Nýsköpun Svava Ólafsdóttir og Jón Ingi Bergsteinsson, stofnendur IceBAN – Íslenskir englafjárfestar.
Nýsköpun Svava Ólafsdóttir og Jón Ingi Bergsteinsson, stofnendur IceBAN – Íslenskir englafjárfestar. — Morgunblaðið/Eggert
Stofnuð hafa verið samtök fyrir englafjárfesta hér á landi undir nafninu IceBAN – Íslenskir englafjárfestar. Tilgangur samtakanna er að efla tengslanet og samvinnu milli englafjárfesta en stofnendur segja að mikil vöntun hafi verið á samtökum af þessu tagi á Íslandi

Magdalena Anna Torfadóttir

magdalena@mbl.is

Stofnuð hafa verið samtök fyrir englafjárfesta hér á landi undir nafninu IceBAN – Íslenskir englafjárfestar. Tilgangur samtakanna er að efla tengslanet og samvinnu milli englafjárfesta en stofnendur segja að mikil vöntun hafi verið á samtökum af þessu tagi á Íslandi.

Að baki samtökunum standa fjölmargir aðilar, meðal annars þau Svava Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri samtakanna, og Jón Ingi Bergsteinsson formaður.

Svava hefur starfað í stuðningsumhverfi frumkvöðla í yfir tíu ár, meðal annars hjá KLAK og Framvís. Árið 2019 stofnaði hún sitt eigið fyrirtæki sem heitir RATA og í gegnum það og önnur verkefni styður hún við bætta ferla í stuðningi við frumkvöðla á Íslandi.

Svava segir að hugmyndin að IceBAN sé ekki ný af nálinni og reynt hafi verið áður að stofna slík samtök á Íslandi. Svipuð samtök er að finna út um allt í Evrópu og Bandaríkjunum.

Jón Ingi hefur verið búsettur í Danmörku frá árinu 2008. Hann stofnaði hugbúnaðarfyrirtæki ásamt vini sínum árið 2013 sem hafði það markmið að aðstoða lækningatækjafyrirtæki við klínískar rannsóknir. Hann segir að það fyrirtæki hafi vaxið úr því að vera áhugamál tveggja vina yfir í að vera eitt þekktasta vörumerkið í lækningatækjageiranum.

„Ég hef ákveðið að það sé kominn tími á að ég flytji til Íslands en mig langar að nýta þá reynslu sem ég hef og gefa til baka til samfélagsins á einhvern hátt. Þess vegna vil ég taka þátt í uppbyggingu IceBAN,“ segir Jón Ingi.

Styðja við fyrirtæki

Hann bætir við að markmiðið með samtökunum sé að koma fleiri fyrirtækjum á laggirnar og styðja betur við fyrirtæki sem eru lengra komin í vaxtarferlinu.

„Við viljum búa til fleiri einhyrninga og samtökin munu mæla árangur sinn með því að halda utan um tölfræði fjárfestinga frá félagsmeðlimum. Við munum hvetja fyrirtæki áfram og hjálpa þeim að ná lengra. Það hefur hingað til verið virkilega erfitt fyrir ný fyrirtæki að nálgast englafjárfesta á skipulagðan og skilvirkan hátt en nú er kominn vettvangur til þess,“ segir Jón Ingi.

Hann bætir við að þau vilji auk þess fræða almenning um englafjárfestingar.

„Það á það til að vera litið hornauga að vera fjárfestir en það ætti ekki að vera það því englafjárfestar eru til dæmis að gefa til baka til samfélagsins með því að hjálpa nýjum fyrirtækjum að komast á legg og slíkt er gott fyrir samfélagið,“ segir Jón Ingi.

Hafa fengið góðar viðtökur

Svava segir að englafjárfestingar hafi þann kost t.d. umfram lán og styrki að englar komi ekki aðeins með peninga inn í fyrirtækið heldur líka þekkingu, reynslu og sambönd.

„Slíkt er í raun ómetanlegt, sérstaklega fyrir fyrirtæki á fyrstu stigum. Samtökin eru ekki rekin í hagnaðarskyni og okkar markmið er að vera til staðar fyrir meðlimi og þeirra fjárfestingar.“

Svava segir að þau hafi fengið virkilega góðar viðtökur við stofnun samtakanna. Samtökin hafi nú þegar staðið fyrir tveimur velsóttum viðburðum.

„Fólk hefur hrósað okkur fyrir þetta framtak og sagt að það væri kominn tími til að fá samtök af þessu tagi. Það eru til svona samtök víða, meira að segja í Færeyjum, þannig að það er tímabært að svona samtök séu stofnuð hér.“

Svava bætir við að samtökin ætli ekki einungis að aðstoða sprota á fyrstu stigum heldur líka fyrirtæki sem séu starfandi í dag og hafi áhuga á að selja hlut í fyrirtækinu eða fá inn viðskiptaengil.

„Samtökin bjóða upp á marga möguleika og við erum virkilega spennt og fólk er mjög áhugasamt um IceBAN,“ segir Svava.

Höf.: Magdalena Anna Torfadóttir