Bæjarprýði Kirkjutröppurnar upp að Akureyrarkirkju eru eitt af aðalsmerkjum Akureyrarbæjar. Nýjar tröppur verða lagðar granítsteini.
Bæjarprýði Kirkjutröppurnar upp að Akureyrarkirkju eru eitt af aðalsmerkjum Akureyrarbæjar. Nýjar tröppur verða lagðar granítsteini. — Morgunblaðið/Ólafur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafur Pálsson olafur@mbl.is

Ólafur Pálsson

olafur@mbl.is

Vonir standa til að framkvæmdum við nýjar kirkjutröppur við Akureyrarkirkju verði lokið í lok ágúst. Þetta segir Guðríður Erla Friðriksdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar, í samtali við Morgunblaðið. Áætluð verklok voru síðasta haust en framkvæmdir hófust um mitt síðasta sumar. „Þetta er búið að ganga ágætlega við erfiðar aðstæður,“ segir Guðríður og tekur fram að áætluð verklok síðasta haust hafi verið mikil bjartsýni.

Uppfyllir alla hálkustaðla

Hún segir til að mynda að veðurfar þurfi að vera hagstætt vinnunni svo vel megi vera. „Við byggðum yfir þegar verið var að steypa neðsta hlutann en svo eru þetta einingar í efri hlutanum. Þetta er bara mikið mál og svo er eftir að ganga frá þessu öllu, leggja hitalögn og klára að setja granít ofan á tröppurnar og ganga frá öllu í kring.“

Sviðsstjórinn segir aðspurð að nýjar tröppur verði lagðar granítsteini sem ætlaður er til að vera úti og uppfylli alla hálkustuðla. Segir Guðríður að tröppurnar eigi helst að endast í 100 til 200 ár. Þannig segir hún að aðalmálið sé að vel sé staðið að framkvæmdinni og að svæðið komi til með að líta vel út enda tröppurnar bæjarprýði og eitt af aðalsmerkjum Akureyrarbæjar.

„Vonandi er þetta komið á gott skrið núna þegar búið er að koma þessum einingum fyrir og klára þessa steypuvinnu í tröppunum. Það er alltaf eitthvað sem getur klikkað,“ segir Guðríður. Það getur alltaf komið að viðhaldi í húsinu undir tröppunum. Þá þurfi að líma granítið ofan á tröppurnar og það skipti máli að vel takist til við líminguna. Það geti alveg klikkað og þá stytt endingartímann. „Við erum að reyna að velja góð efni og vanda þetta.“

Hjáleið um skemmtilegan stíg

Bærinn vinnur einnig að því með Akureyrarkirkju að endurnýja stíg sem liggur frá kirkjutröppunum og upp að safnaðarheimilinu og meðan á framkvæmdum stendur við kirkjutröppurnar geta vegfarendur gengið upp ansi skemmtilegan stíg sem liggur alveg neðan frá Hafnarstræti og upp að Sigurhæðum, húsi Matthíasar Jochumssonar, og þaðan alveg upp að Akureyrarkirkju. Meiningin er síðan að tengja stíginn, að sögn Guðríðar, við gamla Menntaveginn og alveg upp í Lystigarð.

Höf.: Ólafur Pálsson