Hjónin Sigrún og Kristinn í skíðaferð á Mýrdalsjökli en skíðamennska er þeim hjónum hugleikin.
Hjónin Sigrún og Kristinn í skíðaferð á Mýrdalsjökli en skíðamennska er þeim hjónum hugleikin.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristinn Garðarsson fæddist 11. júní 1964 í Reykjavík en ólst upp í austurbænum í Vestmannaeyjum fram að gosi 1973. „Húsið okkar á Bakkastíg 18 fór undir hraun í gosinu. Í Eyjum var skemmtilegt að alast upp, mikið frelsi og ævintýri við hvert fótmál

Kristinn Garðarsson fæddist 11. júní 1964 í Reykjavík en ólst upp í austurbænum í Vestmannaeyjum fram að gosi 1973. „Húsið okkar á Bakkastíg 18 fór undir hraun í gosinu.

Í Eyjum var skemmtilegt að alast upp, mikið frelsi og ævintýri við hvert fótmál. Klappirnar og Urðir, sem nú eru undir hrauni, voru leiksvæði okkar við sjóinn, staðir sem í dag þættu ekki öruggir fyrir börn.

Eftir gos fengum við inni hjá ættingjum á fastalandinu og síðar Viðlagasjóðshús í Kópavogi rétt fyrir jólin 1973. Í Kópavoginum voru í byrjun árs 1974 komnar saman rúmlega 50 fjölskyldur frá Eyjum í Viðlagasjóðshúsunum og var mikil sameldni meðal fólksins og ekki síst krakkanna.

Lífið hélt áfram og var ég til að byrja með í Fossvogsskóla en fluttist svo í Digranesskóla þar sem ég kynntist mörgum af mínum bestu vinum og kunningjum, enda var þetta fólkið sem ég fylgdi svo í gegnum gaggó og menntaskóla. Leiðin lá svo í Víghólaskóla og þaðan í Menntaskólann í Kópavogi. Kópavogur á því alltaf svolítið í mér, er t.d. gamall ÍK-ingur, þó ég sé náttúrulega fyrst og fremst Eyjamaður.“

Í Háskóla Íslands lærði Kristinn landfræði og útskrifaðist 1988. „Sumrin 1987-1989 vorum við Sigrún landverðir í þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum og auk þess starfaði ég í nokkra mánuði hjá Náttúruverndarráði.

Í október 1988 fékk ég svo vinnu á Morgunblaðinu við gerð korta og skýringarmynda við hlið míns góða læriföður Guðmundar Ó. Ingvarssonar, en hann á líka afmæli í dag! Mogginn í Aðalstræti 6 var ótrúlega skemmtilegur og lifandi vinnustaður þó að við sem unnum í kjallaranum sæjum sjaldan til sólar. Það var líka gaman að flytja með vinnustaðnum í Kringluna og þar sáum við loks út.“

Árið 1994 ákvað Kristinn að skella sér í framhaldsnám í University of Minnesota í Minneapolis í Bandaríkjunum þar sem hann tók MA í landfræði með áherslu á margmiðlun. „Við Sigrún vorum með syni okkar tvo í för og lauk hún líka framhaldsnámi þar í hjúkrun síðari tvö árin, en við komum aftur heim 1998. Auk námsins kenndi ég í skólanum og aðstoðaði prófessor við rannsóknir.

Það stóð ekki endilega til að fara að vinna á Mogganum aftur við heimkomu, en það fór nú samt svo. Á þeim tíma var verið að fara af stað með netútgáfu blaðsins, mbl.is, og endaði ég á að vinna á netdeild Moggans frá 1999 þar til ég hvarf á braut 2021. Þar störfuðu lengst með mér góðir vinir mínir Ingvar Hjálmarsson, Árni Matthíasson og Baldur Kristinsson. Það var mikill metnaður að gera vel enda var vefurinn frá upphafi sá mest lesni á landinu.“

Árið 2019 útskrifaðist Kristinn úr Leiðsöguskólanum og frá 2021 hefur hann starfað við fyrirtæki sem hann stofnaði ásamt vini sínum, Einari Torfa Finnssyni. „Áherslan er á gönguferðir á Grænlandi og Íslandi. Í Kulusuk eigum við hús þar sem við getum boðið gönguhópum upp á gistingu fyrir og eftir ævintýralegar ferðir um þorp og óbyggðir Austur-Grænlands.“

Áhugamál Kristins tengjast ferðalögum, útivist og veiði. „Síðustu ár hafa svo boðið upp á dýrmætar stundir með barnabörnum.“

Fjölskylda

Eiginkona Kristins er Sigrún Kristín Barkardóttir, f. 23.9. 1964, hjúkrunarfræðingur. Þau eru búsett í Seljahverfi í Reykjavík. Foreldrar Sigrúnar voru hjónin Börkur Benediktsson, f. 15.11. 1925, d. 20.6. 2022, og Sólrún Kristín Þorvarðardóttir, f. 28.11. 1938, d. 22.1. 2022, bændur í Núpsdalstungu í Miðfirði. Synir Kristins og Sigrúnar eru 1) Börkur Smári Kristinsson, f. 12.12. 1990, umhverfisverkfræðingur í Reykjavík. Maki: Sara Björk Lárusdóttir kennari. Börn þeirra eru Breki Freyr, f. 18.1. 2016, Ylfa Dögg, f. 25.8. 2017, og Atli Snær, f. 27.12. 2020; 2) Sigurður Kristinsson, f. 23.3. 1994, fjármálaverkfræðingur í Kópavogi. Maki: Sunneva Rán Pétursdóttir fjármálaverkfræðingur. Börn þeirra eru Yrja Katrín, f. 12.7. 2017, og Tindur Huginn, f. 24.6. 2021; 3) Björn Rúnar Kristinsson, f. 16.6. 2000, nemi í hagfræði.

Bróðir Kristins er Björn Zophonías Garðarsson, f. 23.5. 1955, búsettur í Stokkhólmi.

Foreldrar Kristins voru hjónin Garðar Júlíusson rafvirki, f. 10.11. 1932, d. 26.8. 1988, og Sigríður Bjarney Björnsdóttir skrifstofumaður, f. 17.8. 1934, d. 12.8. 2023.