Samdráttur Fjárfesting dróst saman um 2% milli ára.
Samdráttur Fjárfesting dróst saman um 2% milli ára. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Fjárfesting í íbúðaruppbyggingu árið 2023 nam 195 milljörðum króna og dróst því saman um 2% að raunvirði á milli ára, ásamt því að íbúðum í byggingu fækkaði um 9,3%. Heildarfjárfesting á byggingarmarkaði jókst þó um 5% á milli ára í fyrra en hún nam 562 milljörðum króna

Fjárfesting í íbúðaruppbyggingu árið 2023 nam 195 milljörðum króna og dróst því saman um 2% að raunvirði á milli ára, ásamt því að íbúðum í byggingu fækkaði um 9,3%. Heildarfjárfesting á byggingarmarkaði jókst þó um 5% á milli ára í fyrra en hún nam 562 milljörðum króna.

Þetta sýnir þjóðhagsreikningur Hagstofunnar, en fjárfesting í íbúðarhúsnæði var aðeins rúmur þriðjungur heildarfjárfestingar á byggingarmarkaði í fyrra.

Rekja má aukna heildarfjárfestingu á húsnæðismarkaði til atvinnuhúsnæðis, en fjárfesting í mannvirkjum undir atvinnustarfsemi nam um 247 milljörðum króna árið 2023 sem er um 20% hækkun umfram byggingarvísitölu. Fjárfesting í opinberum mannvirkjum dróst þar að auki saman um 9% að raunvirði.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun telur þó að hlutdeild íbúðarfjárfestingar sé hugsanlega ofmetin, þar sem Hagstofan taki mið af stimpilgjöldum og söluþóknunum í útreikningum sínum, en ætla megi að þau nemi 5-10% af heildarfjárfestingu í íbúðarhúsnæði.

Stærðin svipuð og fyrir hrun

Þrátt fyrir að dregið hafi úr umfangi íbúðarbyggingar hefur velta byggingariðnaðarins aukist til muna, en hún jókst úr 548 milljörðum króna í 603 milljarða króna í fyrra, eða um 10% í fyrra. Byggingariðnaðurinn nálgast því svipaðar hæðir og á árunum fyrir efnahagshrunið 2008, en um 18 þúsund starfa nú að meðaltali í greininni, sem nemur um 8% alls vinnumarkaðarins.

Til viðmiðunar má nefna að hlutdeild starfsfólks í byggingariðnaði nam um 10% árið 2008.