[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Óskar Hrafn Þorvaldsson hefur verið ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá KR en félagið tilkynnti um ráðninguna í gær. Óskar lék með KR á árum áður og þjálfaði yngri flokka hjá félaginu en hann stýrði síðan liðum Gróttu og Breiðabliks og tók við sem…

Óskar Hrafn Þorvaldsson hefur verið ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá KR en félagið tilkynnti um ráðninguna í gær. Óskar lék með KR á árum áður og þjálfaði yngri flokka hjá félaginu en hann stýrði síðan liðum Gróttu og Breiðabliks og tók við sem þjálfari norska úrvalsdeildarliðsins Haugesund í vetur. Hann sagði hins vegar óvænt upp störfum þar 10. maí.

Sierra Marie Lelii, bandaríska knattspyrnukonan í Þrótti úr Reykjavík, spilar ekki meira á þessu tímabili. Hún sleit krossband og liðband í hné í æfingaleik. Sierra er 31 árs og hefur spilað hér á landi frá 2017, með Þrótti, Haukum, SR og ÍH en hún spilaði í fyrsta sinn í efstu deild á síðasta tímabili og skoraði þá fjögur mörk í 15 leikjum með Þrótti. Hún hafði skorað eitt mark í fimm leikjum á þessu tímabili.

Ángel Di María tryggði heimsmeisturum Argentínu sigur á Ekvador, 1:0, í vináttulandsleik þjóðanna í knattspyrnu sem fram fór í Chicago í Bandaríkjunum í fyrrinótt. Markið kom á 40. mínútu en Lionel Messi leysti Di María af hólmi snemma í síðari hálfleiknum. Argentína á eftir að mæta Gvatemala í öðrum vináttuleik áður en Ameríkubikarinn, Copa America, hefst í Bandaríkjunum 20. júní.

Hollenska knattspyrnusambandið tilkynnti eftir leikinn gegn Íslandi í gærkvöld að Frenkie de Jong, miðjumaður Barcelona, yrði ekki með liði Hollands á EM í Þýskalandi. De Jong var ekki með í leiknum í Rotterdam en hann hefur glímt við ökklameiðsli undanfarna mánuði og aðeins spilað þrjá leiki síðan í mars vegna þeirra. Ronald Koeman, þjálfari Hollendinga, sagði fyrir leikinn í gær að De Jong yrði í hópnum.

Birkir Hrafn Eyþórsson, unglingalandsliðsmaður í körfuknattleik, er genginn til liðs við Hauka en hann hefur leikið með Selfyssingum í 1. deildinni. Birkir er mjög hávaxinn skotbakvörður, 2,01 metri á hæð, og var með 17 stig og 7 fráköst að meðaltali í leik með Selfyssingum í vetur.

Robert Lewandowski, einn mesti markaskorari Evrópufótboltans um árabil, fór meiddur af velli í fyrri hálfleik í gærkvöld þegar Pólverjar sigruðu Tyrki, 2:1, í vináttulandsleik í Varsjá. Þetta skapar óvissu fyrir pólska landsliðið sem er á leið á EM og mætir Hollendingum í fyrsta leik riðlakeppninnar á sunnudaginn kemur. Lewandowski lagði upp mark fyrir Karol Swiderski áður en hann fór af velli. Swiderski fór reyndar líka meiddur af velli í fyrri hálfleik.

Boston Celtics er komið í 2:0 í einvíginu við Dallas Mavericks um NBA-meistaratitilinn í körfuknattleik eftir annan sigur á heimavelli í fyrrinótt, 105:98. Liðin fara nú til Dallas og spilar þar tvo næstu leiki en fjóra sigra þarf til að verða meistari. Jrue Holiday var stigahæstur í liði Boston með 26 stig og Jaylen Brown skoraði 21. Jayson Tatum var frábær í vörn og átti 12 stoðsendingar. Luca Doncic átti frábæran leik með Dallas, skoraði 32 stig, átti 11 stoðsendingar og tók 11 fráköst, var sem sagt með þrefalda tvennu.