki orðið gjörspillt af peningum og völdum, er dregið á asnaeyrunum og talin trú um að þetta sé allt gert fyrir þau og þeirra framtíð. Taumarnir enda ávallt í höndum þeirra sem eiga ekkert nema spillta og sjúka fortíð.

Ný líkklæði

Ég vil svo að lokum benda á að ég hef hafið framleiðslu á líkklæðum. Þar er að finna lokaðan vasa fyrir skuldabréf og hlutabréf, sérvasi er fyrir seðla og lausa aura, lítill minningapoki er vinstra megin og stór sakaskrá passar í hulstur hægra megin. Gjaldeyrisgeymsla er á innanverðum löfum líkklæðisins, hentugt fyrir evrur og dollara. Sérpöntun á vösum fyrir skartgripi og heiðursmerki möguleg, gegn vægu gjaldi. Tvær útfærslur: „Allt er betra hinum megin“ og svo „Hér kem ég!“. Leður á slitflötum.

Höfundur er fyrrverandi tannlæknir.

Höf.: Sigurjón Benediktsson