Ferðamenn Fjöldi erlendra gesta er mikill á landinu um þessar mundir.
Ferðamenn Fjöldi erlendra gesta er mikill á landinu um þessar mundir. — Morgunblaðið/Eggert
Bókanir á hótelum landsins í júní eru minni en á sama tíma í fyrra. Viðmælendur blaðsins eru sammála um það en eru ekki svartsýnir varðandi framhaldið. „Heldur hefur dregið úr bókunum fyrri hluta árs og það finna allir fyrir því

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Bókanir á hótelum landsins í júní eru minni en á sama tíma í fyrra. Viðmælendur blaðsins eru sammála um það en eru ekki svartsýnir varðandi framhaldið.

„Heldur hefur dregið úr bókunum fyrri hluta árs og það finna allir fyrir því. Apríl var ekki góður en sjálfur er ég bjartsýnn á að úr þessu rætist þegar líður á árið. Í júní er einnig heldur minna bókað en á sama tíma í fyrra,“ segir Kristófer Oliversson, hjá Center Hotels í Reykjavík og formaður Félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu.

Morgunblaðið hafði einnig samband við hótelstjóra hvorn sínu megin á landinu. Davíð Kjartansson hjá 701 Hótelum sem reka Hótel Valaskjálf og Hótel Hallormsstað og Kristján Þór Kristjánsson hjá Hótel Ísafirði.

Davíð segir bókanir til þessa í júní vera minni en í fyrra en nefnir að stundum byrji sumarið á Íslandi ekki fyrir alvöru fyrr en eftir 20. júní. „Samdrátturinn er einhver og við finnum fyrir honum. Erfitt er hins vegar að spá fyrir um hvernig mánuðurinn endar því nú er bara 10. júní. Yfirleitt hefur verið meira um bókanir fyrir hópa en einstaklinga en það hefur snúist við í byrjun sumars. Nú var nokkuð um afbókanir hjá hópum, til dæmis fyrr á þessu ári. Þegar margir úti í heimi voru að skoða ferðalög bárust erfiðar fréttir frá Íslandi varðandi eldgos sem hægði verulega á bókunum.“

Engin svartsýni

Davíð er bjartsýnn á framhaldið en bendir á að ferðaþjónustan sé í samkeppni við aðrar þjóðir rétt eins og ýmsar aðrar atvinnugreinar. „Lönd eins og Noregur og Finnland eru í samkeppni við okkur og hafa komið mjög sterk inn sem og Skotland og Írland. Það er ekki sjálfgefið að fólk velji að fara til Íslands,“ segir Davíð og bætir því við að verðlagið hérlendis geti spilað inn í. Það hjálpi til dæmis ekki ferðaþjónustunni á landsbyggðinni þegar verð á innanlandsflugið er himinhátt. „Austurlandið á mikið inni enda er hér stórbrotin náttúra og margar faldar perlur. Við förum því fullir tilhlökkunnar inn í sumarið.“

Kristján Þór segir einnig að Hótel Ísafjörður taki talsvert við hópum frá ferðaskrifstofum. Hann skýtur á að samdrátturinn í júní á milli ára gæti mögulega náð 10% en á von á því að staðan verði fín í júlí og ágúst.

„Ég hef ekki augljósa skýringu á þessu en það eru væntanlega nokkrir samverkandi þættir sem hafa áhrif. Í raun eru þetta bara vangaveltur um hvort eldgos hafi áhrif eða eitthvað annað. Ef það er rétt að ríkið dragi úr fjárveitingu í markaðssetningu þá er það áhyggjuefni. Við erum ekki það sérstök á Íslandi að við þurfum ekki að markaðssetja okkur,“ segir Kristján en fram hefur komið hjá framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, Jóhannesi Þór Skúlasyni, að markaðssetningin sé minni en hjá nágrannaþjóðum.

Höf.: Kristján Jónsson