Óskar Hrafn Þorvaldsson hefur verið ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá KR en félagið tilkynnti um ráðninguna í gær. Óskar lék með KR á árum áður og þjálfaði yngri flokka hjá félaginu en hann stýrði síðan liðum Gróttu og Breiðabliks og tók við sem þjálfari norska úrvalsdeildarliðsins Haugesund í vetur. Hann sagði hins vegar óvænt upp störfum þar 10. maí.
Sierra Marie Lelii, bandaríska knattspyrnukonan í Þrótti úr Reykjavík, spilar ekki meira á þessu tímabili. Hún sleit krossband og liðband í hné í æfingaleik. Sierra er 31 árs og hefur spilað hér á landi frá 2017, með Þrótti, Haukum, SR og ÍH en hún spilaði í fyrsta sinn í efstu deild á síðasta tímabili og skoraði þá fjögur mörk í 15 leikjum með Þrótti. Hún hafði skorað eitt mark í fimm leikjum á þessu tímabili.
Ángel Di María tryggði heimsmeisturum Argentínu sigur á Ekvador, 1:0, í vináttulandsleik þjóðanna í knattspyrnu sem fram fór í Chicago í Bandaríkjunum í fyrrinótt. Markið kom á 40. mínútu en Lionel Messi leysti Di María af hólmi snemma í síðari hálfleiknum. Argentína á eftir að mæta Gvatemala í öðrum vináttuleik áður en Ameríkubikarinn, Copa America, hefst í Bandaríkjunum 20. júní.
Hollenska knattspyrnusambandið tilkynnti eftir leikinn gegn Íslandi í gærkvöld að Frenkie de Jong, miðjumaður Barcelona, yrði ekki með liði Hollands á EM í Þýskalandi. De Jong var ekki með í leiknum í Rotterdam en hann hefur glímt við ökklameiðsli undanfarna mánuði og aðeins spilað þrjá leiki síðan í mars vegna þeirra. Ronald Koeman, þjálfari Hollendinga, sagði fyrir leikinn í gær að De Jong yrði í hópnum.
Birkir Hrafn Eyþórsson, unglingalandsliðsmaður í körfuknattleik, er genginn til liðs við Hauka en hann hefur leikið með Selfyssingum í 1. deildinni. Birkir er mjög hávaxinn skotbakvörður, 2,01 metri á hæð, og var með 17 stig og 7 fráköst að meðaltali í leik með Selfyssingum í vetur.
Robert Lewandowski, einn mesti markaskorari Evrópufótboltans um árabil, fór meiddur af velli í fyrri hálfleik í gærkvöld þegar Pólverjar sigruðu Tyrki, 2:1, í vináttulandsleik í Varsjá. Þetta skapar óvissu fyrir pólska landsliðið sem er á leið á EM og mætir Hollendingum í fyrsta leik riðlakeppninnar á sunnudaginn kemur. Lewandowski lagði upp mark fyrir Karol Swiderski áður en hann fór af velli. Swiderski fór reyndar líka meiddur af velli í fyrri hálfleik.
Boston Celtics er komið í 2:0 í einvíginu við Dallas Mavericks um NBA-meistaratitilinn í körfuknattleik eftir annan sigur á heimavelli í fyrrinótt, 105:98. Liðin fara nú til Dallas og spilar þar tvo næstu leiki en fjóra sigra þarf til að verða meistari. Jrue Holiday var stigahæstur í liði Boston með 26 stig og Jaylen Brown skoraði 21. Jayson Tatum var frábær í vörn og átti 12 stoðsendingar. Luca Doncic átti frábæran leik með Dallas, skoraði 32 stig, átti 11 stoðsendingar og tók 11 fráköst, var sem sagt með þrefalda tvennu.