Jaðarflokkar færast nær meginstraumi stjórnmála í Evrópu

Völd Evrópuþingsins eru að sönnu lítil, en úrslitin í kosningunum til þeirra eru skellur fyrir Evrópusambandið (ESB) og til marks um hvernig pólitískir vindar í álfunni blása.

Vindáttin er skýr: þeim flokkum vegnaði best, sem standa gegn óheftum þjóðflutningum, beita sér gegn alþjóðavæðingu og hafna grænkreddu, en öðrum síður.

Slíkir flokkar eru þegar við völd í Ítalíu, Ungverjalandi og Slóvakíu, eiga hlut að stjórnarsamstarfi í Svíþjóð og Finnlandi, hið sama verður senn raunin í Hollandi, kannanir benda til þess að það eigi eftir að gerast í Austurríki og jafnvel Belgíu. Er þá unnt að kalla þá jaðarflokka lengur?

Í Frakklandi vann flokkur Marine Le Pen sigur, svo Macron forseti rauf þing og boðar til þingkosninga. Í Þýskalandi er þjóðernisöfgaflokkurinn AfD orðinn næststærstur og þrýst er á Olaf Scholz kanslara um að efna til kosninga þar líka. Á hinn bóginn jók Giorgia Meloni forsætisráðherra Ítalíu fylgi sitt til muna og er í lykilstöðu.

Það er þó ekki svo að Evrópa sé að verða fasismanum að bráð eins og halda mætti af æstustu álitsgjöfum. Meloni hefur þannig reynst mun nær miðju en margir ætluðu henni og enginn óvinur lýðræðisins. Mestu öfgaflokkarnir verða sem fyrr einangraðir og áhrifalausir.

Ekki er hægt að túlka niðurstöðurnar sem andstöðu við ESB eða aðild einstakra ríkja að því. Hitt blasir við að stór hluti kjósenda er sárónægður með hvernig þar er haldið á málum, ekki síst hvernig ESB hefur reynst máttvana í útlendingamálum; vilja Evrópusamband sem þjónar borgurunum í stað þess að skipa þeim fyrir verkum. Við því ákalli þarf að bregðast.