Fjárbóndinn Sigurður Jökulsson á Vatni er brattur eftir miklar vökur við sauðburðinn. Frjósemi er á bænum og mikið af þrílembum og tvílembum.
Fjárbóndinn Sigurður Jökulsson á Vatni er brattur eftir miklar vökur við sauðburðinn. Frjósemi er á bænum og mikið af þrílembum og tvílembum. — Ljósmynd/María Hrönn Kristjánsdóttir
Sauðburði er nú að mestu lokið um allt land og bændur farnir að huga að undirbúningi heyskapar í sumar. Sigurður Jökulsson, bóndi á Vatni í Haukadal, segir sauðburð hafa gengið vel og undirbúningi fyrir heyskap sé að mestu lokið

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Sauðburði er nú að mestu lokið um allt land og bændur farnir að huga að undirbúningi heyskapar í sumar. Sigurður Jökulsson, bóndi á Vatni í Haukadal, segir sauðburð hafa gengið vel og undirbúningi fyrir heyskap sé að mestu lokið.

Líkir verði á áburði við kókaín

Hann segir að almennt sé staðan góð í kringum hann og enginn sé að kvarta. Hann noti verktaka til að bera á með fullkomnum tækjum því áburðurinn sé dýr og mikilvægt að nýta hann sem best.

„Áburðurinn er orðinn svo dýr að það mætti líkja þessu við kókaín, þannig að maður sáldrar þessu ekki út í loftið að gamni sínu. Ég fæ verktaka með tölvu- og gervihnattastýrða dreifara til þess að nýta áburðinn sem mest. Það margborgar sig. Það eru nokkrir strákar í þessu og þeir standa sig vel,“ segir Sigurður.

Miklar ræktunarframfarir

Hann segir það hafa einkennt sauðburðinn þetta árið að vorið kom rólega og sprettan seint. Það hafi verið orðið þröngt inni, en nóg hey til að gefa.

„Sauðburðurinn gekk vel en honum fylgja miklar vökur. Aukin frjósemi hefur bæði kosti og galla sem veldur því að vinna við sauðburðinn er mikil og erfitt er að fá starfsfólk. Heyin eru góð og ræktunarframfarirnar miklar,“ segir Sigurður.

Hann bætir við að mikið sé nú um þrílembur og tvílembda gemlinga, sem geri sauðburðinn einnig erfiðari.

„Þetta hefst samt alltaf einhvern veginn. Bændur eru alltaf að reyna að flýta þessu aðeins til að fá þyngri lömb sem eru þá fyrr tilbúin til slátrunar,“ segir hann.

Verktakar notaðir í heyskap

Sigurður segir að undirbúningur fyrir heyskapinn gangi vel og búið sé að laga það sem bilaði í fyrra.

„Túnin líta vel út. Það eru engin vandamál hér. Gróðurinn var frekar seinn til en eftir að fór að rigna og búið var að bera á, þá rýkur gróðurinn upp. Ég sé fram á mikinn heyskap í sumar. Það borgar sig að vanda vel til verka í heyskapnum og slá á réttu sprettustigi. Sjálfur sé ég um að slá, snúa og raka en verktakinn kemur og rúllar þetta. Svo tínir maður þetta upp eins og í berjamó.“

Hann stefnir á að byrja að slá seinni partinn í júní og vonast til að vera búinn fyrir Landsmót hestamanna, sem verður haldið í Reykjavík í byrjun júlí.

Höf.: Óskar Bergsson